Saturday, May 8, 2010
Hvar varst þú þegar Dragic-leikurinn fór fram?
Ef þú hafðir tök á því að fylgjast með þriðja leik San Antonio og Phoenix í nótt en tókst þá ákvörðun að gera það ekki... nú, þá var það afspyrnu léleg ákvörðun.
Ekki segja að við höfum ekki varað þig við.
Í framtíðinni verður sama hvort við lesum sögubækur San Antonio eða Phoenix - nú eða jafnvel annála NBA deildarinnar. Leiksins í nótt verður í framtíðinni minnst sem Dragic-leiksins.
Slóveninn Goran Dragic er aukaleikari í liði Phoenix. 24 ára gamall bakvörður sem skoraði innan við átta stig að meðaltali í vetur. Maður, sem uppáhalds NBA-rýnir okkar Charley Rosen kallaði "mögulega lélegasta leikmann í NBA deildinni" í pistli í byrjun vetrar.
Jæja, til að gera langa sögu stutta, skoraði Dragic þessi 23 af 26 stigum sínum í fjórða leikhluta og skaut San Antonio ofan í holu sem engu liði í sögu deildarinnar hefur tekist að klóra sig upp úr.
Phoenix hefur tekið 3-0 forystu í einvíginu við San Antonio eftir lygilegan 110-96 útisigur í nótt.
Þú sérð svona lagað ekki á hverjum degi. Áttar þig líklega á því nú þegar.
San Antonio á ekki svör við Phoenix-liðinu. Á ekki svör við Nash og Stoudemire, en Phoenix þurfti ekki einu sinni á þeim að halda í fjórða leikhluta gegn Spurs-liði sem var með bakið uppi við vegg. Króað af úti í horni.
"Strákar, svo verðum við að passa upp á Goran Dragic í þessari sériu," er klárlega ekki það fyrsta sem valt af vörum Gregg Popovich á liðsfundi Spurs fyrir einvígið. Þrátt fyrir að það hafi upphaflega verið San Antonio sem draftaði piltinn á sínum tíma (fail!)
Dragic skoraði einu sinni yfir 26 stig í leik í allan vetur (32 stig á 32 mín í Salt Lake City) og við sáum reyndar þann leik. Drengurinn getur sannarlega hrokkið í gang.
Það er freistandi að hrauna dálítið yfir Spursara eins og Richard Jefferson og kannski George Hill (þó hann hafi bjargað liðinu í Dallas-seríunni).
Það er freistandi að segja að San Antonio hafi verið með þennan leik fullkomlega í hendi sér og hefði geta klárað hann með því að aulast til að setja niður vítin sín í öðrum leikhluta - en við ætlum ekki að eyða tíma í það.
Förum bara inn í skáp, finnum fleiri hatta, étum nokkra þeirra og tökum afganginn ofan fyrir liði Phoenix Suns. Frábær frammistaða hjá þeim.