Tuesday, June 12, 2012

Við höfum áhyggjur af framtíðinni í körfubolta


New Orleans mun nota fyrsta valréttinn til að taka Kentucky-framherjann hávaxna, Anthony Davis.

Annað kemur ekki til greina.

Á myndinni sérðu nákvæmlega af hverju.

Drengurinn er með yfirnáttúrulegt vænghaf og margir tippa á að hann eigi eftir að verða flottur varnarmaður í NBA um ókomin ár.

Eins og sum ykkar vita, fylgjumst við ekkert með háskólaboltanum. Með fullri virðingu fyrir þeirri keppni, þá nennum við ekki að horfa á litla krakka í Bandaríkjunum spila körfubolta. Gerum nóg af því hér heima.

Myndum kannski fylgjast með háskólaboltanum ef nú væri árið 1984, en í dag er tímanum miklu betur varið í að horfa á Iceland Express deildina og yngri flokka heima á klakanum.

Það var ekki ætlunin að nota þessa færslu til að drulla yfir háskólaboltann.

Punkturinn sem við vildum koma að, er að síðustu tvö til þrjú ár, hafa dunið á okkur loforð um að nýliðaárgangurinn árið 2012 ætti eftir að verða mjög sterkur - sá sterkasti í áraraðir.

Einmitt.

Nú heyrum við að Anthony Davis verði fínn, leikmenn tvö til sex svona la la og restin drasl.

Nýliðaárgangurinn 2013 verði svo almennilega lélegur.

Jesús, María, Jósef og allt þeirra fylgdarlið!

Þeir verða farnir að taka garðhúsgögn úr Europris í annari umferð á næsta ári.

Þetta er alvarlegt mál. Framleiðsla á góðum - og ekki síst hávöxnum - leikmönnum virðist vera að leggjast af.

Ekki margt í spilunum og við erum farin að óttast að þetta verði bara einhver búðingakeppni þegar 2003 árgangurinn lýkur keppni. Það er ekki að sjá að leikmenn á borð við Tim Duncan og Shaquille O´Neal séu væntanlegir í NBA.