Monday, March 1, 2010
Kobe og Melo gekk illa að skjóta körfuboltum
Stórleikur LA Lakers og Denver Nuggets var ekki sama glansmót og við vorum að vona. Náði aldrei flugi, ef þannig má að orði komast.
Það voru að lokum meistararnir sem höfðu betur í þessu slöggfesti, 95-89.
Stórstjörnurnar brugðust okkur út frá listrænu sjónarmiði. Kobe og Melo hittu samtals úr fimm af tuttuguogníuþúsundáttahundruðogfjörutíu skotum utan af velli.
Það sem gladdi okkur helst var varnarleikur Ron Artest á Carmelo Anthony. Ron-Ron er ekki dauður úr öllum æðum. Gaman að sjá svona smá óld-skúl.
Síðustu flautin á Melo voru reyndar óþarfi, en hann virðist eiga afar erfitt með að finna sig á móti Lakers.
Hjálpar svo sem ekki að vera með Ron-Ron, Kobe, Lamar og eldhúsvaskinn í grillinu allan leikinn.
Það hefði verið dálítið kjánalegt ef Lakers hefði tapað þriðja leiknum í röð gegn Denver, en bæði lið áttu klárlega inni í sóknarleiknum í kvöld.