Friday, December 4, 2009

Derrick verður aftur á skjánum í kvöld


Cleveland Cavaliers og Chicago Bulls ætla að leiða saman sína bestu hesta klukkan eitt í nótt og verður viðburður þessi sýndur í beinni útsendingu á íþróttarásinni sem hét einu sinni Sýn.

Cleveland byrjaði frekar illa í haust en hefur smátt og smátt verið að færa sig upp á skaftið. Eiginlega verið á fínu róli síðan liðið tapaði fyrir Chicago fyrir nákvæmlega mánuði. LeBron og félagar voru þá 3-3 en eru 10-2 síðan þá.

Sama gleðin hefur ekki verið í herbúðum Chicago (7-9). Ben Gordon fór en Luol Deng kom hress til baka og Derrick Rose ætti auðvitað að vera betri - svo einhver hefði áætlað að Chicago ætti að vera heldur betur á uppleið. Annað hefur komið á daginn. Þessir Chicago strákar þurfa að fara að ákveða hvort þeir ætla að vera efnilegir endalaust eða hvort þeir ætla í alvöruna með stóru drengjunum.

Þetta minnir okkur á seríu Chicago og Boston í úrslitakeppninni í vor. Þvílíkt konfekt. Líklega betri sería en allar hinar í úrslitakeppninni til samans. Gjörsamlega stórkostleg sería. Meira að segja þó Jóakím Nóa hafi tekið þátt í henni.

Pælingin um það hvort Shaquille O´Neal gerir Cleveland að betra eða verra liði hefur tekið mikið pláss á netsíðum vestanhafs í haust og í nótt geta íslenskir áhugamenn skorið úr um það sjálfir.