Saturday, May 10, 2014
Við leyfum þetta
Þið munið að við gáfum grænt ljós á það fyrir nokkru síðan að Kevin Durant yrði kjörinn Mest Verðmætasti Pilturinn í NBA árið 2014. Þeir Durant og LeBron James skiptust á að fara hamförum með liðum sínum í vetur og hafa hvor um sig verið að bjóða upp á tilþrif og tölur sem hafa ekki verið að sjást mikið í sögu deildarinnar.
Þess vegna erum við alltaf að hvetja ykkur til að njóta þess að horfa á þessa snillinga spila. Þið eigið eftir að horfa til baka seinna og hugsa með ykkur hvað þið voruð heppin að fá að fylgjast með þessum einstöku snillingum leika listir sínar dag eftir dag. Og þið verðið líka að segja öllum hinum frá því. Það er ennþá fullt af villuráfandi sauðum þarna úti sem vita ekki eða skilja ekki að körfubolti er það skemmtilegasta og dýrmætasta í lífi allra manna og kvenna á þessari jörð ásamt kærleikanum, frelsinu, góðri heilsu, fjölskyldu og vinum.
En nú erum við aðeins komin út fyrir efnið. Við ætluðum nefnilega að senda hérna út yfirlýsingu. Ekki um það hvort Kevin Durant var verðugur viðtakandi áðurnefndra verðlauna, heldur þurfum við að leggja dóm á ræðuna sem pilturinn hélt við tækifærið.
Við erum nefnilega búin að sjá og heyra Kevin Durant fá mikið af skít og leiðindum út af öllum tárunum og tilfinningaseminni sem hann leyfði að skína í gegn.
Því verðum við að smella okkur í netlögreglugallann og dæma í málinu - þó það nú væri. Svona málefni koma ritstjórn NBA Ísland við bæði á beinan og óbeinan hátt.
Og hver er nú úrskurður NBA Ísland um athöfnina?
Við leyfum þetta.
Mörg ykkar spretta þá úr sætunum, hrópa að okkur fúkyrðum og kasta jafnvel skemmdu grænmeti í áttina til okkar. Hvernig dettur fólki í hug að taka jákvætt í svona tilfinningaklám og væl?
Jú, jú, þetta var dálítið yfirgengilegt á tára- og tilfinningasviðinu, því verður ekki neitað. Þetta er tilfinningaþrungin stund og allt það, en... rólegur, K.D.
En af hverju erum við þá að leyfa þetta, spyrðu.
Af því Durant er svo góður strákur. Þess vegna leyfum við þetta. Ef þú gleymir því nú aðeins hvað runnu mörg tár þarna við athöfnina og beinir eyrum þínum að því hvað pilturinn var að segja, horfir þetta allt öðru vísi við.
Í stað þess að berja sér á brjóst og tala um sig í þriðju persónu eins og einhver hefði gert, tók Durant sig til og hélt, að því er virtist, fleiri klukkutíma langa blaðlausa ræðu þar sem hann hrósaði og þakkaði einhverjum 1700 manns.
Og þarna er þessum dreng rétt lýst.
Hann er alltaf að hugsa um liðsfélaga sína og er svo óeigingjarn að það er eiginlega óskiljanlegt að maðurinn geti skorað meira en 30 stig að meðaltali í leik.
Mörgum ykkar finnst þetta sjálfsagt vera innantómt væl og það er hið besta mál. Við kaupum þetta hjá honum og við erum líka að horfa á heildarmyndina.
Kevin Durant er nefnilega annar stærsti og mikilvægasti sendiherra NBA deildarinnar og deildin þarf nauðsynlega á svona piltum að halda. Durant er vel upp alinn sómapiltur og fagmaður fram í fingurgóma og okkur þykir svo vænt um að enn sé hægt að finna svona menn á þessum síðustu og verstu.
Þú mátt skammast eins og þú vilt yfir Kevin Durant, við kunnum að meta hann þó athöfnin hans hafi verið dálítið klámfengin. Hann er vel að þessu kominn strákurinn og er sannarlega búinn að gera mömmu stolta. Svo er í fínu lagi að menn séu að grenja við svona tækifæri meðan þeir standa sig inni á vellinum.
Og það er Durant sannarlega að gera um þessar mundir.
Efnisflokkar:
Kevin Durant
,
MVP