Saturday, May 8, 2010
Cleveland er aftur farið að spila körfubolta
Við sögðum að Boston ætti ekki að geta unnið meira en einn leik í einvíginu við Cleveland.
Boston náði í þennan sigur í Cleveland í leik tvö. Það fór kliður um NBA þjóðina í kjölfarið.
Enn var eldur í gömlu glæðunum. Cleveland réði ekkert við Rondo. Boston gat enn spilað vörn. Garnett fékk að leika lausum hala. Þrír stóru áttu eitthvað inni eftir allt saman.
Cleveland var alls ekki ósigrandi, LeBron var meiddur og Mike Brown var enn lélegur sóknarþjálfari.
Svo kemur þriggja daga pása og einvígið flytur til Boston.
Eftir á að hyggja, var leikur þrjú búinn eftir sex mínútur. Það var tíminn sem það tók Cavs að slíta hjartað úr Boston-liðinu, trampa á því og henda því í trjákurlarann.
Staðan eftir fyrsta leikhluta: LeBron 21 - Boston 17. Og varð ekki mikið vænlegri fyrir Boston það sem eftir lifði leiks. Niðurstaðan 124-95, versta tap Boston á heimavelli í úrslitakeppni. Ekkert minna en það.
Þessi úrslit verða til þess að róa alla nema stuðningsmenn Boston. Við finnum til með þeim. En við erum fegin að Cleveland beit frá sér í leik þrjú. Almennilega. Tók þá grænu í sögulega kennslustund á þeirra eigin heimavelli.
Af hverju?
Af því lið sem gera tilkall til titilsins í deildinni okkar eiga að hafa drápseðli. Alveg sama hvað lið á í hlut. Meistaraefni, lið með jafn mikla breidd og hæfileika og Cleveland, á að stúta liði eins og 2010 Boston í sjö leikja seríu. Með fullri virðingu fyrir þeim grænu.
Það er bara þannig.