Thursday, May 21, 2015

Tuttugu ár frá Dauðakossinum


Í nótt voru tuttugu ár síðan Mario Elie skoraði körfuna frægu sem tryggði verðandi meisturum Houston Rockets sigur á Phoenix Suns í oddaleik í annari umferð úrslitakeppninnar. Elie sendi fingurkoss út í loftið eftir að hann setti skotið niður og hefur það allar götur síðan verið kallað "Dauðakossinn." Þessi sería sýndi mjög vel hvað getur verið stutt á milli hláturs og gráturs í NBA.



Þetta Houston-lið var með óhemju sterkan karakter og varð þarna fimmta liðið í sögunni til að koma til baka og vinna seríu þar sem það lenti undir 3-1. Og það gegn gríðarlega sterku liði Phoenix, sem árið áður barðist um titilinn í lokaúrslitaeinvígi við Chicago.

Mario Elie var lykilmaður í liði Houston á þessum tíma og skoraði nokkrar risavaxnar körfur fyrir liðið í úrslitakeppninni á þessum árum, enda óttalaus á ögurstundu. Skondið að segja frá því að hann var tekinn í sjöundu umferð nýliðavalsins í NBA árið 1985, þar sem 159 leikmenn voru teknir á undan honum.


Elie spilaði ekki fyrsta NBA leikinn sinn fyrr en 1990 og gekk í raðir Houston fyrir meistaraárið örlagaríka 1994. Alls náði hann að vinna þrjár dollur á ferlinum og allar í Texas, því hann var í meistaraliði San Antonio Spurs árið 1999.

Eins og þið getið rétt ímyndað ykkur, er lið sem lendir undir 3-1 í seríu alltaf aðeins hársbreidd frá því að falla úr keppni og það dugar ekkert venjulegt kommbakk til að snúa svona rimmu við og vinna hana. Sérstaklega ekki þegar andstæðingurinn er jafn sterkur og þetta Suns-lið var. En það voru sannarlega engir skussar í þessu Houston-liði, enda vann það titilinn árið eftir líka.

Það skapaðist eðlilega smá umræða um lið sem hafa unnið seríur eftir að hafa lent undir 3-1 eftir að Los Angeles Clippers varð á dögunum níunda liðið í sögunni til að lenda í þessari óskemmtilegu reynslu.

Það er skondin tilviljun að aftur var það Houston sem náði að spóla sig upp úr holunni. Þetta var í annað skipti sem Houston gerði þetta, en Boston gerði það líka í tvígang: 1968 og 1981.

Doc Rivers þjálfari Clippers gerði allt sem hann gat til að peppa sína menn upp í að klára einvígið við Rockets eins fljótt og hægt var eftir að hafa komist í 3-1, því hann er einn af þeim fáu sem þekkir það af eigin raun hvernig er að vera á röngum enda í svona einvígi.

Rivers þjálfaði nefnilega Orlando-liðið sem náði 3-1 forystu gegn Detroit í annari umferð árið 2003 en féll svo úr keppni.

Þar má segja að umtalið um af hverju Tracy McGrady kæmist aldrei upp úr fyrstu umferð úrslitakeppninnar hafi farið formlega á fullt eftir þessa seríu, en hann sá um 97,94% af sóknarleik liðsins.

TéMákur var líka gjörsamlega óstöðvandi skorari á þessum árum, þó það komi upprunalegu efni þessarar hugleiðingar nákvæmlega ekkert við.

Að lokum hendum við hérna inn lista yfir liðin sem hafa náð að koma til baka og vinna sjö leikja seríur eftir að hafa lent undir 3-1, en hérna getur þú líka skoðað nánar hvernig einvígin þróuðust.

Það er svo hollt að hella sér stundum í svona fullkomlega gagnslausan fróðleik.

  • Houston vs. Los Angeles Clippers, 2015 Western Conference semifinals
  • Phoenix vs. Los Angeles Lakers, 2006 Western Conference first round
  • Detroit vs. Orlando, 2003 Eastern Conference quarterfinals
  • Miami vs. New York, 1997 Eastern Conference semifinals
  • Houston vs. Phoenix, 1995 Western Conference semifinals -x
  • Boston vs. Philadelphia, 1981 Eastern Conference final -x
  • Washington vs. San Antonio, 1979 Eastern Conference final
  • Los Angeles vs. Phoenix, 1970 Western Division final
  • Boston vs. Philadelphia, 1968 Eastern Division final -x


X - liðið varð NBA meistari