Wednesday, May 5, 2010
Mikilvægasti sigur úrslitakeppninnar til þessa
Í færslunni hérna fyrir neðan töluðum við um að stórsigur Boston í Cleveland í gær hefði verið sá óvæntasti í úrslitakeppninni til þessa.
Sigur Bucks á Hawks í leik fimm var reyndar ansi óvæntur, en í kvöld kom í ljós að Atlanta er búið að gleyma hvernig á að spila körfubolta og því kemur í raun á óvart að liðið skuli yfir höfuð hafa klárað Milwaukee.
Hafi Boston sigurinn í gær verið sá óvæntasti, var sigur Phoenix Suns á San Antonio Spurs á mánudagskvöldið sá mikilvægasti fyrir nokkurt lið í úrslitakeppninni til þessa.
Phoenix varð að vinna þennan leik.
Spurs-grýlan hefur verið Steve Nash og Suns-mönnum ansi erfið í úrslitakeppninni undanfarin ár og það síðasta sem Nash og félagar hefðu þurft var að tapa fyrsta leik á heimavelli í einvígi þar sem Phoenix er að mörgum talið sigurstranglegra.
Nash, sem er 0-6 í seríum gegn Spurs á ferlinum (2 með Dallas, 4 með Phoenix), var líka ekki á því að tapa þessum leik og spratt upp úr startblokkunum skjótandi. Það er ekki hægt að ítreka nógu oft hvað þessi maður er mikill snillingur.
Eins og reikna mátti með var þessi fyrsti leikur háklassa skemmtun. Sveiflukenndur, hraður og dramatískur.
Það er fyndið að hugsa til þess hvað eru margir sem eru fyrir löngu búnir að fá nóg af að horfa á Spurs-liðið. Segja að liðið sé leiðinlegt á að horfa og allt það. Samt er San Antonio auðveldlega það lið sem er að bjóða upp á bestu skemmtunina í úrslitakeppninni til þessa. Serían við Dallas var sú besta í fyrstu umferðinni og þessi gegn Phoenix verður betri.
Við skitum upp á bak með að að spá fyrir um þessa seríu af því við áttum erindi við lækna og lyf, en af því Phoenix vann fyrsta leikinn - getum við látið spá okkar líta betur út en ella.
Við ætlum nefnilega að spá Spurs sigri í þessu einvígi.
San Antonio þarf að finna svör við Nash og Stoudemire, en Phoenix þarf að finna svör við Parker, Hill, Ginobili og Duncan. Þessi sería snýst mikið um tempó alveg eins og Dallas-serían.
Pop þarf líklega að sjá af sérvisku sinni og smella Parker í byrjunarliðið aftur, en hann þarf líka að reyna að passa upp á að Jason Richardson sé ekki að skora 20+ stig í leik í þessari sériu.
Phoenix er búið að vinna ellefu leiki í röð þegar hann gerir það ef við munum rétt.
Richardson er búinn að vera algjör x-faktór hjá Suns í úrslitakeppninni og einn af þeim leikmönnum sem hafa spilað einstaklega vel og enginn talar um.
Enn einu sinni. Þessi sería verður jöfn og taumlaus skemmtun og þú getur séð þriðja leik liðanna í beinni á Stöð 2 Sport á föstudagskvöldið klukkan 1:30 eftir miðnætti.