Friday, March 3, 2017

Vesturdeildarvörutalning í febrúar 2017


Það er orðið ansi langt síðan við tókum vörutalinguna okkar í Austurdeildinni og meiningin var að gera vestrið upp fljótlega þar á eftir, en það tafðist eitthvað hressilega. Hafið ekki áhyggjur, við vorum ekkert búin að gleyma ykkur. Hér kemur febrúarvörutalingin okkar í vestrinu.

Sum ykkar gera sér kannski ekki grein fyrir því hvað vörutaling er, en það er hlutur sem verslunarmenn gera reglulega svo þeir viti upp á hár hver staðan er á t.d. búðinni sem þeir reka. Vörutalningar eru ekki skemmtilegar, en þær eru upplýsandi og vörutalningar okkar í NBA deildinni eru ætlaðar ykkur lesendum til upplýsingar.

MEIÐSLI (EN EKKI HVAÐ)

Stóru fréttirnar í Vesturdeildinni þegar þetta er ritað eru að sjálfssögðu meiðslin hans Kevin Durant.

Framherjinn skemmtilegi fékk þungt högg á hnéð þegar Marcin Gortat, miðherji Washington, ákvað að taka stöðubróður sinn hjá Golden State, ballettdansarann Zaza Pachulia, og henda honum í Durant.

Frekar illa gert hjá pólska hnefaleikaranum að okkar mati, en Pachulia mætti líka alveg fara að líta í eigin barm og fara að spila eins og fullorðinn karlmaður en ekki eins og dúkkulísa. Óþolandi.

Fólk skiptist í tvo hópa þegar kemur að meiðslum Durant.

Forráðamenn Warriors segja að meiðsli hans verði metin á ný eftir um fjórar vikur og útiloka ekki að hann geti hafið leik á ný með liði sínu þegar úrslitakeppnin hefst.

Aðrir eru mikið svartsýnni og fullyrða að Durant sé úr leik í vetur - meiðslin séu það alvarleg. Þetta verður auðvitað allt að koma í ljós þegar að því kemur, en það er ljóst að þessi tíðindi hleypa nokkrum titringi í valdataflið í NBA deildinni.

Menn og konur eru strax farin að spyrja sig hvort Golden State hafi það sem til þarf til að komast í gegn um lið eins og Houston, San Antonio og svo auðvitað Cleveland í úrslitakeppni ef Kevin Durant verður ekki heill heilsu - nú eða hreinlega í jakkafötum. Þetta eru eðlilegar spurningar á þessum tímapunkti í ljósi aðstæðna, en það þjónar litlum tilgangi að spá í þær núna.

Við verðum að sjá til í hvernig standi Durant verður eftir fjórar vikur, en ekki búast við endanlegri niðurstöðu um heilsufar hans þá heldur.

Í versta falli gætum við fengið að vita að það væri óráðlegt að láta hann spila og betra að hvíla hann fram á næsta haust, en það sem okkur grunar frekar er að hann verði áfram spurningamerki og að okkur verði sagt að hann verði aftur skoðaður eftir x margar vikur og framhaldið metið eftir því. Svona meiðsli eru viðbjóður og ómögulegt að segja til um hvað þau standa honum fyrir þrifum lengi.


FYRST: STUTT RANT

Í stóra samhenginu eru þessi meiðsli auðvitað grábölvaður fjandi, því þau þýða að við gætum fengið þriðju úrslitarimmu Cleveland og Golden State sem gefur enn ekki rétta mynd af því hvort liðið er betra vegna meiðsla lykilmanna.

Meiðsli eru partur af lífinu í NBA deildinni, en eins og þið hafið séð okkur væla yfir undanfarin 1-2 ár, hafa þau farið ansi langt með að eyðileggja bæði deildar- og úrslitakeppnina undanfarin misseri. Þetta helvíti hættir ekki!

Afsakið orðbragðið, en þessi andskoti kallar einfaldlega á svona orðbragð. Það er merkilegur fjandi að við skulum ekki geta fengið eina einustu andskotans seríu í úrslitakeppni án þess að meiðsli setji dökkan blett á hana. Og gerið það fyrir okkur að fara ekki að væla yfir álaginu í NBA deildinni og kalla eftir því að leikjunum í deildarkeppninni verði fækkað. Svona hefur þetta alltaf verið og þessu verður ekkert breytt.

Forráðamenn bæði deildarinnar og liðanna sem hana skipa, hafa kerfisbundið reynt að stuðla að því að minnka álag á leikmennina undanfarin tvö ár eða svo. Ljóst er að sú vinna verður að halda áfram, því þetta meiðslakjaftæði er komið út fyrir allt velsæmi og er að eyðileggja vöruna.



GOLDEN STATE WARRIORS

Hvort sem Kevin Durant verður með eða ekki, verður að teljast nokkuð líklegt að Golden State nái að hanga á efsta sæti Vesturdeildarinnar þessa c.a. 20 leiki sem eftir eru, þó varasamt sé að vanmeta San Antonio-uppvakninginn ódrepandi sem skjögrar á eftir þeim, hægt en örugglega, og virðist aldrei tapa leik. Þegar þetta er ritað, munar þremur leikjum á Warriors og Spurs í 1. og 2. sæti Vesturdeildarinnar.

Liðin eru búin að spila einu sinni í vetur, en það var opnunarleikurinn í október þar sem San Antonio slátraði Golden State í Oakland og Warriors menn þurfa að fara tvisvar til San Antonio á næstu vikum - án Kevin Durant.

Stephen Curry er búinn að spila tólf sinnum í San Antonio síðan hann kom inn í deildina í deild og úrslitakeppni og hefur aðeins unnið tvo þeirra. Það er langlélegasti árangur Curry gegn nokkrum mótherja á útivelli síðan hann kom inn í deildina. Black Death, in deed.

Golden State er búið að vera á krúskontról eftir áramótin og er auðvitað búið að vera eitt óárennilegt körfuboltalið lengst af í vetur. Meiðsli Kevin Durant skemma mikið fyrir Warriors og ljóst að hann verður að gera sér þessa sextíu leiki að góðu þegar kemur að því að spila sig inn í liðið. Þessir sextíu leikir eru feykinóg gegn ellefu af liðunum fimmtán sem fara með Golden State í úrslitakeppnina, en við skulum vona Warriors vegna að Durant verði orðinn þokkalegur þegar kemur fram í aðra og sérstaklega þriðju umferð úrslitakeppninnar.



SAN ANTONIO SPURS

Það er gjörsamlega ómögulegt að greina það af hverju þetta Spurs-lið er svona gott. Kawhi Leonard er jú að verða topp fimm körfuboltamaður í heiminum og er umkringdur reynslumiklum leikmönnum sem hafa flestir séð þetta allt saman hundrað sinnum, en það er ekkert við þetta Spurs-lið á pappírunum sem segir að það eigi að vera eitt allra besta lið sem félagið hefur teflt fram - amk svona hvað vinningshlutfall varðar.

Sérstaklega er það okkur hulin ráðgáta af hverju varnarleikur Spurs er svona sterkur (101,0 stig fengin á sig á hverjar 100 sóknir - best í NBA, rétt á undan Warriors (101,4) og Jazz (101,9) sem eru þrjú bestu varnarliðin í deildinni - Memphis er í 4. sæti með 103,1).

Vissulega er að finna sterka og jafnvel heimsklassa varnarmenn í liði Spurs, en í bland við þá er að finna algjörar vængjahurðir á borð við Tony Parker og Pau Gasol sem eru að spila helling af mínútum.

Það sem er svo mest sjokkerandi af öllu er að varnartölfræðin hans Kawhi Leonard er miklu lakari en hún var síðustu tvö ár þegar hann var jú kjörinn varnarmaður ársins í bæði skiptin. Nú er svo komið að varnarleikur Spurs er betri þegar Leonard er utan vallar - sem er óskiljanlegt.

Hann er auðvitað að eyða meiri orku í sóknarleikinn í ár en nokkru sinni og er kannski að spila margar mínútur með mönnum sem eru bjargarlausir varnarmenn, en okkur er sama. Þetta er stórfurðuleg tölfræði.

Það verður óhemju forvitnilegt að sjá hvernig San Antonio á eftir að vegna í fyrstu úrslitakeppninni sinni án Tim Duncan í tvo áratugi, en í okkar bókum á velgengni liðsins þegar þangað kemur eftir að velta algjörlega á því hvernig mótherja liðið fær eftir fyrstu umferðina.

Spursarar geta að vísu þakkað fyrir að Oklahoma-liðið sem sparkaði þeim út úr keppni í fyrra er ekki til lengur ef svo má segja, en San Antonio hefur alltaf átt erfitt uppdráttar gegn ungum, fljótum og kraftmiklum liðum.

Við viðurkennum það samt fúslega að við höfum ekki nokkra hugmynd í helvíti um það við hverju er að búast af þessu San Antonio-liði í úrslitakeppninni í vor. Það eina sem við vitum er að það langar engu liði að mæta því þegar þangað er komið. Engu.

HOUSTON ROCKETS

Tvö atriði varðandi úrslitakeppnina í vestrinu getið þið bókað strax í dag og hefðuð reyndar getað gert það fyrir mánuði síðan. Í fyrsta lagi að Houston muni taka þriðja sætið í Vesturdeildinni og í öðru lagi að liðið sem hirðir áttunda sætið er meira en einum gæðaflokki fyrir neðan liðið í sjöunda sæti.

Houston hefur haldið nokkuð góðum dampi í allan vetur og þó liðið sé ekki búið að spila neitt sérstaklega að undanförnu, gátum við ekki annað en hrifist af því þegar það mætti inn í Staples Center aðfararnótt 2. mars og gjörsamlega slátraði heimamönnum í Los Angeles Clippers.

Leikir þessara tveggja liða eru alltaf skemmtilegir og þessi leikur var engin undantekning, en leikmenn Clippers lentu í sömu vandamálum og flestir aðrir andstæðingar Houston í vetur; þeir vissu bara ekki í hvorn fótinn þeir áttu að stíga þegar kom að því að dekka þetta Rockets-lið. Hvernig í fjandanum áttu svo sem að dekka lið sem er aldrei með minna en fjórar úrvalsskyttur inni í vellinum í einu og einn besta playmaker í heimi að toga í spottana?

Klisjan segir okkur að liðið hans Mike D´Antoni eigi eftir að sigla í strand fyrr en seinna þegar það kemur í úrslitakeppnina og þó það geti vel verið, er ekki erfitt að sjá það fyrir sér að þetta lið gæti náð að gera eitthvað af sér í vor, þó það sé kannski ekki kandídat í meistaratitil.

Við skutum þetta Houston lið í kaf í spánni okkar í Haust, ekki af því við efuðumst um (sóknar) hæfileikana í liðinu, heldur af því við sáum ekki fyrir okkur að nýju mennirnir Ryan Anderson og Eric Gordon næðu að spila meira en svona 50-60 leiki fyrir það samanlagt, enda hafa þeir ekki með nokkru einasta móti geta haldið sér heilum undanfarin ár. Bættu svo Nene inn í formúluna og þú ættir að vera kominn með efnivið í hálft season af Grey´s Anatomy.


En annað hefur komið á daginn. Flestir leikmanna Rockets hafa haldið undraverðri heilsu í allan vetur og svo gerði liðið einn besta dílinn í félagaskiptaglugganum þegar það stal stórskoraranum Lou Williams frá Lakers og skiptu versta sóknarmanni heims sínum Corey Brewer út í staðinn. Það er grínlaust hlutfallslega stærra upgrade í sókninni en að skipta Omer Asik út fyrir Boogie Cousins.

Svona til gamans er gaman að segja frá því að það er Houston sem á liðametið í NBA yfir flest 3ja stiga skot tekin í leik, þegar það tók 32,7 þrista að meðaltali í leik á þarsíðustu leiktíð. Það eru tíðindi út af fyrir sig að það sem af er þessu keppnistímabili séu þrjú lið að taka fleiri en 32,7 þrista í leik, heldur er Houston-liðið sjálft að toppa þann lista og gjörsamlega SLÁTRA gamla metinu!

Strákarnir hans Mike D´Antoni eru þannig að taka fjörutíu og hálft þriggja stiga skot að meðaltali í leik í vetur og hafa oft tekið fleiri en 50 þrista í leik í vetur. Okkur skilst að D´Antoni sé grínlaust að spá í að koma liðinu yfir 50 tilraunirnar í leik í framtíðinni. Sem er bara alveg helvíti eðlilegt...



BARÁTTAN UM HEIMAVÖLLINN: 
CLIPPERS, GRIZZLIES, THUNDER OG JAZZ | SÆTI 4 TIL 7.

Áhugaverðasta narratífið á lokasprettinum í Vesturdeildinni er án efa kapphlaupið um fjórða til sjöunda sætið. Þar eru Utah, LA Clippers, Memphis og Oklahoma að berjast um síðasta sætið sem gefur heimavallarrétt í fyrstu umferðinni í úrslitakeppninni og um leið að forðast að lenda í sjöunda sætinu sem kemur til með að þýða stefnumót við San Antonio í fyrstu umferð.

Lið Clippers væri löngu búið að tryggja sér fjórða sætið og jafnvel það þriðja ef það væri ekki búið að vera án Chris Paul og/eða Blake Griffin í allan vetur.

Þessir leikmenn eru liðinu einfaldlega of mikilvægir til að það geti haldið dampi án þeirra og þó liðið hafi barist hetjulega, tapaði það fullt af rándýrum leikjum í öllum þessum meiðslum.

Ef svo ólíklega vildi til að Clippers-liðið næði nú að hanga saman fram að úrslitakeppni (við vitum að Blake Griffin eða Chris Paul meiðist strax í fyrstu umferð úrslitakeppninnar), er fjórða sætið þeirra.

(Já, þetta hérna fyrir ofan er Russell Westbrook að reyna að troða yfir besta varnarmiðherja heims).

Utah hangir í fjórða sætinu sem stendur en á ekki fræðilegan möguleika á að halda því, bæði vegna óstöðugleika í spilamennsku liðsins og vegna þess að lokaspretturinn hjá liðinu er fullur af útileikjum gegn San Antonio-um og Golden State-um.

Utah er búið að eiga nokkra hreint út sagt frábæra leiki á undanförnum vikum, þar sem það virkilega minnir á sig og sýnir hvað það er efnilegt, en svo lætur það Minnesota drulla yfir sig með 30 stigum á heimavelli og þá er allt gleymt um leið.

Oklahoma á líka erfiða töflu eftir, en þeir Doug McDermott og Taj Gibson ættu að geta hjálpað liðinu að loka einhverjum þeirra.

Oklahoma-menn eiga heiður skilinn fyrir það hvernig þeir rændu Chicago fyrir lokum félagaskiptagluggans og gerðu einn besta díl ársins þegar þeir fengu þessa tvo leikmenn sem þá vantaði sárlega. Spilamennska Russell Westbrook að undanförnu og í allan vetur er slík að hún útheimtir sinn eigin pistil en ekki þrjár línur í miðri vörutalningu.

Loks á Memphis nokkuð huggulega dagskrá eftir fram á vorið og því er ljóst að lokastaðan í vestrinu verður sem hér segir (þið þurfið ekki að stríða okkur út af þessu á Twitter í vor af því þið vitið ósköp vel að þetta endar nákvæmlega svona):

1. Golden State
2. San Antonio
3. Houston
4. LA Clippers
5. Memphis
6. Oklahoma
7. Utah
8. Denver.

Þetta þýðir að aumingja Utah-liðið, sem kemur til með að vinna um eða yfir 50 leiki í vetur, fær ekki meiri verðlaun fyrir þetta frábæra tímabil en stefnumót við San Antonio í fyrstu umferð og verður sópað þar nákvæmlega eins og síðast þegar liðið komst í úrslitakeppnina árið 2012. O.k., kannski vinnur Utah einn leik, en þið skiljið hvað við erum að fara.

FALLBYSSUFÓÐRIÐ OG KLESSAN Í 9. TIL 13. SÆTI



Það eru vissulega 20 leikir eða svo eftir af tímabilinu en eins og staðan er núna er ekkert í kortunum sem segir að það verði eitthvað annað lið en Denver sem nær áttunda og síðasta sætinu inn í úrslitakeppnina í vestrinu. Það sæti ber annað og skemmtilegra nafn en áttunda sætið og er oft kallað "Fallbyssufóður fyrir Golden State"-sætið.

Með öðrum orðum skiptir ekki nokkru einasta máli hvaða lið það verður sem hirðir þetta síðasta sæti inn í úrslitakeppnina. Það yrði kraftaverk ef það næði að vinna einn leik á móti Warriors. Það sem annars stendur upp úr á bleh-leiktíð hjá Denver er spilamennska Nikola Jokic, sem er búinn að vera stórkostlegur eftir áramót og hendir nú í þrennu kvöld eftir kvöld eins og ekkert sé eðlilegra.

Svipaða sögu er að segja af Karl-Anthony Towns hjá Minnesota, sem er búinn að spila eins og andsetinn undanfarnar vikur og er meira að segja loksins farinn að frákasta eins og fullorðið karldýr - okkur til mikillar gleði.

Það er dálítið skondið að sjá hvað Minnesota hefur sumpart spilað betur eftir að það missti Zach LaVine í meiðsli, en því miður er liðið búið að vera of mikið drasl í vetur til að eiga raunhæfa möguleika á að komast í úrslitakeppnina að þessu sinni, en þeim liggur ekkert á að fara þangað hvort sem er, svo það er í góðu lagi.

Rétt eins og með 4. til 7. sætið í vestrinu, er útlit fyrir að "baráttan" um 9. sætið muni ekki ráðast fyrr en á lokadegi deildarkeppninnar, því Sacramento, Minnesota, New Orleans, Dallas og Portland eru nánast hnífjöfn í 9. - 13. sætinu. Þessi lið eru þremur leikjum á eftir Denver og ekki beint líkleg til að vinna þann mun upp, því til lítils sé að vinna eins og við komum inná áðan.

Dallas hefði mögulega verið kandídat í að ná Denver, því það var farið að ná í lið eftir meiðslafíaskó í allan vetur, en Mark Cuban ákvað að gefa Deron Williams og Andrew Bogut þannig að þar á bæ er fátt annað en tánk á stefnuskránni.

New Orleans er sem stendur að gera sig mjög líklegt í að verða neðst af þessum liðum því það hefur farið frá því að vera lélegt yfir í að vera rusl síðan Boogie Bolla mætti á svæðið. Jú, jú, Boogie hefur gefið Dílaskörfunum nokkur stig, en það sem hefur verið meira áberandi hjá honum síðan hann skipti yfir frá Sacramento er lélegt líkamlegt form, tæknivillur og afspyrnu lélegur varnarleikur. Antony Davis er búinn að vera stórkostlegur í vetur, en það má eitthvað mikið breytast ef þetta blessaða lið á að fara að vinna eitthvað í framtíðinni.



VONBRIGÐI VETRARINS OG SÝKÓPATASAMNINGAR

Það er svo auðvitað Portland sem er vonbrigðalið Vesturdeildarinnar í vetur og segja má að það sama sé uppi á teningnum hjá leikmönnum Portland og hjá leikmönnum Leicester City og karlaliðs Hauka í Domino´s deildinni. Þeir eiga að skammast sín, af því þeir eru búnir að spila eins og aumingjar í allan vetur. Algjörir aumingjar og ekkert annað. Drasl.

Forráðamenn Portland hljóta að fá bráðaniðurgang og annars stigs ógleði i hvert skipti sem þeir hugsa til þess hvað þeir voru að færa nokkrum af þessum drullusekkjum sínum asnalega háa samninga í sumar og það kæmi okkur ekki á óvart þó fólkið á skrifstofunni í Portland ætti eftir að breyta um taktík í þeim efnum í nánustu framtíð. Og kannski er það nú þegar byrjað á því, því það lét Mason Plumlee fara til Denver í stað þess að borga honum enn einn tröllasamninginn.

Markaðurinn í NBA deildinni fór út í algjöra steypu á síðasta ári eftir að launaþakið rauk upp úr öllu valdi. Lengi var reiknað með því að þakið héldi áfram að hækka, en svo er ekki - það verður mjög svipað á næsta ári og því eru sumir af þessum fáránlegu samningum sem lið eins og Portland voru að gera algjör steypa sem á eftir að íþyngja félaginu á næstu árum.

Það eru til tvær tegundir af samningum í NBA deildinni: Samningar sem fylgja markaðnum og samningar sem byggðir eru á framlagi og getu leikmanna.

Fyrrnefndu samningarnir eru bull eins og Portland var að borga mönnum eins og Evan Turner, Lakers borgaði Luol Deng og Timofey Mozgov og New York borgaði Joakim Noah og eins og þið sjáið, geta svona samningar eyðilagt öll plön fyrir liðum sem á annað borð ætla sér að vera eitthvað með í baráttunni.

Nýju kjarasamningarnir og launaþakið í NBA deildinni eru ekkert svo slæm út af fyrir sig, en þó eru atriði í þessu sem eru engan vegin að skila tilætluðum árangri. Sérstaklega er horft til nýju samninganna sem lið geta boðið designeruðu leikmönnunum sínum - stjörnunum sínum - og hannaðir voru til þess að gera minni félögum aukna möguleika á að halda bestu leikmönnunum sínum.

Þessir samningar eru hinsvegar ekki gáfulegri en það að til þessa virðast þeir frekar virka hvetjandi á leikmennina til að drulla sér í burtu og félögin til að skipta leikmönnunum sem um ræðir í burtu en að framlengja samstarfið. Dæmi um þetta eru Cousins-viðskiptin um daginn og slúður um að t.d. Paul George sé kominn á fremsta hlunn með að yfirgefa Indiana í stað þess að framlengja.

Markaðurinn í NBA í dag er einfaldlega þannig að lið sem eru að reyna að koma sér í aðstöðu til að komast langt í úrslitakeppninni, eru skák og mát peningalega löngu áður en þau komast í tæri við takmörk sín.

Sjáið bara klúbba eins og Boston og Utah. Þetta eru lið sem eru að mestu keyrð áfram á ungum og efnilegum leikmönnum og þegar þeir eru allir á nýliðasamningum, er lífið ljúft og létt. Allir eru á hóflegum launum og bæta sig á hverju ári - framtíðin er björt.

En svo þarftu að fara að borga þessum mönnum. Og þar með er partíið búið. Það er alveg sama hver á í hlut. Ef leikmenn á annað borð geta EITTHVAÐ, vilja umboðsmenn þeirra ekki hlusta á annað en max samninga á max samninga ofan.

Loksins þegar þú ert að komast í aðstöðu til að gera eitthvað - komast eitthvað áfram í úrslitakeppninni - er hurðinni skellt í lás af því allir leikmennirnir sem geta eitthvað í liðinu heimta nú yfir 100 milljón dollara samninga.

Allir vilja fá 20 og 30 milljónir dollara á ári, í strúktúr þar sem launaþakið er 100 milljónir. Þið sjáið að þetta gengur ekki upp.

Utah er búið að borga Rudy Gobert 100 milljónir, þarf að semja við Gordon Hayward (yfir 30 milljónir, sem er markaðsvirði en langt, langt, langt yfir raunvirði) og þarf líka að borga George Hill nýjan samning á langt yfir 20 milljónir á ári ef það ætlar að halda honum.

Ef svo ólíklega vildi til að launaþak liðsins yrði ekki sprungið á þessu (og það verður sprungið við þetta, því liðið þarf að semja við Derek Favors - aðrar 20+ milljónir á ári), fer það til andskotans árið eftir þegar Rodney Hood verður með lausa samninga.

Og þegar hingað er komið, geta forráðamenn Utah þakkað fyrir það að Dante Exum sé 100% bust og geti ekkert, því annars hefði hann orðið næsti 100+ milljón dollara maðurinn hjá félaginu. Það sér hvaða maður og kona að þetta er bara bull.

Upplýsingar varðandi Phoenix Suns og Los Angeles Lakers getið þið nálgast með því að senda Óla Geir skilaboð á Facebook.

Góðar stundir.