Thursday, October 7, 2010

Skrítið sumar í Chicago


Flestir reiknuðu með að Chicago yrði stór spilari á leikmannamarkaðnum í sumar. Það gekk ekki eftir. Ekki eins og stuðningsmennirnir voru að vona. Þeir voru auðvitað að hugsa um heimamanninn Dwyane Wade, sem ákvað að vera áfram í hitanum í Miami.

Forráðamenn Chicago sátu þó ekki á höndunum á sér í sumar, heldur fóru út í búð og keyptu... Utah Jazz.

Carlos Boozer, Ronnie Brewer (óbeint) og Kyle Korver komu allir frá Utah. Kurt Thomas og Keith Bogans fylgdu í kjölfarið og þjálfarinn verður Tom Thibodeau, fyrrum varnarþjálfari Boston Celtics.

Það verður áhugavert að sjá hvernig Bulls-liðið kemur út í vetur. Þjálfarinn er óskrifað blað þegar kemur að því að vera aðal. Hann á eftir að hressa mjög upp á varnarleik Bulls en það er spurning hvað gerist á hinum enda vallarins.

Chicago hefur sárlega vantað ógnun inni í teig undanfarin ár og sumir segja að ef hún hefði verið til staðar hefði liðið verið við toppinn í Austurdeildinni. Nú er búið að lappa aðeins upp á það með Carlos Boozer en að okkar mati er enn stórt gat í þessu liði.

Boozer er kominn með sinn 20/10 leik og það er vel, en hvar eru skytturnar í liðinu? Mennirnir sem geta búið til sitt eigið skot og hitt reglulega fyrir utan? Þú veist, menn eins og Ben Gordon og John Salmons - sem eru farnir.

Chicago á eftir að verða gott lið en ekki nógu gott. Það vantar skyttur. Rose er ekki nógu góður skotmaður, Noah er lítill sóknarmaður, Boozer þarf að láta mata sig, Brewer hittir ekki hafið þó hann standi í árabát og Korver fær fjögur stig á sig fyrir hver þrjú sem hann setur í sókninni.

Við vorum búin að minnast á Boozer og meiðslin hans. Grátlegt. Boozer spilaði nákvæmlega 2 af hverjum 3 leikjum fyrir Utah Jazz á árum sínum þar og hann stefnir á að halda þeirri hefð áfram hjá Bulls. Hann á eftir að missa úr fyrstu vikurnar á tímabilinu og fyrir lið sem treystir á hann og er í bullandi baráttu í Austurdeildinni gætu þetta orðið dýrir leikir sem hann er að fara að missa af.

Þetta er það sem þú ert að kaupa þegar þú færð Boozer. Hann skilar oftast góðu verki, þegar hann spilar. Hann talar eins og stjórnmálamaður og er gjörsamlega skelfilegur varnarmaður. Það hentar honum samt betur að spila með Bulls en Jazz í vörninni, þar sem hann er með Noah til að hreinsa upp eftir sig skítinn.

Ástæða þess að við erum að röfla þetta um Chicago er að við erum lúmskt hrifin af þessu liði og sáum Bulls sem lið þyrfti ekki að bæta miklu við sig til að verða alvöru lið. Félagið hamaðist mikið í sumar en niðurstaðan er dálítil vonbrigði. Það getur vel verið að Chicago eigi eftir að bæta sig nokkuð, en þetta lið er mjög augljóslega einum sterkum skotbakverði frá því að verða alvöru.

Það sem forráðamenn Chicago þrá þó mjög líklega mest af öllu er góð heilsa lykilmanna. Meiðsli fóru illa með Bulls í fyrra og við skulum vona fyrir þeirra hönd að Boozer sé ekki að leggja línurnar fyrir komandi vetur í þeim efnum.