Friday, October 31, 2014

Þetta er í kvöld


NBA leiktíðin hefst fyrir alvöru í nótt þegar tvö best mönnuðu liðin í Austurdeildinni leiða saman hesta sína. Chicago og Cleveland eiga bæði að baki aðeins einn deildarleik og voru þeir báðir við New York Knicks.

Chicago valtaði yfir Knicks í New York í sínum fyrsta leik, en í gærkvöldi náði New York liðið að snúa við blaðinu og skella Cavaliers í fyrsta leik LeBron James í Cleveland í fjögur ár.

Það var mjög greinilegt að Cleveland-menn - og þá sérstaklega LeBron James - voru allt of hátt spenntir fyrir fyrsta heimaleikinn, enda voru þeir lélegir. Þeir komast ekki upp með neitt slíkt í Chicago í nótt, þar sem ógnarsterkt Bulls-lið bíður þeirra.

Flestir - líklega allir - reikna með að það verði þessi tvö lið sem berjist um besta árangurinn í Austurdeildinni í vetur og þó þau eigi bæði eftir að slípa sig betur saman, er forvitnilegt að sjá hvernig nýju leikmennirnir standa sig í báðum liðum.

Fólki er ráðlagt að missa ekki af þessu.