Monday, May 3, 2010

Gremjupistill um bestu körfuboltamenn í heimi


Fyrir nokkrum mánuðum lofuðum við að rökstyðja í pistli hérna þá skoðun okkar að LeBron James væri besti leikmaður heims.

Það er auðveldlega versta ákvörðun sem við höfum tekið síðan við opnuðum þetta vefsvæði.

Skrifuðum þrjá risavaxna pistla um þetta í kvöld, en hentum þeim öllum í ruslið um leið og við settum punktinn aftan við síðustu setninguna og bölvuðum eins og timbraður pólskur verkamaður eftir langa helgi.

Á sínum tíma vorum við að hugsa um að skrifa þennan pistil af því sumum fannst það í raun og veru vera einhver spurning hver væri besti leikmaður deildarinnar. Sem er galið.

Það hefur ekki verið spurning í ein tvö ár.

Ef þú ert einn af þeim sem heldur ennþá að Kobe Bryant sé besti leikmaður í heimi, ættir þú kannski að fara og kaupa þér ársmiða hjá HK í DHL-deildinni.

Kobe var bestur í heimi í nokkur ár. Þegar deildin var að verðlauna menn eins og Steve Nash og Dirk Nowitzki fyrir að vera verðmætustu leikmenn deildarinnar. En allir vita að það var Kobe var bestur. Við vissum það að minnsta kosti.

Svo hljóp Kobe á vegg í lokaúrslitunum árið 2008. Síðan hefur LeBron James verið að bæta sig og bæta sig og bæta sig.

Kobe er enn frábær leikmaður, en hann er ekki Mamba lengur. Mamba spilaði einn á fimm og skoraði sextíu og áttatíu stig upp á grínið - bara af því hann langaði að prófa það.

Kobe á erfitt uppdráttar núna af því hann er farinn að dala líkamlega, getur ekki lengur gert hvað sem hann vill á vellinum og er þar að auki að glíma við 1400 tegundir af meiðslum.

Það er dálítið spes að einmitt eftir að Kobe hljóp á Boston-vegginn fyrir tveimur árum, fóru allir að kalla hann besta leikmann í heimi.

Kannski af því að þá var hann kominn með Pau Gasol við hliðina á sér og Lakers-liðið varð loksins gott lið aftur.

Segðu hvað sem þú vilt. Kobe var ekki betri. Lakers-liðið var bara betra.

Við kaupum heldur ekki þetta "Nú er Kobe orðinn rosalega góður af því hann er búinn að þroskast og spilar nú fyrir liðið og gerir aðra betri" og allt það bull.

Kobe gaf aðeins eftir Mömbuna þegar liðið tryggði sér meistaratitilinn í fyrra, en þú þarft ekki að horfa lengra en á leik fjögur gegn Oklahoma um daginn til að sjá að hann er alls ekki orðinn sáttur við að spila leikinn ekki á sínum forsendum. Og verður það líklega aldrei héðan af.

Kobe Bryant er einn hæfileikaríkasti körfuboltamaður allra tíma og við horfum alls ekki framhjá því hvernig hann tryggði Lakers sigurinn leik eftir leik í vetur. Þessi pistill er ekki skrifaður til að dissa Kobe. Þetta er bara ískaldur NBA veruleiki, byggður á áhorfi atvinnuáhugamanna sem breytt hafa dögum í nætur og sundrað fjölskyldum til að komast að niðurstöðum á borð við þessa.

Kobe Bryant hefur ekki meðfæddan þennan einstaka hæfileika sem er að vita hvenær á að slá og hvenær á að verjast. Þetta element sem bestu leikmenn allra tíma hafa flestir. Að gera aðra leikmenn í kring um sig betri og vita nákvæmlega hvenær þeir eiga sjálfir að sjá um hlutina. Þessa töfrablöndu sem gerði Magic Johnson og Larry Bird að þeim goðsögnum sem þeir eru.

LeBron James var kominn með þetta element þegar hann var í menntaskóla og var einstakur leikmaður strax í fyrsta leik í atvinnumennsku.

Var bara með þetta.

Við höfum fylgst með þessum einstaka íþróttamanni frá því hann kom fyrst inn í deildina og það fyrsta sem við hrifumst af í leik hans var einmitt sú staðreynd hve mikill liðsmaður hann er.

Hann treystir alltaf liðsfélögum sínum - alveg sama hver það er og á hvaða tíma það er. Það er hrein unun að fylgjast með því.

Það er ansi hreint gott að búa yfir þessum hæfileikum sem taldir eru upp að ofan og þetta eitt væri nóg til að búa til fínan körfuboltamann. En LeBron James er líka fyrirbæri á vellinum út af líkamsburðum sínum og hæfileikum.

Það er enginn leikmaður í deildinni í dag sem getur dómínerað leik jafn fullkomlega og James. Með stigaskorun, fráköstum, stoðsendingum, stolnum boltum, vörðum skotum - nefndu það. Það er eiginlega óþarfi að telja þetta allt upp. Fólk sem hefur horft á nokkra leiki með Cleveland í vetur veit þetta.

Og það sem er súrrealískast við þetta er sú staðreynd að James er enn eftir að bæta sig umtalsvert. Hann verður betri og betri með hverjum mánuðinum sem líður og á enn talsvert í að ná toppaldri sem leikmaður.

Hann er bara 26 ára gamall og er ávísun á 30 stig  og sjö til átta fráköst og stoðsendingar að meðaltali í leik. Aðeins handfylli af leikmönnum í sögu NBA hafa boðið upp á tölfræði sem er nálægt þessum klassa og þeir eru allir í heiðurshöllinni.

Það er ansi djúpt í árina tekið að líkja manni sem hefur ekki unnið titil við menn eins og Bird og Magic. En honum til varnar verður að taka með í reikninginn að hann hefur ekki verið umkringdur jafn miklum gæðaleikmönnum og hinir tveir.

Cleveland-liðið í fyrra var gott og átti erindi í úrslitin, en liðið í ár á að vera nógu gott til að klára dæmið. Maður eins og James á að vera nógu góður til að fara með þennan mannskap alla leið og við munum senda honum harðorðan tölvupóst ef hann fer ekki að bæta nokkrum titlum inn á lygilega ferilská sína í NBA deildinni fljótlega.

LeBron James, Kobe Bryant og Dwyane Wade eru bestu leikmenn í heimi.

Skrefi á undan öðrum.

Ef LeBron sleppur við alvarleg meiðsli, kemur enginn leikmaður nálægt honum næstu sex ár.

Kevin Durant er eini maðurinn á séns á að stríða honum eitthvað.

Dirk, Nash, Melo, Howard og þvílíkir eru annað hvort komnir yfir það besta eða of gallaðir til að eiga skilið að vera með í þessari umræðu.

James var í kvöld kjörinn verðmætasti leikmaður deildarinnar annað árið í röð.

Það sem vekur ógleði okkar í kjörinu er að sjö af þeim 123 sem greiddu atkvæði settu hann ekki í fyrsta sæti - og það sem meira er settu fimm hann í annað sæti og tveir í þriðja sæti.

Ætli það hafi ekki verið sömu sauðnautin og settu Stephen Jackson í fimmta sætið á seðlinum sínum. Svona fólk á ekki að fá að koma nálægt körfubolta.

En þetta er nú ástæða þess að við höfum ofnæmi fyrir þessu MVP-bulli. Af því það er á margan hátt nákvæmlega það. Bull.

Þetta var fjórði pistillinn okkar um besta leikmann heims í kvöld. Vorum að spá í að henda honum eins og hinum þremur. En við getum ekki svikið gefin loforð.