Saturday, April 10, 2010

Stjörnuleysi á dögunum fyrir stríð


Við erum ekki sérstaklega hrifin af því þegar NBA lið eru að hvíla stjörnurnar sínar í síðustu leikjum tímabilsins.

Það eru forsvarsmenn sjónvarpsstöðvanna örugglega ekki heldur, líkt og í gær þegar hvorki LeBron James né Kobe Bryant mættu í stórleikina á TNT.

Þjálfarar toppliðanna eiga til að gera þetta þegar lið þeirra hafa tryggt sér stöðuna á toppnum og vilja þá leyfa stjörnunum sínum að sleikja sárin eða hreinlega kasta mæðinni fyrir komandi átök.

Svo er auðvitað ólíklegra að menn sem sitja á bekknum í jakkafötum meiðist illa og missi af úrslitakeppninni. Spyrjið bara menn eins og Andrew Bogut og Chris Bosh.

Kannski má líka segja að lið sem hafa stungið af og tryggt sæti sitt hafi unnið sér inn rétt til að gera hvað sem þeim sýnist. Þannig er það sannarlega með Cleveland þessa stundina.

Dálítið undarlegt að sjá Lakers hvíla Kobe hinsvegar. Vissulega er Lakers nánast búið að bóka toppsætið í Vesturdeildinni, en þó liðið geti ekki náð Cleveland - hefðum við ætlað að liðið vildi þó tryggja að það endaði með betra vinningshlutfall en Orlando. Lakers og Orlando eru hnífjöfn í töflunni núna.


Er Phil Jackson svona öruggur með lið sitt að honum sé sama þó það verði ekki með heimavallarrétt ef það fer í úrslitin? Eða finnst honum kannski betra að eiga leiki 3,4 og 5 á heimavelli í finals? Og það sem meira er, þykir honum liðið vera að spila svona vel á leið sinni í úrslitakeppnina?

Jackson sagðist fyrir leikinn gegn Denver á fimmtudagskvöldið vilja að minni spámenn hans hefðu tækifæri til að læra sóknina betur í fjarveru Kobe Bryant.

Eh, nú erum við ekki þjálfarar sem eru búnir að vinna tíu titla, en við hefðum haldið að leikmenn ættu að kunna kerfin sín nokkrum dögum fyrir úrslitakeppni.

Menn eins og Sasha Vujacic, Adam Morrison og Jordan Farmar geta svo sem æft eins og brjálaðir menn þar til kýrnar leita sjálfar á hús. Það gerir þá ekki að nothæfum körfuboltamönnum.

Það er ljóst að nokkur af liðunum sem eru að fara í úrslitakeppnina halda þangað án þess að vera sérstaklega "heit."  Lakers er eitt þessara liða. Kannski hafa þeir okkur að fíflum og strauja sér leið í lokaúrslitin - annað eins hefur nú gerst.

En kannski, og bara kannski, eru þessi veikleikamerki sem sést hafa á liðinu undanfarið eitthvað meira en bóla á nefinu á þeim.