Wednesday, May 5, 2010

Körfuboltalið óskar eftir sentimetrum


Það er eiginlega hallærislegt að vera að monta sig af því að allt sem við spáðum fyrir um í einvígi LA Lakers og Utah hefur komið á daginn.

Það var vitað mál að Lakers myndi rúlla þessari sériu upp hvort sem Jazz væri með allan sinn mannskap heilan eða ekki. En það er átakanlegt að horfa upp á þetta.

Lakers vinnur fyrstu tvo leikina með fimm og átta stigum, en við höfum sjaldan eða aldrei séð jafn ójaft einvígi. Það er nógu skelfilegt fyrir Utah-menn að skoða tölfræðina yfir fráköst og varin skot, en hún nær þó engan veginn að endurspegla muninn sem er á liðunum í teignum.

Carlos Boozer fer langverst út úr þessu. Öll skotin hans í seríunni eru erfið stökkskot úr jafnvægi og Lakers-menn eru búnir að draga úr honum vígtennurnar. Boozer er búinn að taka þrjú vítaskot í seríunni á næstum 80 mínútum. Og það er kannski ekki skrítið. Tölfræðingar sögðu okkur að Lakers hefðu varið sex skot frá honum í leik tvö.

Verðum samt að gefa mönnum eins og CJ Miles, Wesley Matthews, Paul Millsap og Ronnie Price eitt risastórt kúdós. Hvaða menn eru þetta segirðu? Nákvæmlega.

Utah er búið að tapa 16 leikjum í röð í LA og á því verður engin breyting, þó Lakers hafi ítrekað gefið Jazz færi á að stela leik í fyrstu leikjunum tveimur.

Liðin skipta með sér leikjunum í Salt Lake City og Lakers klárar þetta heima í fimmta leik.