Monday, May 4, 2015

Áhrif meiðslaplágunnar á úrslitakeppnina í NBA


Það var kominn tími á að einhver settist niður og tæki saman lista yfir öll meiðslin sem eru í gangi í NBA deildinni. Við nennum því að sjálfssögðu ekki, en það þýðir ekki að við getum ekki komið leikmanninum í skilning um hvað þetta er alvarlegt mál.

Skiptar skoðanir eru á því hvaða lið geti talist góð eða léleg, sumir nota úrslitakeppnina til að finna einhverja línu til að vinna með í því sambandi. Við förum ekki í slíkan formalisma. Við förum eftir eðlisávísun - og samkvæmt henni eru þrettán lið í NBA deildinni sem skipta einhverju máli, eru relevant og sæmilega sterk. Lausleg talning okkar leiddi í ljós að það eru eitthvað í kring um 25 leikmenn meiddir í þessum þrettán liðum, sem þýðir tveir menn á hvert lið og það er alveg helvíti eðlilegt bara.

Meiðsli eru afar flókið fyrirbæri og því best að skilgreina það áður en við höldum áfram. Meiddur leikmaður - í okkar bókum - getur verið að glíma við nokkrar tegundir af meiðslum eða verið á misjöfnum stöðum í meiðslaferlinu.


Verstu meiðslin eru auðvitað "sjáumst kannski næsta vetur" eins og fótbrotið hans Paul George hjá Indiana í fyrra og hásinarslit Kobe Bryant og Wesley Matthews hjá Portland. Við erum ekki að bera saman fótbrot og hásinarslit, aðeins að sýna ykkur hvernig meiðsli fara í þyngsta og versta flokkinn. Nokkrir leikmenn í NBA eru að díla við vona erfið meiðsli, en þeir eru sem betur fer ekki mjög margir.

Næsti flokkur fyrir neðan eru meiðsli sem tekur nokkra mánuði að laga. Slík meiðsli eru að hrella nokkuð marga leikmenn í NBA deildinni og það að þurfa í uppskurð og tveggja eða þriggja mánaða endurhæfingu þýðir náttúrulega að þú sért úr leik á tímabilinu ef meiðslin koma t.d. eftir Stjörnuleik.

Næsta þrep er menn sem eru að spila meiddir. Allir leikmenn í NBA eru að drepast í skrokknum á lágmark þremur stöðum öllum stundum. Hér erum við tala um menn eins og Kyle Lowry hjá Toronto sem var augljóslega meiddur og spilaði hræðilega í einvíginu við Wiz, Tony Parker hjá Spurs sem var að glíma við sautján mismunandi krankleika og Paul Millsap hjá Atlanta, sem er augljóslega ekki alveg í lagi vegna axlarmeiðslunum sem hann varð fyrir korter í úrslitakeppni (auðvitað).

Síðasta tegundin er svo menn sem eru að koma til baka eftir stutt- eða langvarandi meiðsli en eiga langt í land með úthald, leikæfingu og almennan riðþma fyrir leiknum. Dæmi um þetta eru menn eins og Tiago Splitter hjá San Antonio og okkur liggur við að segja að Derrick Rose sé búin að vera í svona ferli mánuðum saman, aftur og aftur.


Jæja, þá vitið þið hvað við eigum við þegar við tölum um meiðsli og hvað þau þýða fyrir klúbbana. Þetta er ekki skemmtileg upptalning eða upplífgandi en kannski verður það eins og að skila skattframtali eða koma heim frá tannlækninum þegar þetta er afstaðið - fyrst og fremst léttir.

Eins og við tókum fram í byrjun, nennum við ekki að skrifa skýrslu um hvern einasta leikmann sem er meiddur, það er líka ákaflega niðurdrepandi verkefni. Þess í stað ákváðum við að grípa í grafíkina og bjóða upp á eitthvað sem er örugglega með dýrari og betri Photoshop-vinnu sem þú hefur séð. Þurfum við eitthvað að ræða plástrana á efstu myndinni? Slakaðu bara á og njóttu augnabliksins meðan þú horfir á þessa dýrð.

Við settum inn stöðutöfluna í austri og vestri með tíu efstu liðunum. Ef er merki á eftir nafninu á liðinu þínu, þá er það relevant - að gera eitthvað. Ekkert merki þýðir eiginlega nákvæmlega það - ekkert - þetta eru lið sem fara frá því að vera lélegt drasl og upp í bleh. Þið takið eftir því að við setjum Washington í bleh-flokkinn og það er af því þetta lið er ekki búið að gera neitt. Það getur vel verið að það geri eitthvað í úrslitakeppninni núna, en það kemur þessu tiltekna máli ekkert við.




Hauskúpurnar þýða að einn eða fleiri lykilmenn liðsins séu úr leik á tímabilinu. (athugið að aðrir leikmenn geta líka verið að glíma við alls konar meiðsli). Dæmi: Kevin Love hjá Cleveland

Sjúkrakassinn þýðir að einn eða fleiri leikmenn liðsins séu krambúleraðir - ekki það mikið meiddir að þeir fari í jakkafötin, en þó það meiddir að það kemur verulega niður á leik þeirra og veikir liðið þeirra í leiðinni. Dæmi: Joakim Noah hjá Chicago og Tony Parker hjá San Antonio.

Loks er það guli karlinn sem brosir eins og fáviti og er með þumalinn upp í loft eins og hann hafi leyst gátuna í endann á bók eftir Enid Blyton. Það gefur augaleið að hann á að vera jákvætt merki, enda þýðir hann orðrétt: "hvernig í andskotanum má það vera að helmingur allra leikmanna í NBA séu í klessu á sjúkralistanum en (fyrrum) meiðslakálfarnir hjá Golden State ekki með svo mikið sem hælsæri?"

Er það von að menn og konur spyrji. Einu sinni voru t.d. Stephen Curry og Andrew Bogut alltaf meiddir - bara alltaf - og því gekk illa að koma þessu liði á flot. Bogut hitti að sjálfssögðu mjög vel á með meiðsli á síðustu leiktíð þegar hann náði að mölva í sér rifbein í einhverjum átökum á vellinum og slapp því við að spila leikina sjö við Clippers í úrslitakeppninni.

Við erum því eðlilega búin að vera að spá því undanfarna daga og vikur að eitthvað hræðilegt muni nú líklega henda annað hvort Bogut eða Curry, en auðvitað vonum við að svo verði ekki.


Ef þú pælir aðeins í þessum töflum sérðu undir eins að Golden State mun aldrei fá betra tækifæri til að vinna meistaratitil en akkúrat núna. Einu liðin sem gætu hugsanlega ógnað Warriors að einhverju leyti, eru öll án eins eða fleiri lykilmanna og það telur bara alveg helling. Það vita Golden State- menn betur en margir aðrir eftir að hafa verið án kjölfestu sinnar í vörninni í einvíginu við Clippers á síðustu leiktíð.

Við höfðum orð á því fyrir nokkrum vikum að það er raunverulegur séns á því að við rönkum allt í einu við okkur í endaðan júní og þá verði Golden State búið að gjörsamlega tortíma öllum andstæðingum sínum og bakka upp frábæran árangur sinn í deildarkeppninni með því að spila vel í úrslitakeppninni líka og hirða titilinn án teljandi vandræða.

Hugsið ykkur, það eru allt í einu orðnir miklu meiri möguleikar á því að þetta geti ræst - meira að segja Grýla (San Antonio) er fallin úr leik og ekkert lið fagnar því eins innilega og Warriors. San Antonio átti nokkur svör við Golden State í vetur (og úrslitakeppnum fyrri ára) og vann það meira að segja í Oracle Arena, þar sem liðið hefur tapað alls tveimur leikjum í allan vetur.


Golden State er alveg hrikalega sterkt körfuboltalið og yrði vel að því komið að vinna meistaratitilinn - liðin sem vinna titilinn eiga það í 99,99999999999% tilvika skilið - en þetta meiðslakjaftæði er orðið svo svakalegt að við erum komin á fremsta hlunn með að stjörnumerkja það (*) eins og tímabilin þar sem verkbönnin settu stórt strik í reikninginn. Af hverju ekki alveg eins að stjörnumerkja tímabil sem var handónýtt af öðrum ástæðum?

Það er meira að segja óþarfi að vera með einhverjar samsæriskenningar, því þú þarft engar kenningar ef allir eru líkamlega ófærir um að spila körfubolta. Það eina sem er dularfullt í þessu er heilsan á Warriors, því meiðslafaraldurinn er nánast búinn að hefla alla líklegustu keppinauta Golden State úr leik. Þetta er ljóta vitleysan...

Við biðjum ykkur enn og aftur velvirðingar á því að vera að bjóða ykkur upp á svona ógeðslega niðurdrepandi og þunglyndisvekjandi efni, en þið ættuð að vera farin að vita að við þurfum annað slagið að taka #realtalk á þetta til að halda í trúverðugleikann (immit).

Það er búið að henda rauða dreglinum á jörðina fyrir Golden State og það eina sem það á eftir að gera er að labba á leiðarenda á háum hælum og efnismiklum kjól án þess að detta á rassgatið og gera sig að fífli. Smá pressa, en ætti að vera vel dúabúl - kannski bara ísí.