Það er skondið að hugsa til þess hvað NBA-pennar væru að skrifa um ef Stephen Curry (og liðið hans allt, reyndar) væri ekki að spila eins og reið geimvera um þessar mundir.
LeBron James er alltaf LeBron James náttúrulega og hann er að skila fáránlegum tölum og fullt af sigrum eins og hann er vanur, þó það sé orðið vinsælt að skrifa heilu dálkana um að hann sé ekki lengur besti körfuboltamaður í heimi. Meiri róninn að vera ekki að bjóða upp á nema 26/8/7 meðaltal.
Þeir Kevin Durant og Russell Westbrook eru líka iðnir við að krota út tölfræðiskýrslur, hoppa ofan á þeim og kveikja í þeim. Fyrir það fyrsta er náttúrulega alveg þræleðlilegt að liðsfélagar séu að skora 28 stig að meðaltali í leik, en þar fyrir utan eru þeir báðir skemmtilega í ruglinu á sitt hvorum helmingnum á skýrslunum.
Westbrook með sín 28 stig, 7 fráköst, 10 stoðsendingar og vel á þriðja stolna bolta. Durant með sín 28 stig, 7 fráköst, 51% skotnýtingu og 46% 3ja stiga skotnýtingu. Hvort um sig bara vitleysisgangur náttúrulega. Það eina sem vantar er að liðið þeirra fari að spila vörn og vinna 80% leikja sinna í stað 58% eins og eitthvað Austurdeildarlið.
Paul George er líka búinn að vera skemmtilega bilaður í sinni spilamennsku og er búinn að draga Indiana-liðið sitt með sér til sigurs í tveimur af hverjum þremur leikjum, sem er nokkuð sem fáa hefði órað fyrir - hvort sem tímabilið er nýbyrjað eða ekki. Það er bara drullu vel gert.
George er vel rúmlega "back", eins og sést á því að hann er að bjóða upp á 27/8/4/2 og 43% 3ja stiga nýtingu. Ákaflega ánægjuleg þróun þarna á ferðinni, hjá einum skemmtilegasta og besta leikmanni deildarinnar.
En þá komum við að rúsínunni í afturendanum, ólíkindatólinu Kawhi Leonard hjá San Antonio Spurs. Hann á bara engan sinn líkan og hefur aldrei átt, enda fjarri því eðlilegur einstaklingur.
Þið munið kannski eftir því að við vorum eitthvað að rífa kjaft um það í sumar og haust að nú væri kominn tími til fyrir hann að sýna það fyrir alvöru að hann væri stórstjarna - ekki bara gaur sem poppaði upp með einn og einn geimveruleik svona þegar við gleymdum því að hann væri þarna.
Kannski voru þetta óraunhæfar kröfur á þennan allt að því sjúklega hlédræga pilt, en það skondna við það er að hann virðist hafa verið að hlusta - bæði á tuðið í okkur og óskir forráðamanna San Antonio Spurs. Já, og allra sem hafa gaman af því að sjá gæðakörfubolta.
Hann er að spila eins og brjálæðingur og eins og einhver orðaði það svo skemmtilega - væri hann mögulega verðmætasti piltur tímabilsins til þessa ef ekki væri fyrir krúttlegu geimveruna sem getur ekki tapað í liði Warriors.
Þetta eru kannski stór orð, því eins og þið sáuð á upptalingunni hér fyrir ofan (sem er ekki ætlað að vera tæmandi), er fullt af mönnum að spila körfubolta rosalega vel í NBA deildinni í dag.
Það er samt í góðu lagi að hrósa honum Kawhi aðeins, því eins og áður sagði er spilamennska hans nokkurn veginn andstæða lundarfars hans og framkomu - sem sagt hávaði og læti út í eitt.
Fram hefur komið hvað drengurinn er mikil hamhleypa í varnarleiknum og þar slær hann hvergi af, en í vetur hefur hann náð að valda miklum usla á hinum enda vallarins líka. Eins og til stóð - bæði hjá okkur og þjálfarateymi San Antonio.
Leonard er að skora 22 stig að meðaltali í leik, hirða 8 fráköst, gefa 3 stoðsendingar, verja skot og stela hátt í þremur boltum. Ef það er ekki nóg, er drengurinn að skjóta 51% utan af velli eins og Kevin Durant - en fimmtíu prósent í 3ja stiga skotum (c.a. 2 af 4 í leik)! Framherjinn ungi er búinn að setja 67 þrista niður að meðaltali á síðustu þremur tímabilum, en í ár er hann þegar búinn að setja 39 slíka niður í aðeins 19 leikjum.
Annað sem er svo skondið við Leonard, er að þegar hann skoraði 27 stig í sigri Spurs á Memphis á fimmtudagskvöldið, var það aðeins í annað skiptið á ferlinum sem hann nær að skora 27 stig í deildarleik! Sem er galið ef haft er í huga hvað hann gerði við aumingja Miami-liðið í lokaúrslitunum 2014.
Þetta er skólabókardæmi um stöðugleikann í spilamennsku San Antonio og vaxandi stöðugleika í sóknarleik hans sjálfs. Hann skorar nær aldrei yfir 26 stig í nokkrum einasta leik, en er samt með 22 stig að meðaltali í leik. Mjög spes. Mjög svo.
Skál fyrir því að Kawhi Leonard a) fjósist til að haldast heill - og b) haldi áfram að vaxa og dafna sem einn allra besti leikmaður deildarinnar, þó hann verði klárlega síðasti maðurinn til að segja þér það.