Saturday, April 10, 2010
Jakkafatastjörnuleikur á bekknum
Leikur Cleveland og Indiana í kvöld skipti hvorugt lið máli, en var samt ansi áhugaverður.
Við vorum að vona að Cleveland myndi klára leikinn af því það hefði látið þessa hugleiðingu, sem við höfðum ákveðið að rita nokkru áður, líta mun betur út.
Við fengum óskir okkar ekki uppfylltar.
Sjóðheitur Danny Granger ísaði leikinn í lokin fyrir Pacers.
Við vorum að tala um það í færslunni hérna fyrir neðan að lið eins og t.d. LA Lakers væru ekki að fara heit inn í úrslitakeppnina.
Hvað með Cleveland?
Hvað með þá staðreynd að liðið tapaði þarna naumlega fyrir andstæðingi sem hefur nú unnið 9 af 11 síðustu leikjum sínum. Og að Cleveland var með mannskap í jakkafötum á bekknum í kvöld sem á að baki 24 stjörnuleiki.
Tuttugu og fjóra!
Það er erfitt að segja til með heilsu Shaquille O´Neal, en að öðru leyti virðist Cleveland vera malandi á öllum á leið sinni í úrslitakeppnina. Þrátt fyrir að mannskapurinn hafi verið inn og út í allan vetur.
En það hefur svo sem verið góður stemmari í Cleveland fyrir úrslitakeppni áður. Og nú þýðir ekkert að vera með neinar afsakanir. Nú er bara að fara og klára þetta.