Monday, March 1, 2010
Shaq þarf ekki að spila körfubolta á næstunni
Shaquille O´Neal krambúleraði á sér þumalputta í viðskiptum sínum við Glen Davis hjá Boston fyrir nokkrum dögum.
Nú er komið í ljós að meiðslin eru alvarleg og kappinn mun því gangast undir uppskurð í dag.
Svartsýnustu spár segja að þetta kosti hann 6-8 vikur frá keppni. Sumir segja að hann missi jafnvel af fyrstu umferðinni í úrslitakeppninni.
Og Zydrunas má auðvitað ekki spila aftur með Cleveland fyrr en eftir þrjár vikur eftir að hafa fengið sig lausan frá Wizards eftir sýndarskiptin um daginn.
Ekki-fréttin um áhuga liða utan Cleveland á Stóra-Z hefur verið sú lélegasta og asnalegasta til þessa á tímabilinu.
Þessi meiðsli koma á leiðinlegum tíma fyrir Cleveland, en einhver gæti sagt að þetta væri bara karma að bíta Cavs í rassgatið fyrir að stunda lögleg en siðlaus viðskipti.
Hvað sem því líður ætlum við að halda áfram að segja að þetta miðherjaleysi sé bara fínt fyrir Cleveland.