Tuesday, October 14, 2014

NBA Ísland spáir í spilin fyrir veturinn


Það er orðinn næstum því mánuður síðan við spáðum í spilin fyrir veturinn í Austurdeildinni. Liðin þeim megin gerðu sig flest að fíflum síðasta vetur af því þau voru svo óguðlega léleg, en sum þeirra virtust ætla að reyna að gera eitthvað í því í sumar.

Nokkur spennandi félagaskipti gerðu það að verkum að kannski yrði breyting til batnaðar hjá einhverjum klúbbunum eystra. Efst á blaði þar var auðvitað Cleveland, sem endurheimti Týnda Soninn og bætti við sig Ástþóri og nokkrum eldri borgurum.

Við vorum ekkert að stressa okkur á að taka stöðuna í Vesturdeildinni af því liðin þeim megin voru miklu rólegri á leikmannamörkuðum í sumar og mæta flest svipað mönnuð til leiks í haust og á síðustu leiktíð. Það þýðir þó ekki að við setjum þau í umfjöllunarbann.

Landslagið í NBA er sífellt að taka einhverjum breytingum og hérna fyrir neðan ætlum við að skoða liðin í Vesturdeildinni og athuga hvort þau koma með nýjar áherslur, vonir eða væntingar inn í tímabilið sem hefst eftir nokkra daga. Taflan hérna fyrir ofan er veðurspáin sem við gerðum fyrir mánuði síðan, þar sem við tippuðum á hvort liðin myndu bæta við sig, standa í stað eða jafnvel bæta sig í vetur. Það verður gaman að hlæja að því hvað þetta kemur illa út í vor, enda er þetta nákvæmlega til þess -- að hafa gaman af því.

DALLAS MAVERICKS

Eins og þið sjáið á töflunni, tippum við á að Dallas muni bæta við sig á komandi vetri og eftir þeirri spá sjáum við því fyrir okkur að liðið vinni amk fimmtíu leiki.

Þessi bjartsýni stafar að hluta til vegna þess hvað liðið stóð sig vonum framar í úrslitakeppninni í vor, þar sem það var liðið sem veitti meisturum San Antonio hvað verðugasta samkeppni.

Nokkrar mannabreytingar hafa orðið hjá Dallas. Þeir Vince Carter (Memphis), DeJuan Blair (Washington), Jose Calderon (New York), Samuel Dalembert (New York) og Shawn Marion (Cleveland) eru allir horfnir á braut.


Í staðinn eru komnir menn eins og Jameer Nelson (Orlando), Raymond Felton (Latibær), Chandler Parsons (Houston), Al-Farouq Aminu (New Orleans), Richard Jefferson (Utah), Charlie Villanueva (Detroit) og sjálfur Tyson Chandler (New York) er mættur aftur til liðsins sem hann varð meistari með árið 2011.

Þetta eru satt best að segja helvíti miklar mannabreytingar og ef við eigum að segja alveg eins og er, líst okkur nákvæmlega ekkert á sumar þeirra.

Flestir af þessum nýju mönnum hjá Mavericks kunna jú körfubolta, en sumir þeirra hafa gert minna af því að spila körfubolta undanfarin ár.

Hafa gert meira af því að éta kleinuhringi og athuga hvað væri líffræðilega hægt að troða hausnum langt upp í ristilinn á sjálfum sér (við höfum ekki rekist á neinar opinberar mælingar ennþá, en þær hljóta að vera til). Þegar allt er talið er það fyrst og fremst trú okkar á Rick Carlisle þjálfara og Dirk Nowitzki sem stýrir allri þessari bjartsýni á gengi Dallas.

Chandler Parsons ætti að hjálpa liðinu, þó þjálfarinn hans hafi lýst því yfir opinberlega að hann sé með bumbu og þá verður allt annað líf fyrir liðið að fá Tyson Chandler aftur inn í miðjuna til að binda saman vörnina, þó hann sé orðinn ansi fullorðinn.


DENVER NUGGETS

Denver er gleymda liðið í NBA í vetur. Óskaplega fáir virðast muna eftir því að fá lið í NBA urðu eins hrikalega fyrir barðinu á meiðsladraugnum og einmitt Denver og fyrir vikið talar enginn um Denver þegar talað er um liðin sem eiga möguleika á að komast í úrslitakeppnina næsta vor.

Það getur vel verið að Denver komist ekki í úrslitakeppnina, en við sjáum ekki að liðið verði langt frá því nema ef það endurtekur meiðslaruglið frá síðustu leiktíð - og það yrði náttúrulega bara ósanngjarnt. Málið er nefnilega að Denver er hljóðlega komið með þokkalegasta hóp af körfuboltamönnum og komið með ágæta dýpt. Svo endurheimtir það menn eins og Danillo Gallinari úr langvarandi meiðslum og það ætti sannarlega að hjálpa.

Brian Shaw er staðráðinn í því að nýta erfiðasta heimavöllinn í deildinni með því að keyra, keyra og aftur keyra á öll þau lið sem koma í heimsókn og það er vel. Við vonum öll að Denver gangi vel í vetur. Því í andskotanum ekki?

GOLDEN STATE WARRIORS

Leikmenn Golden State elskuðu Mark Jackson, en hann var látinn fara þrátt fyrir að vera hársbreidd frá því að koma undirmönnuðu liðinu upp úr fyrstu umferð úrslitakeppninnar. Jackson var ekki látinn taka pokann sinn af körfuboltalegum ástæðum. Stjórn Warriors treysti sér bara ekki til að vinna með þjálfara sem kann ekki mannleg samskipti og fílaði að reka fólk út af engu.

Það er ekki gott að segja hvaða væntingar eru gerðar til Warriors í vetur, en stefnan hlýtur að vera sett á að reyna amk að komast í úrslitaeinvígi Vesturdeildarinnar. Golden State er búið að vera krúttlega Spútnikliðið undanfarin ár, en núna er kominn tími til að Steph Curry og félagar taki næsta skref og sýni að þeir séu meira en krútt.

Golden State er komið með nýjan þjálfara sem heitir Steve Kerr. Hann hefur talsverða reynslu af því að skjóta körfuboltum og tala í sjónvarpi, en hefur aldrei þjálfað áður. Forráðamenn Warriors treysta á það að hann muni verða fljótur að læra og reynist ágætis þjálfari eins og forveri hans.

Meiðsladraugurinn hefur aldrei verið langt undan þegar Golden State er annars vegar og það er engin ástæða til að ætla að hann verði í fríi í vetur. Eins og óþverrarnir sem við erum, spáum við að komandi tímabil hjá Warriors verði nákvæm eftirlíking af því síðasta. Skemmtilegt lið í deildakeppninni sem fellur strax úr leik í úrslitakeppninni þrátt fyrir hetjulega baráttu og mikil meiðsli.

Andrew Bogut og Stephen Curry munu missa mikið úr vegna meiðsla í vetur. Því miður.

HOUSTON ROCKETS

James Harden og félagar féllu út úr úrslitakeppninni í fyrstu umferð í vor, þar sem Portland tók þá í bakaríið í epískri seríu. Houston var með heimavallarréttinn í einvíginu en allt kom fyrir ekki. Það má svo sem ekki mikið út af bera þegar liðin í 4. og 5. sæti kljást. Þau eru jafnsterk.

Portland og Houston voru sannarlega álíka sterk, en Portland hafði Damian Lillard á meðan Houston hafði James Harden. Lillard sýndi og sannaði að hann er einn mesti töffari deildarinnar þegar hann skaut Houston í sumarfrí með einni eftirminnilegustu körfu í sögu Blazers.

Þvílíkt gæsahúðaraugnablik.

Harden hinsvegar tók upp þráðinn þar sem hann sleppti honum þegar hann var leikmaður Oklahoma City (og skeit á sig í lokaúrslitunum á móti Miami árið 2012) og náði sér aldrei almennilega á strik í rimmunni.

Það getur verið frábært að horfa á Houston spila í deildakeppninni þegar langskotin detta, ekki síst þegar Harden er í essinu sínu. Þetta lið á hinsvegar eftir að sanna að það geti gert eitthvað í úrslitakeppni og næsta vor verður það að gerast án manna eins og Jeremy Lin, Chandler Parsons og Omer Asik, sem allir eru farnir frá félaginu.

Það þarf eitthvað stórmerkilegt að gerast til að Houston taki næsta skref og sumir setja spurningamerki við það hvort Kevin McHale sé hreinlega nógu góður þjálfari til að fara þangað með liðið. Við skulum líka hafa það hugfast að eini (hávaxni) maðurinn sem spilar vörn hjá liðinu - Dwight Howard - er ekkert að yngjast. Fylgist með því hvað hann missir úr marga leiki í vetur vegna meiðsla.

LOS ANGELES CLIPPERS


Rétt eins og Houston, er L.A. Clippers lið sem hefur mikið að sanna. Eini munurinn er sá að Clippers er á þrepinu fyrir ofan. Síðasta tímabil var á margan hátt martröð fyrir félagið, sem var í fréttunum á röngum forsendum í allt vor af því eigandi þess er vitleysingur.

Önnur umferðin hefur verið þröskuldurinn sem Clippers hefur standað á undanfarin ár, en við skulum lofa ykkur að hver einasti maður hjá félaginu verður hundfúll ef liðið fer ekki í úrslitaeinvígi Vesturdeildarinnar næsta vor. Það eru eðlilegar kröfur á þetta vel mannaða lið, sem þá ætti að vera búið að tileinka sér hugmyndafræði Doc Rivers að fullu.

Það er komin pressa á Chris Paul sem ofurstjörnu að fara að drullast til að koma liðinu sínu einu sinni í fjögurra liða úrslit.

Eins og við höfum fjallað um hundrað sinnum áður, er það ósanngjarnt að hengja ábyrgðina á gengi körfuboltaliðs um hálsinn á einum manni. Þegar um er að ræða mann sem er jafn hátt skrifaður og Chris Paul, gilda hinsvegar engar afsakanir. Hann fær engan afslátt frekar en LeBron James og Kevin Durant, tveir af örfáum leikmönnum í NBA deildinni sem eru betri en Paul í körfubolta.

Og talandi um menn sem eru góðir í körfubolta. Chris Paul verður alltaf prímusmótor Clippers af þeirri einföldu ástæðu að hann er leikstjórnandi liðsins, en núna í vetur gætum við orðið vitni að nokkuð sérstökum hlut. Að Chris Paul verði í fyrsta sinn á ferlinum næstbesti leikmaður liðs síns.

Þetta er nefnilega leiktíð Blake Griffin, sem þrátt fyrir sífellda og harða gagnrýni, gerir ekkert annað en að bæta sig á flestum sviðum leiksins. Eitt af því sem Griffin er búinn að vera hvað duglegastur við í sumar er að vinna í skotinu sínu og árangurinn lætur ekki á sér standa. Hann er búinn að bæta við sig þriggja stiga skoti og ætlar framvegis að hafa þristinn sem fastan punkt í vopnabúri sínu, sem eru skelfileg tíðindi fyrir aumingja mennina sem ætla að reyna að dekka hann.

Já, þetta er leiktíð Blake Griffin. Það er kominn tími á að hann sýni okkur að hann sé hiklaust einn af fimm bestu körfuboltamönnum í heiminum. Og ef Griffin klikkar á því, er Anthony Davis niðri í New Orleans alveg tilbúinn að taka fram úr honum og hrifsa til sín nafnbótina besti kraftframherji Vesturdeildarinnar.

LOS ANGELES LAKERS


Það er algjör óþarfi að eyða miklu bleki í Lakersliðið núna, þú veist það jafnvel og við hvort sem þú ert stuðningsmaður þess eða ekki. Lakers er bara að bíða. Bíða eftir að geta reynt að bjóða í Kevin Durant þegar hann losnar undan samningi. Bíða eftir því að skaðræðið sem er samningurinn hans Kobe Bryant renni út.

Fyrrum Lakers-leikmaðurinn Byron Scott hefur veri fenginn til að stýra liðinu á meðan það hangir á þessari biðstofu og það hentar bara ágætlega. Það skiptir engu máli hvað hann gerir með liðið í vetur. Það skiptir heldur engu máli þó Lakers hafi fengið til sín körfuboltaleikmenn eins og Jeremy Lin og Carlos Boozer.

Þetta lið er ekki að fara neitt. Það er bara að bíða.

Og á meðan það bíður, fá stuðningsmennirnir að horfa á Kobe Bryant berjast við elli kellingu og eltast við einhver stigamet. Kannski spilar Steve Nash nokkrar mínútur líka, en það er kannski til of mikils ætlað af manni á fimmtugsaldri.

Æ, það er of auðvelt að trolla í þessu Lakersliði. Eins og að skjóta fisk í tunnu. Reyndar auðveldara, því það er alveg hægt að klikka á því að hitta fisk í tunnu ef hann er lifandi og spriklandi út um allt. Pældu í því...

MEMPHIS GRIZZLIES


Okkur þótti það eftirtektarvert þegar við sáum hvað spámennirnir í Las Vegas ætlast til lítils af Memphis í vetur. Vegas setti yfir/undir markið á 48, 5 hjá Memphis, sama viðmið og hjá Portland.

Memphis vann 50 leiki á síðustu leiktíð þrátt fyrir að Marc Gasol hafi misst úr helling af leikjum vegna meiðsla og því finnst okkur engin ástæða til annars en að liðið endurtaki leikinn í vetur, enda er breiddin orðin meiri hjá Húnunum.

Nægir þar að nefna kappa eins og Vince Carter sem ætti að gefa Grizzlies smá skammt af sóknarleik af vængnum sem sárlega hefur vantað.

Memphis er eitt af þessum liðum sem er svo nálægt því að geta farið að gera eitthvað. Er ekki mörgum skrefum frá því að fara í úrslit í vestrinu. Þið munið hvað Memphis var glettilega nálægt því að senda Oklahoma í sumarfrí í vor. Það munaði bara c.a. einum óskiljanlegum kraftaverkaleik frá Reggie Jackson eða svo og það er aldrei að vita hvað Memphis hefði gert á móti San Antonio ef það hefði komist áfram (væntanlega annað hvort unnið 4-1 eða tapað 4-0, slíkar hafa sveiflurnar verið í rimmum þessara liða á liðnum árum).

Langlíklegasta staðan er að Memphis haldi áfram að hökta í sömu sporunum og það hefur verið í síðustu 4-5 árin. Metnaðurinn er bara ekki meiri hjá félaginu, því miður. Þetta er eins og með Oklahoma, eigendurnir eru ekki tilbúnir að eyða þeim fjármunum sem upp á vantar til að búa til meistarakandídat. Þeir láta sér nægja að sulla í 1-2 annari umferð úrslitakeppninnar og eiga í raun enga möguleika á því að ná lengra. Það hlýtur að vera óendanlega svekkjandi og frústrerandi að halda með svona klúbbum. Svona "slíta af sér allt hárið", pirrandi.

MINNESOTA TIMBERWOLVES

Nú er kominn alveg nýr bragur á Úlfavaktina og enginn veit við hverju er að búast.

Ástþór er horfinn á vit Cleveland-ævintýra með LeBron James og eftir situr Flip Saunders með fullt hús af kjúklingum sem geta hoppað alveg rosalega hátt upp í loftið meðan þeir halda á körfuboltum.

Minnesota komst ekki í úrslitakeppnina í vægðarlausu vestrinu þó það væri með Kevin Love í öllu sínu veldi og ekki vænkast hagur strympu þegar hans nýtur ekki við.

Það eina sem ætti að vera ljóst er að Úlfarnir verða með ákaflega spennandi og skemmtilegt lið í vetur. Andrew Wiggins lofar nokkuð góðu og gæti meira að segja farið fram úr hóflegum væntingum okkar.

Þó lið Úlfanna komi mikið breytt til leiks í haust, verður hugarfarið í kring um liðið það nákvæmlega sama og verið hefur undanfarin ár. Það er spenna í loftinu og allir ætla að fylgjast spenntir með Úlfunum á League Pass og víðar. Liðið eignast fleiri stuðningsmenn beint af bolavagninum, en það er langt í að þetta lið geti farið að hóta því að komast í úrslitakeppnina. Það er bara of lélegt á tímabili þar sem þú ert auli ef þú vinnur ekki fimmtíu leiki í Vesturdeildinni.

NEW ORLEANS PELICANS


(Andvarp) æ, þetta lið...

Allir sem hafa á annað borð einhvern áhuga á NBA eiga eftir að reyna að sjá nokkra leiki með Dílaskörfunum í vetur til þess eins að sjá Anthony Davis sýna listir sínar.

Brúnar vakti meiri og meiri athygli eftir því sem leið á síðasta tímabil og stóð sig mjög vel með landsliðinu í sumar. Hann er að taka skrefið. Verða alvöru leikmaður og meira en það - hann er að verða einn besti stóri maðurinn í deildinni.

Það er unun að horfa á Davis spila. Hann er alltaf að bæta sig í bæði vörn og sókn og við fögnum sérstaklega komu Omer Asik til New Orleans, því hún þýðir vonandi að Davis fær að einbeita sér meira að því að spila sína kjörstöðu (fjarka) frekar en að þurfa að hólkast mikið í miðherjanum.

Það eina sem Davis þarf að hafa með sér í vetur er góð heilsa. Þá verður þetta hrikaleg leiktíð hjá honum. Verstur fjandinn að leikmennirnir í kring um hann vita ekkert hvað þeir eru að gera og margir eru farnir að hallast að því að Monty Williams sé bara andskotann ekkert þessi ógurlega efnilegi þjálfari sem hann átti að vera.

Þetta blessaða lið hefur ekki getað hangið heilt síðan það var sett saman og það verður það aldrei meðan það ætlar að hafa Eric Gordon part af prógramminu. Við setjum spurningamerki við Gordon, Tyreke Evans og Jrue Holiday. Þeir eiga allir eftir að sanna að þeir geti farið með þetta lið í úrslitakeppni. Meira að segja Brúnar er ekki nógu góður til að draga þá þangað einn síns liðs.

OKLAHOMA CITY THUNDER

Leikmenn Oklahoma City er farið að verkja óþægilega mikið í rassgatið af að sitja svona lengi á fjögurra liða biðstofunni.

Eigendur Thunder eru ekki tilbúnir til að borga rándýran lúxusskatt og því er ljóst að ef þeir Kevin Durant, Russell Westbrook og Serge Ibaka ætla sér að reyna að vinna meistaratitilinn - verða þeir að gera það sjálfir.

Þeir fá enga hjálp við það frá stjórn félagsins.

Oklahoma er búið að vera eitt af fjórum bestu liðum NBA deildarinnar í fjögur ár og verður það áfram meðan þeirra Durant og Westbrook nýtur við.

Nú styttist í að félagið þurfi að fara að semja við hinn stórefnilega Reggie Jackson sem sýndi svo góða spretti á síðustu leiktíð, en Jackson er í nákvæmlega sömu stöðu og James Harden var í á sínum tíma. Hann vill vera í byrjunarliðinu, hann vill fá að spila mínútur eins og byrjunarliðsmaður og síðast en ekki síst, vill hann fá borgað eins og byrjunarliðsmaður.

Bæ, bæ, Reggie.

Það verður ógeðslega gaman að fylgjast með Russell Westbrook fyrstu vikurnar í deildakeppninni þar sem Kevin Durant er meiddur. Við verðum límd við skjáinn, því margt bendir til þess að Russ muni jafnvel Russ-a yfir sig í fjarveru félaga síns. Við reiknum með einhverjum sóðalegum tölum hjá Russ. Þvílík tilhlökkun.

PHOENIX SUNS


Phoenix bauð upp á eitt mesta Öskubuskuævintýri sem við höfum orðið vitni að í NBA á síðustu leiktíð, þegar það var rétt búið að troða sér í úrslitakeppnina eftir að við spáðum að það ætti eftir að vinna 10-15 leiki. Það segir reyndar meira um það hvað við erum vitlaus, en þetta var nú samt eftirtektarverður árangur hjá Jeff Hornacek á sínu fyrsta ári sem aðalþjálfari.

Við ætlum að detta í klisjurnar og spá því að Phoenix eigi eftir að þjást af Öskubuskuævintýratimburmönnum í vetur. Við spáum að liðið nái ekki að endurtaka leikinn frá því á síðustu leiktíð. Phoenix er með eitt skemmtilegasta og skrautlegasta bakvarðaparið í deildinni og verður eflaust augnakonfekt áfram, en árangurinn gæti látið á sér standa.

Það gleymist stundum að það er ekkert rosalega mikið af góðum körfuboltamönnum í liði Suns og það var eins og hver einn og einasti leikmaður liðsins í fyrra ætti sína bestu leiktíð á ferlinum. Hvernig eiga Horny og félagar að fara að því að toppa það?

PORTLAND TRAILBLAZERS


Portland var yfirmáta heppið með meiðsli á síðustu leiktíð og fá - ef einhver - byrjunarlið í deildinni spiluðu eins mikið saman og fyrstu fimm hjá Portland.

Deildakeppnin var dáltíið sveiflukennd hjá Blazers í fyrra. Liðið byrjaði með ógurlegum látum en svo héldu margir að loftið hefði verið farið úr því um vorið. Annað átti eftir að koma á daginn eins og við bentum á í pistlinum um Houston hér fyrir ofan.

Blazers mætir með svipað lið til leiks í ár og engin ástæða til að ætla annað en að það vippi sér í 50 sigra og úrslitakeppni í vor. Hvað það gerir hinsvegar þegar þangað kemur, er önnur saga.

 Liðið gerði mjög vel að slá Houston út og komast upp úr fyrstu umferð í fyrsta skipti síðan um aldamótin, en kom svo hressilega niður á jörðina þegar því var bókstaflega slátrað af San Antonio í annari umferðinni.

Það verður ljómandi gaman að fylgjast með Damian Lillard og félögum halda áfram að bæta sig í vetur, en það verður líka spennandi að fylgjast með því hvort sprilljarðamæringurinn sem á félagið er tilbúinn að splæsa í einhverjar aðgerðir til að reyna að styrkja liðið. Koma svo, Paul Allen! Þú hefur ekkert betra við peningana að gera en að redda Lillard smá hjálp!

SACRAMENTO KINGS

Einmitt.

Við vorum alvarlega að spá í að láta þetta nægja sem umsögn Kings þetta haustið.

Það getur vel verið að það sé ógurleg bjartsýni og jákvæðni á skrifstofunni hjá Sacramento Kings, en það breytir því ekki að þetta lið er búið að vera fast í viðvaningslegum og oft barnalegum/geðsjúkum tapkúltur sem dregur suma svo djúpt ofan í holræsið að þeir komast aldrei upp úr því aftur.

Því miður er DeMarcus Cousins gangandi auglýsing fyrir þennan kúltúr. Hann hefur gríðarlega hæfileika en fær mjög takmarkað út úr þeim af því hann er með þroska og leikskilning á við drukkið leikskólabarn.

Sacramento er búið að vera "á leiðinni inn á beinu brautina" í alveg grátlega mörg ár, en það er bara helvítis lygi. Þetta lið er ekkert að fara á neina beina braut. Það siglir lóðbeint til helvítis og heldur þeirri stefnu þangað til einhver tekur rækilega til, stokkar upp og skapar nýjan kúltúr. Sannleikurinn er stundum sár.

SAN ANTONIO SPURS


Þetta ótrúlega og einstaka lið drullaði yfir allar hefðir og kenningar í fræðunum þegar það hraunaði yfir Miami og tryggði sér fyrsta meistaratitilinn í sjö ár. San Antonio mætir til leiks í vetur með þetta sama lið og væri sigurstranglegasta liðið ef úrslitakeppnin byrjaði í dag.

Oklahoma er eina liðið í NBA sem á möguleika í San Antonio í dag að okkar mati. En til þess þurfa allir að vera heilir og því var ekki að heilsa hjá Oklahoma í vor - og heldur ekki akkúrat núna.

Alveg eins og heilsan setti strik í reikninginn hjá Oklahoma síðustu tvö ár í úrslitakeppninni, var það góð heilsa sem fleytti Spurs hluta úr leiðinni að titlinum. Það kom í rauninni í ljós í sumar hvað þetta San Antonio lið er mikið skaðræði þegar það er með alla sína menn heila, en getur á sama hátt verið brothætt þegar menn eins og Duncan og Ginobili hafa ekki getað beitt sér að fullu árin á undan.

Leiktíðin í NBA er alveg viðbjóðslega löng þegar kemur að ellismellum eins og San Antonio. Gregg Popovich mun beita sömu trixum og síðast með því að hvíla stjörnurnar sínar kerfisbundið og nú er viðbúið að enn fleiri klúbbar fari að apa það eftir honum.

Það er freistandi að segja að nú sé það bara ekki stærðfræðilega mögulegt að San Antonio vinni fleiri meistaratitla, en við erum ekki svo heimsk. Við dæmum þetta lið ekki úr leik fyrr en sjö árum eftir að þeir Popovich og Duncan hætta í körfubolta. San Antonio er búið að hafa okkur öll að fíflum svo andskoti oft að við gefum þeim ekki færi á að gera það enn einu sinni.

UTAH JAZZ


"Fræðingarnir" segja að Utah sé á réttri leið nú þegar það er búið að losa sig við nánast allt sem heitir reynsla úr liðinu og hefur nú það yfirlýsta markmið að henda ungum strákum út í djúpu laugina með körfubolta í fanginu.

Jazz er að minnsta kosti tvö ár frá því að vera tvö ár frá því að gera eitthvað í þessari deild, en til að svo megi verða, þarf ansi margt að ganga upp.

Til dæmis þarf hið meinta ástralska undabarn Dante Exum að sanna að hann sé ekki mesta böst síðan Michael Olowokandi. Hann á talsverða vinnu fyrir höndum bara til að sanna það, blessaður.

Gordon "Ásmundur" Hayward er orðinn nokkuð massaður og hann fær það hlutverk áfram að reyna að leiða þetta unga lið áfram á vellinum undir leiðsögn hins nýja þjálfara, Ted Bundy - eh, Quin Snyder. Þetta verður langur vetur í Saltvatnsborg. Við skulum vona að ungu mennirnir nái að ylja fólkinu eitthvað í kuldanum.

---------------------------------------------------------

P.s. -- NBA Ísland er ókeypis, en þeim sem hafa tök á því er bent á að þeir geta hjálpað til við rekstur síðunnar með frjálsum framlögum. Það er hægt að gera á einfaldan hátt með því að smella á gula hnappinn til hægri á síðunni sem á stendur "Þitt framlag." 

Við gerum okkur grein fyrir því að svona væl er ekki vinsæll lestur, en þetta skiptir talsverðu máli. Ef þú hefur þannig gaman af að lesa NBA Ísland og langar að sýna þakklæti þitt eða jafnvel halda upp á fimm ára afmæli síðunnar, getur þú smellt á áðurnefndan hnapp og glatt ritstjórnina óendanlega.

Takk elskurnar

Ritstjórnin