Wednesday, May 5, 2010

Við kennum Mike Brown um ófarir Cleveland í körfubolta


Óvæntustu úrslitin í úrslitakeppninni til þessa áttu sér stað á þriðjudagskvöldið þegar Boston valtaði yfir rænulaust Cleveland-lið á útivelli.

Staðan þar er því orðin 1-1 og næstu tveir leikir fara fram í Boston.

Það væri hægt að skrifa nokkrar blaðsíður um þetta einvígi og hvert það er að stefna.

Rajon Rondo er besti og mikilvægasti leikmaður Boston og liðið fer eins langt í þessu einvígi og hann fer með það. Það þýðir líklega að hann þarf að spila 48 mínútur í leik til að gera það.

Við nennum ekki að pæla í því hvort LeBron James er meiddur eða ekki. Látum öðrum það tuð eftir.

Margir hafa þegar afskrifað Cleveland í úrslitakeppninni eftir þetta ljóta tap, en þó það sé full mikil dramatík, rifjaði þetta tap heimamanna upp staðreynd sem við vorum búin að steingleyma.

Mike Brown er ekki nógu góður þjálfari.

Við höfum oft lýst þessari skoðun okkar, hvort sem það var hér eða á kaffistofunni, en við vorum búin að gleyma þessu.

Brown, sem er drengur góður og dagfarsprúður alla jafna, var brjálaður á blaðamannafundinum eftir tapið. Hann er orðinn hræddur og má vera það.

Það er auðvelt að gleyma því að lið sé ekki með nógu góðan þjálfara þegar það krúsar í gegn um deildakeppnina á góðum mannskap og vinnur 60 leiki.

Svo byrjar úrslitakeppnin og þá reynir meira á þjálfarana. Þeir verða að vera með gameplan og vita hvað þeir ætla að gera með róteisjónið sitt. Það hefur Mike Brown ekki.

Af hverju er hann t.d. að spila Shaquille O´Neal og Zydrunas Ilgauskas núna þegar Anderson Varejao og JJ Hickson voru mennirnir sem voru að dílivera þegar liðið spilaði best í vetur? Shaq skoraði nokkrar körfur í fyrsta leiknum en heilt yfir tekur hann meira af borðinu en hann gefur Cavs. Það er augljóst.

Og af hverju er Cleveland að mæta til leiks á móti Boston eins og þeir séu að fara að spila sýningarleik við Tindastól? Muna þeir ekki hvað kom fyrir Apollo Creed þegar hann barðist við Ivan Drago?

Við viðurkennum að við vanmátum Celtics líklega meira en Cleveland gerði, en það er ástæða fyrir því. Boston var 50% lið frá áramótum og nennti þessu ekki. Virtist hlakka til að fara á Benidorm í lok apríl ef eitthvað var.

Við erum með óbragð í munninum yfir þessari séríu og við viðurkennum það fullkomlega að það fer í taugarnar á okkur að Celtics skuli allt í einu hafa ákveðið að spila eins og menn núna. Fengum magakrampa þegar við sáum Rasheed Wallace setja niður þessi skot.

Það er sama hvort það er í vörn eða sókn, Cleveland er bara að líta illa út. Talandi dæmi um það er þegar Kevin Garnett fær að líta vel út í sóknarleiknum. Garnett hefur ekki gert annað en að taka stökkskot í tvö ár, en núna er hann að skora í teignum og fær að hlaupa í gegn og troða með annari - nokkuð sem við höfum ekki séð síðan hann spilaði með Minnesota.

Þetta er gaman fyrir græna en skelfilegt ef þú heitir Mike Brown.

Ef við lítum á björtu hliðarnar, þýðir þetta tap Cleveland bara að þessi séría verður háklassa skemmtun. Það hefði verið frekar lélegt að hafa bara eitt spennandi einvígi í annari umferðinni.

Cleveland þarf samt alvarlega að taka sig saman í andlitinu og finna drápseðlið. Liðið hefur verið afleitt í fyrstu tveimur leikjunum og Boston er bara skrefinu á undan það sem af er.

Eins og við sögðum hér fyrir ofan. Það er kannski óþarfi að fara fram úr sér út af einum leik og dæma Cleveland úr leik, en ef Boston næði að vinna þessa seríu - yrði það mesta skita síðan Dallas tapaði fyrir Golden State í fyrstu umferðinni hérna um árið (og það var söguleg skita).

Cleveland hefði átt að skipta um þjálfara fyrir löngu, löngu, löngu síðan. Ef liðið verður ekki meistari í næsta mánuði, verður sú ákvörðun mjög auðveld.

Og þessi yfirlýsing kemur frá okkur, sem erum á móti því að kenna þjálfurum alltaf um ófarir liða í NBA deildinni.