Thursday, October 28, 2010

Hver er þessi Evan Turner?


Hún var ekki dónaleg, frumraun nýliðans Evan Turner hjá Philadelphia 76ers í gær. Jú, liðið hans steinlá að vísu á heimavelli gegn Miami, en þar með eru leiðindin upptalinn þennan daginn hjá Turner (eða Gollum Gunnarssyni eins og við uppnefndum hann víst í færslu fyrir nokkrum dögum).

Turner átti nefnilega afmæli í gær. Ekki dónalegt að spila sinn fyrsta NBA leik á afmælisdaginn sinn. Hann var eðlilega dálítið taugaspenntur í byrjun og klikkaði á fyrstu þremur skotunum sínum. En Turner var fljótur að hrista þetta af sér og hitti úr næstu sjö skotum sínum í leiknum. Skilaði 16 stigum, 7 fráköstum og 4 stoðsendingum og dekkaði bæði LeBron James og Dwyane Wade.

Þetta er víst kallað að stökkva út í djúpu laugina. Ekki amalegur afmælisdagur hjá pilti. Hann er kannski með raddböndin í ennisholunum, en hann lítur út fyrir að kunna körfubolta.