Thursday, December 3, 2009

Bocurgat yapmak


Menn segja oft að þeir vildu vera fluga á vegg hjá hinum eða þessum.

Við myndum ekki kæra okkur um að vera fluga - hvorki á vegg né annars staðar - en ef við lítum fram hjá þessu asnalega orðatiltæki, væri eflaust gaman að kíkja inn í eldhúsið hjá Turkoglu-fjölskyldunni í Toronto.

Hann Hedo vinur okkar ákvað í sumar að yfirgefa silfurdrengina í Orlando og færa sig norður yfir landamærin. Þar talar fólk með frönskum hreim um íshokkí, sem er íþrótt sem er alls ólík körfubolta.

Í Toronto er heldur ekki spiluð vörn. Þetta vissi Hedo okkar vel, en honum þykir heldur ekkert gaman að spila vörn. Hann vill spila sókn eins og hann fái borgað fyrir það. Og það fær hann. Alveg eins og félagi hans með fallegu tölurnar sem vill ekki láta snerta sig.

Það fer alltaf ákveðin tilfinning um okkur þegar við skoðum tölfræðiskýrslurnar úr leikjum Snareðlanna. Ekki ósvipuð og þegar við lesum Séð og Heyrt. Við vitum að þetta er bölvað drasl - en þetta gerir lífið skemmtilegra.