Tuesday, June 3, 2014

NBA Ísland skoðar framtíðarhorfur Oklahoma City


Hvað eiga þeir Thabo Sefolosha, Kendrick Perkins, Steven Adams, Jeremy Lamb og Derek Fisher sameiginlegt - fyrir utan þá augljósu staðreynd að þeir spila allir með Oklahoma City?

Gott, gott, nokkur ykkar svöruðu; "þeir eru ekki nógu góðir!" - það er skondið svar og í sjálfu sér ekki vitlaust. En við vorum að leita að nákvæmara svari og hér er það:

Þeir skoruðu allir þrjú stig að meðaltali í leik í úrslitakeppninni. Þrjú komma eitthvað...


Þarna liggur tvímælalaust hluti af ástæðunni fyrir því að Oklahoma City er núna á Benidorm en ekki að gera sig klárt fyrir Miami. Hélduð þið virkilega að við ætluðum bara að sleppa því að tjá okkur um úrslitaeinvígið í Vesturdeildinni? Auðvitað ekki.

Það rignir alltaf eldi og brennisteini svona korter eftir að lið fellur úr leik í úrslitakeppni, ekki síst ef það fellur úr leik í undanúrslitunum. Það er á margan hátt flóknasti staðurinn til að vera á í úrslitakeppninni, sjáið þið. Liðið þitt er mjög gott, en ekki frábært, ekki nógu gott til að berjast um gullið.

Skemmst er frá því að segja að (kannski aldrei þessu vant) það rignir hvorki eldi né brennisteini hjá okkur. Þið vitið hvað okkur er annt um hann Russell Westbrook og liðið hans í leiðinni, svo við ætlum ekki að vera með nein leiðindi út í Oklahoma eins og við vorum með út í Indiana á dögunum.

Auðvitað er alltaf hægt að kvarta yfir einhverju og ef við ættum að væla yfir einhverju, er það hvað eigendur Oklahoma City Thunder eru nískir og asnalegir. Ekkert lið í NBA deildinni er með efnivið og kjarna sem kemst nálægt Oklahoma og aðeins tapliðið í úrslitaeinvíginu er nær titlinum en OKC.

Það er rosalega þægilegt að sitja heima í sófa og gagnrýna Oklahoma, en við víkjum aldrei frá þeirri skoðun okkar að eigendur félagsins ættu að finna sér eitthvað annað að gera. Þegar þú ert með svona efnivið eins og Oklahoma, þá bara borgar þú þessar krónur sem upp á vantar til að gera liðið að meistara. Andskotinn hafi það!

Til hvers í fjandanum ertu að reka (gott) körfuboltalið ef þú ert of nískur til að standa í því? Eigendur flestra félaganna í NBA deildinni myndu gefa á sér anusinn fyrir að vera með lið í höndunum eins og OKC - og þú getur hengt þig upp á að 90% af þeim væru tilbúnir að borga smá lúxusskatt ef það þýddi að liðið væri áskrifandi í úrslit á hverju ári eða jafnvel meistari. Kommon!

Við erum búin að eyða 1634 blaðsíðum í að gagnrýna Harden-skiptin og nennum ekki að gera það einu sinni enn, en það er eins og eigendur félagsins séu með höfuðið í ristlinum og sjái ekki heildarmyndina.

Oklahoma á að vera í úrslitum á hverju ári. Það er bara þannig.

Það er óábyrg og ódýr skoðun að segja að Oklahoma hefði unnið San Antonio ef Serge Ibaka hefði verið heill heilsu, en okkur er alveg sama.

Við erum þeirrar skoðunar, með fullri virðingu fyrir San Antonio, að Oklahoma sé betra lið en San Antonio þegar allir eru heilir. Það hefur sýnt sig. En vel gert hjá Spurs að fara í úrslitin, Tim Duncan og félagar voru betri í einvíginu og fara því áfram.

Internetið vill auðvitað sprengja Oklahoma í loft upp (óheppilegt orðalag, við vitum það), reka Scott Brooks og henda megninu af mannskapnum í ruslið. Þetta eru skiljanlegar skoðanir eftir niðurstöðuna hjá liðinu í vor.

En ef þú pælir aðeins í því, þarf alls ekki að fara út í svona drastískar aðgerðir. Sjáðu bara samkeppnina sem Oklahoma fær í vestrinu. Jú, okei, Doc Rivers virðist vera á leið með að gera eitthvað gott úr Clippers-liðinu, en þess utan er ekkert í gangi í Vesturdeildinni sem Oklahoma þarf að óttast - og ekki þarf að hafa áhyggjur af austrinu - lol á það bara.

Nei, það þarf ekki að gera svo mikið hjá Oklahoma, af því lykilmenn liðsins eru kornungir og verða betri með hverju árinu. Kjarni liðsins (og Kendrick Perkins er því miður í honum) verður sá sami og verið hefur á næstu leiktíð, en það eina sem upp á vantar eru aukaleikarar sem kunna körfubolta og geta spilað hann þó að sé úrslitakeppni. Það er eflaust bæði dýrt og erfitt að finna þessa menn og fyrir vikið verður sjálfsagt ekkert úr því, en pældu bara í því ef liðið hefði eitthvað geta notað mann eins og Thabo Sefolosha. Það hefði verið sterkt.

Við erum 90% viss um að Oklahoma valdi stuðningsmönnum sínum vonbrigðum og geri ekkert til að styrkja liðið  - treysti áfram á að þrír menn geti klárað þetta og unnið titilinn. Það má vel vera að það takist einu sinni, en hugsið ykkur hvað liðið hefði gert hin fjögur, fimm eða sex árin sem eigendurnir voru of #"%#"$ nískir til að styrkja það!

Við þurfum samt ekki að leggjast í eintómt þunglyndi. Ekki ef þú pælir í því að:

  • Kevin Durant verður betri á næsta ári
  • Russell Westbrook verður betri á næsta ári
  • Serge Ibaka verður betri á næsta ári
  • Steven Adams verður betri á næsta ári
  • Reggie Jackson verður betri á næsta ári
  • Jeremy Lamb verður betri á næsta ári
  • Derek Fisher verður... djók!


Þið fattið hvað við erum að fara.

Ef Oklahoma sleppur við þetta meiðslakjaftæði sem hefur verið á liðinu undanfarin tvö ár (bara á versta tíma, í úrslitakeppninni - það missir enginn úr leik í deildakeppninni - læk, ever, skiluru!), þá ætti það að verða áfram við toppinn án þess að gera ra%#%!

Það myndi ekki drepa stjórnina að pikka upp varamenn sem gætu skorað meira en 5 stig samtals í leik, en ekki veðja á það.

Það væri upplagt að ljúka þessum pistli með því að segja að Allt verði í sóma í Oklahoma, en úr því við náðum að sitjá á okkur í fyrirsögninni, er líklega best að reyna að sleppa því í niðurlaginu líka.

Æ... jæja, andskotinn hafi það!