Thursday, October 20, 2016

Vegasvarpið 2016
 Þá er röðin komin að hinu árlega Vegas-varpi frá NBA Ísland þar sem spekingar síðunnar fara yfir spár veðbanka í Las Vegas um gengi liðanna í NBA í deildarkeppninni. Veðmála-vesírar Vegasborgar skjóta þannig á áætlaðan sigrafjölda hvers liðs fyrir sig og bjóða spilurum að tippa á hvort liðin verði yfir eða undir ákveðinni tölu.

Dæmi um þetta má nefna að Vegas setti hæstu tölu sem gefin hefur verið í sögunni á ofurlið Golden State Warriors í vetur, eða 66,5. Það kemur í hlut hlaðvarpara NBA Ísland að ákveða hvort þeir tippa á að Warriors vinni fleiri eða færri leiki en þetta á komandi vetri, þar sem margir spá því að liðið verði svo hrikalegt að það gæti jafnvel átt eftir að bæta ótrúlegt met sitt frá síðustu leiktíð þegar það vann 73 leiki í deildarkeppninni. Svona spár færðu þegar liðið sem setti met yfir flesta sigra í deildarkeppninni bætir við sig einum af þremur bestu körfuboltamönnum í heimi.

Já, það er ljóst að Golden State verður ekkert lamb að leika sér við í vetur, en við þurfum svo sem ekki að leita lengra en á síðustu leiktíð til að sjá að ekkert er öruggt og ekkert er ómögulegt í körfubolta - sem er bara ein af þúsund ástæðum fyrir því að þessi leikur ber höfuð og herðar yfir aðra.

Vegashlaðvarpinu er að venju skipt í tvennt; 68. þátturinn er helgaður Austurdeildinni og 69. þátturinn gerir Vesturdeildinni skil. Þið getið hlustað á þættina í spilaranum hér fyrir neðan eða farið inn á hlaðvarpssíðuna og sótt þá þar á mp3 formi til að setja inn á spilarann ykkar.
Njótið vel, kæru lesendur/hlustendur.

68. þáttur - Austurdeildin69. þáttur - VesturdeildinAthugasemdir og aðfinnslur sendist á: nbaisland@gmail.com