Monday, October 27, 2014

Íslandið í Garðinum


Okkur þykir alltaf jafn vænt um það þegar menn taka sig til og representera NBA Ísland þegar þeir fara á leiki í NBA deildinni. Nýjasta dæmið um þetta gefur að líta hérna fyrir neðan, en það eru myndir frá pílagrímsför KR-ingsins Þorsteins Jónssonar í Madison Square Garden á dögunum.

Steini skellti sér á leik New York Knicks og Toronto Raptors og tók bolinn alla leið með því að fá sér frauðfingur og tilheyrandi. Rúsínan í pylsuendanum er samt að sjálfssögðu bolurinn, en þær eru að verða ansi margar hallirnar í NBA sem heimsóttar hafa verið af Íslendingum í NBA Ísland bolum.

Eins og nærri má geta skemmti Þorsteinn sér konunglega í Garðinum á dögunum, en í samtali við ritstjórnina sagði hann að það sem hefði komið sér mest á óvart væri hvað Amare Stoudemire gæti enn hoppað hátt. Þið sjáið hann einmitt svífa um loftin blá á einni myndinni hérna fyrir neðan.

Við þökkum Þorsteini fyrir þetta skemmtilega innlegg og hvetjum alla sem vilja representera Íslandið sitt til að senda okkur myndir frá ferðalögum sínum ytra. Það eru meira að segja enn til örfáir bolir á lagernum ef einhver hefur áhuga á að fá sér svoleiðis og taka þetta alla leið. Þið getið sent línu á nbaisland@gmail.com til að kanna málið.