Monday, June 11, 2012

Smá hugleiðing um San Antonio Spurs:


Lið San Antonio Spurs hefur þetta allt saman og er á svo margan hátt algjört draumalið.

Klúbburinn er með mjög hæfan mannskap á skrifstofunni sem hefur byggt upp meistaralið nokkrum sinnum, heiðurshallarþjálfara, heiðurshallarleikmenn, alþjóðlegt yfirbragð, frábæran og "réttan" leikstíl,

Allt þetta hefur San Antonio til brunns að bera, en öllum heiminum - utan Texas - er drullusama.

Ef New York væri búið að ná þessum árangri sem San Antonio hefur náð frá aldamótum, væri það framan á íslensku símaskránni og leikmenn liðsins sætu við sama borð og Bill Russell.

Jú, jú, San Antonio á örfáa stuðningsmenn utan Texas, þó þeir séu ekki margir.

Við könnumst við nokkra þeir geta verið ansi montnir af liðinu sínu síðustu tvo áratugi - í tíð þeirra David Robinson og síðar Tim Duncan.

Ef við eigum að segja satt og rétt frá, þá hötuðum við San Antonio fyrir tuttugu árum. Eins og pestina.

En eins og með svo margt annað, þroskuðumst við og lærðum að meta Spurs. Seinna lærðum við að elska Spurs og margir halda að San Antonio sé uppáhaldsliðið okkar. Svo er reyndar ekki, en við elskum San Antonio meðal annars vegna alls þess sem við töldum upp í byrjun þessarar hugleiðingar.

San Antonio hefur mikið til búið við sama misskilning og þýska landsliðið í knattspyrnu síðustu ár. Það er rosalega algengt viðhorf að heyra fólk fussa og sveia yfir Spurs af því þeir séu leiðinleg varnarmaskína sem þjösnast alla leið að titlinum með litlum sóma.

Sama er oft sagt um Þjóðverjana. Alltaf er vitnað í þýska stálið og talað um öfluga samstöðu, varnarsinnaðan og fastan leik Þjóðverjanna, mekanísk föst leikatriði og vélmennaviðhorf leikmanna.

Vissulega eru Þjóðverjarnir þéttir og fastir fyrir, en allar þessar gömlu hugmyndir um að liðið sé varnarsinnað, mekanískt og leiðinlegt eru mesta bull sem fyrirfinnst í gervöllum heimi hugmyndafræðinnar.

Þjóðverjar spila árangursríkan og fallegan fótbolta og ef þú viðurkennir það ekki, ertu bara kjáni. Því miður.

Sömu sögu er að segja af San Antonio Spurs. Spilamenskan sem liðið bauð upp á í vetur og þær gríðarlegu breytingar sem Gregg Popovich hefur gert á liðinu, eru með ólíkindum. Spurs sprengdi alla tölfræðiskala þegar kom að sóknarnýtingu og vann 20 leiki í röð inn í úrslitakeppnina. Spilaði eins vel á þessum spretti og mörg meistaraliðin.

Hvað varð til þess að liðið tapaði svo fjórum leikjum í röð gegn Oklahoma City er efni í bókaflokk og heimildaþáttaröð.

Við urðum dálítið súr þegar Spurs datt út með þessum hætti. Satt best að segja vorum við að vonast til þess að gömlu mennirnir næðu í eina dollu í viðbót.

En tími Oklahoma-drengjanna virðist vera kominn, sem eru skelfileg tíðindi fyrir mótherja þeirra í vestrinu.

Þegar við förum yfir þessa seríu var bara eitt jákvætt við það að Oklahoma ruslaði San Antonio á haugana.

Við þuftum ekki að éta þetta ofan í okkur. Guði sé lof fyrir það.

Sú staðreynd að San Antonio hafi tapað fjórum leikjum í röð og dottið út úr úrslitakeppninni eftir tuttugu leikja sigurgöngu, undirstrikar hvað þetta tímabil er furðulegt.

Það sannar líka kenninguna sem við lögðum fram fyrir rúmum tveimur árum (linkurinn hér fyrir ofan), San Antonio hefur unnið sinn síðasta titil á þessum mannskap.

Það verður alltaf smá * fyrir aftan nafn liðsins sem vinnur titilinn árið 2012, þó stjarnan eigi minna erindi aftan við ártalið nú en í verkbanninu 1999.

Segðu hvað sem þú vilt um San Antonio, en ef þú berð einhverja virðingu fyrir leiknum, þá berðu virðingu fyrir Spurs í tíð Tim Duncan.

Það er bara þannig.