Tuesday, June 12, 2012
Maður gegn manni
Úrslitaeinvígið sem framundan er í NBA deildinni verður stórkostleg skemmtun. Það er óhætt að segja það og lofa því fyrirfram. Fullt af stjörnum sem kunna að skemmta áhorfendum, jafnvel þó þær séu að reyna að drepa hver aðra á vellinum.
Stærsta einvígið í þessari rimmu er auðvitað milli Kevin Durant og LeBron James, af því þeir eru skærustu stjörnur liðanna og spila sömu stöðu á vellinum. Við gætum því fengið smá mano-a-mano stöff í lokaúrslitunum og það gerist ekki á hverjum degi.
Þeir Durant og James spila ekki bara sömu leikstöðu og hafa unnið þrjá af síðustu fjórum stigakóngstitlum í NBA (Wade þann fjórða). Þeir eru líka fyrstu mennirnir síðan 1998 sem mætast í úrslitum eftir að hafa hafnað í 1. og 2. sæti í kjörinu á verðmætasta leikmanni deildarinnar.
LeBron James var kjörinn verðmætasti leikmaður ársins 2012 og var það vel, en eins og síðast þegar 1. og 2. MVP börðust í lokaúrslitum, vilja menn auðvitað sanna inni á vellinum hver er hinn raunverulegi MVP í baráttu þeirra bestu.
Það voru Michael Jordan og Karl Malone sem voru númer 1 og 2 í MVP rallinu árið 1998. Árið áður líka, en þá hlaut Malone nafnbótina.
Þetta var umdeilt val á sínum tíma og margir voru á þvi að Jordan hefði átt að fá verðlaunin ´97 og Malone ´98 ef eitthvað var.
En auðvitað átti Michael Jordan skilið að fá þessi verðlaun flest árin sín í deildinni. Þetta er langt frá því að vera gallalaust kjör.
Við þurfum líklega að fara alla leið aftur til ársins 1992 til að finna dæmi um menn sem spiluðu sömu stöðu mættust í lokaúrslitum eftir að hafa orðið númer 1 og 2 í MVP kjörinu.
Það voru Michael Jordan og Clyde Drexler hjá Portland. Það var afskaplega skemmtileg sería og sú sem hefst í kvöld verður ekkert síðri. Það er bókað mál.
Efnisflokkar:
Finals 2012
,
Hágæðaskemmtun
,
Karl Malone
,
Kevin Durant
,
Klassík
,
LeBron James
,
Michael Jordan
,
MVP
,
NBA 101
,
Úrslitakeppni 2012