Monday, May 10, 2010
Phoenix: Með körfubolta í annari og sóp í hinni
Á dauða okkar áttum við von.
En að Phoenix myndi sópa San Antonio út í annari umferð úrslitakeppninnar árið 2010? Nei.
Það gerðu liðið nú samt með 107-101 sigri í San Antonio í leik fjögur í nótt.
Leikurinn vakti upp gamlar minningar þegar Steve Nash var blóðgaður og þurfti að fara af velli rétt eins og þegar þessi lið mættust í sögufrægri seríu á sama tímapunkti árið 2007.
Þá, eins og raunar alltaf fram að þessu, var það San Antonio sem fór áfram eftir hörkueinvígi. Nú er röðin komin að Phoenix.
Ekki verður litið framhjá hetjuskap Nash þegar hann kom samanheftaður inn á völlinn aftur eftir að hafa tekið við drjúgum olnboga frá Tim Duncan. Spilaði fjórða leikhlutann eins og særður hnefaleikari. Plástraður, saumaður og sá ekki út um bólgna augað í lokin. Minnti á fræga persónu úr Spielberg-myndinni The Goonies frá árinu 1985.
Jafnt, en samt ekki
Af biturri reynslu spáðum við því að Dallas myndi leggja San Antonio í fyrstu umferðinni og halda svo áfram í gegn um Phoenix í þeirri næstu. Steve Nash og félagar höfðu aðrar hugmyndir.
Spádómar okkar í þessari úrslitakeppni hafa verið eins og góður splatter frá 9. áratugnum.
Gerðir af litlum efnum, lélegir, en það má alveg hafa gaman af þeim ef maður leggur sig fram við það.
Þegar lið eins og Phoenix er annars vegar, er bara gaman að hafa rangt fyrir sér. En að liðið skuli sópa San Antonio út eftir að Spurs stóðu sig svo vel á móti grönnum sínum í Dallas í fyrstu umferðinni. Það virtist, og virðist enn, fullkomlega óhugsandi.
Þeir segja að betra liðið vinni alltaf í sjö leikja seríu og því þarf líklega ekkert að efast um ágæti Phoenix eftir fjóra sigra þeirra í röð. Þetta var frábær sería og algjör met-sería í okkar bókum.
-Metsería, af því við höfum aldrei séð liði sópað í fjórum leikjum sem þó voru svona jafnir.
-Metsería, af því við höfum aldrei séð svona gott einvígi klárast í jafn fáum leikjum.
Það mætti eflaust skrifa sautján pistla um x-in og o-in í þessu einvígi og þið getið rétt ímyndað ykkur hvort við nennum því (eða höfum þekkingu til þess). Við ætlum því að reyna að henda niður nokkrum punktum sem við komum auga á í fljótu bragði, sem urðu til þess að þetta einvígi fór allt öðruvísi en við reiknuðum með.
Af hverju San Antonio tapaði:
-Tim Duncan er orðinn of gamall til að valda þeim skaða sem hann átti að valda í þessu einvígi og það á báðum endum vallarins. Gat líka ekki hitt úr víti til að bjarga lífi sínu.
-Parker átti að vera í byrjunarliðinu frá leik eitt. Beittur á köflum, en meiðsli hægðu á honum.
-Ginobili missti flugið þegar hann nefbrotnaði. Hann er prímusmótor Spurs en var ekki samur í þessu einvígi.
-Richard Jefferson hentar San Antonio ekki á nokkurn hátt og sýndi það í þessu einvígi.
-George Hill náði sér aldrei á strik í þessu einvígi.
-Liðsvörn San Antonio var ekki nógu góð, fann aldrei svör við sóknarleik Suns, liðið tapaði allt of mörgum boltum og hefur ekki sömu ógn fyrir utan og áður. Gríðarlega mikilvægt atriði.
Af hverju Phoenix vann:
-Steve Nash og Grant Hill eru ekki búnir að fatta að þeir eiga að vera komnir á síðustu dropana. Nash spilaði einstaklega vel eins og alltaf og framlag Hill í varnarleiknum var eins flott og það er í raun óvænt miðað við aldur hans og ferilskrá.
-Amare Stoudemire fékk að leika lausum hala. San Antonio á engan mann sem getur svo mikið sem hangið í honum og Spurs fann aldrei svör við vegg/veltu Stoudemire og Nash - sem þó var oft notað bara spari.
-Jason Richardson fann level í leik sínum sem hann vissi ekki að hann ætti.
-Varnarleikur Phoenix hefur í raun og veru batnað til muna.
-Varamenn liðsins hafa stigið á stokk og sýnt að þeir geta skilað sínu í úrslitakeppni. Nokkuð sem fáir hefðu veðjað á í þessum mæli.
-Alvin Gentry er greinilega miklu betri þjálfari en við (og fleiri) héldum.
Ragnar Reykhás
Það er skrítið að tala um að sería sem fer 4-0 hafi verið hnífjöfn þessi var það nú samt.
Það er ómögulegt að segja hvað hefði gerst ef einn dómur fer hingað en ekki þangað, bolti skoppar hingað en ekki þangað - nú eða Goran Dragic spilar ekki besta leik ævi sinnar á föstudagskvöldið. En svona hafa einvígi þessara liða einmitt verið undanfarin ár. Eitt nefbrot eða leikbann til eða frá og sögubækurnar litu jafnvel öðruvísi út.
Phoenix gaf San Antonio á kjaftinn á einhverjum tímapunkti í einvíginu og þó Spurs hafi staðið höggið af sér þá, er það ljóst núna að eftir það höfðu þeir ekki trú á að þeir myndu klára þennan bardaga á stigum.
Það er kannski dónalegt minna á það núna, en við sögðum ykkur þetta í febúar.
Hvað sem því líður náði liðið að sýna að það var ekki dautt úr öllum æðum og rústa spám okkar fyrir úrslitakeppnina. Það er nú ekkert svo slæmt.
Í lokin verður svo að geta þess að þó þú hatir San Antonio Spurs - og það gera ansi margir - geturðu ekki annað en viðurkennt að þetta lið hefur bæði auðmýkt og klassa. Það skein í gegn á blaðamannafundinum eftir leikinn og hefur gert frá árinu 1999.
Og hver einasti maður í þessu liði gaf gjörsamlega allt sem hann átti í þessari úrslitakeppni.
Þetta er til eftirbreytni. Lærum af þessum tignarlegu meisturum sem nú eru að setja niður í töskurnar og skella sér á Benidorm.