Saturday, December 3, 2011
Aðventutvíhöfði í vesturbænum
Það var óhemju skemmtilegt á aðventukvöldinu í DHL höllinni í vesturbænum í gærkvöldi. KR-ingar hýstu þá undanúrslitaeinvígin í Lengjubikarnum þar sem við áttust Grindavík-Þór og Keflavík-Snæfell.
Það er auðvitað ekki sama stemningin í þessu húsi þegar heimamenn eru ekki að spila og mest söknuðum við þess að finna ekki lyktina af grillinu. KR-ingar eru þó alltaf höfðingjar heim að sækja það vantar ekki. Það hefði mátt samt vera fleira fólk á leikjunum. Græni drekinn bjargaði málunum með krafti sínum og áhuga. Toppmenn og komnir í nýja búninga.
Grindvíkingar unnu enn einn leikinn þegar þeir skelltu Þórsurum í fyrri leiknum, 80-66. Þórsliðið barðist hetjulega en þeir gulu eru einfaldlega með meiri breidd og meiri gæði í sínum röðum. Grindavík hikstaði aðeins á móti svæðisvörn Þórsara, en maður hafði aldrei á tilfinningunni að þeir væru í stórkostlegum vandræðum. Dásamlegt að sjá boltahreyfinguna hjá Grindavíkurliðinu þegar það er í essinu sínu.
Keflavíkurliðið bókaði sæti í úrslitaviðureigninni við granna sína með 93-88 baráttusigri á Snæfelli. Það gefur góð fyrirheit fyrir Keflavík að rúlla í úrslitin án þeirra Magnúsar Gunnarssonar (bann) og Arnars Freys Jónssonar (meiðsli).
Við höfum á tilfinningunni að Keflavíkurliðinu sé að vaxa fiskur um hrygg og það var gríðarlegur andi í liðinu í gærkvöldi. Þeir geta vel unnið granna sína í úrslitaleiknum ef þeir verða í stuði.
Lið Snæfells, eins og svo mörg önnur lið í Iceland Express deildinni, er enn ekki farið að spila eins og við ætlumst til af því. Snæfell á heima í pakkanum við toppinn, á því leikur enginn vafi.
Við ætlum ekki að gera sjálfum okkur eða ykkur þann óleik að fara að spá mikið í úrslitaleikinn í dag, en hann markar annað prófið á stuttum tíma fyrir taplausa Grindvíkinga.
Grindavík er einfaldlega langbesta liðið í deildinni í dag og situr fast í toppsæti vinsældalistans. Keflavík fær fínan séns til að reyna að hræra eitthvað í því með sigri í úrslitaleiknumm en þeir gulu eru alveg hrikalegir. Dálítið eins og þessir tveir hérna fyrir neðan.
Úrslitaleikurinn í Lengjubikarnum fer fram í DHL höllinni í Frostaskjóli klukkan 16:00 í dag, laugardag, og það væri gaman að sjá þig á pöllunum.
Efnisflokkar:
Grindavík
,
Heimabrugg
,
Keflavík
,
Lengjubikarinn
,
Snæfell
,
Þór Þorlákshöfn