Sunday, October 12, 2014
Hrakfarir Spurs á Íslandi
Eins og allir vita er Ísland merkilegasta og besta land í heimi. Þess vegna var kominn tími til að besta körfuboltalið í heimi kæmi hingað, þó ekki væri nema í mýflugumynd.
Einn af fréttariturum NBA Ísland á Suðurnesjum var svo heppinn að hitta allt Spurs-klanið þegar það millilenti í Keflavík á leið sinni heim frá Tyrklandi. Þarna voru allir leikmennirnir, þjálfarateymið, aðstoðarfólk, klappstýrur og kok (konur og kærustur).
Það sorglega við þetta stopp Spurs-manna var að þeir eiga eflaust eftir að gretta sig þegar þeir heyra aftur minnst á Ísland, því í þá klukkutíma sem þeir þurftu að stoppa, fengu þeir hvorki vott né þurrt. Allt var lokað ekkert í boði. Ekki beint góð landkynning. Hér áður fengu menn frá NBA lopapeysur, sjúss og reiðtúr eins og allir merkilegir menn eiga að sjálfssögðu að fá þegar þeir koma til landsins.
Nei, við skulum því bara þakka fyrir að Tim Duncan skuli hafa nennt að skrifa þessar þrjár eiginhandaráritanir sem hann var beðinn um (ein þeirra á myndinni hérna fyrir ofan). Þú biður svona stórmeistara ekki um að sitja fyrir á bolamynd ef hann hefur hvorki fengið vott né þurrt - það væri bara frekja.
Annars var lítið hægt að kreista bitastætt upp úr hinum heppna útsendara okkar varðandi San Antonio liðið. Hann játti því að kærastan hans Tim Duncan væri, jú, svo sannarlega hugguleg - og bætti við að klappstýrur Spurs væru líka... ansi vingjarnlegar. Fleira var það nú ekki.
Efnisflokkar:
Bolurinn
,
Spurs
,
Tim Duncan