Saturday, December 5, 2009

Hreinar Línur


Stundum rekum við augun í tölfræði sem lætur okkur líða eins og Láru Ingalls þegar hún hljóp niður brekkuna í lok hvers þáttar af Húsinu á Sléttunni.

Og þegar manni líður eins og Láru, verður maður bara að deila því með einhverjum.

Svona tölfræði köllum við Hreinar Línur og hér fyrir neðan eru þrír strákar sem hafa ert á okkur miðsvæðið með fallegum tölfræðiskýrslum undanfarna daga.



 Fyrst skal frægan telja. Það er hann Kevin Garnett hjá Boston. Hann er ekkert búinn að vera að hitta neitt sérstaklega illa undanfarið.

Það er hægt að röfla yfir því að hann sé ekki að frákasta eins og hérna einu sinni, en þá var hann heldur ekki að spila 30 mínútur í leik í sparakstri eins og í dag.

Í síðustu fimm leikjum leikjum er Garnett búinn að hitta úr 41 af 52 skotum utan af velli. Þar af 11 af 12 í sigri gegn Miami og svo 10 af 11 í sigri á Oklahoma. Svo er hann 13 af 13 á línunni. KG þarf ekkert að skammast sín fyrir þetta. Enn síður af því Boston vann auðvitað alla þessa leiki.

Annar fjarki sem er búinn að komast skammlaust frá síðustu leikjum er Carlos Boozer hjá Utah Jazz. Hann ætlar greinilega að verða sér út um góðan samning í sumar, því hann spilar eins og engill á amfetamínsterum.

28 stig, 11 fráköst, 5 stoðsendingar að meðaltali og  71% skotnýting í síðustu fimm leikjum hjá honum, þar sem Jazz var 4-1.  Menn hafa bakkað út úr munnlegum samningi fyrir minna.

Fáir geta boðið upp á jafn subbulegar línur og yfirlýstur besti leikstjórnandi heims, Chris Paul. Svona í lokin verðum við eiginlega að minnast aðeins á línuna sem hann bauð upp á í nótt.

Paul sneri til baka eftir að hafa misst úr átta leiki vegna ökklameiðsla. Í fantasy-skýrslunni um Paul fyrir leikinn sagði: "He may be slightly limited." Einmitt. Það væri gaman að vera "limited" og skora 16 stig, gefa 15 stoðsendingar, stela átta boltum og hirða sex fráköst

Veist þú um hreinar línur sem þig langar að deila með hinum krökkunum?
Sendu okkur tölvupóst á nbaisland@gmail.com og segðu okkur frá því.