Saturday, May 10, 2014

Meistaraheppni Miami er með ólíkindum


Það eina sem skyggir á þessa stórkostlegu úrslitakeppni er sú sorglega staðreynd að Austurdeildin er í besta falli arfaslök um þessar mundir. Vesturdeildin er búin að vera áberandi sterkari en systir hennar í um það bil aldarfjórðung, en aldrei hefur munurinn verið meiri en einmitt núna.

Vissulega hefur Austurdeildin átt flott lið og verðuga meistara á síðustu 25 árum. Þar erum við m.a. með tvö stykki af ógnarsterkum liðum bæði frá Detroit (´89-´90 + ´04) og Miami (´06 + ´12-´13), þrælsterkt lið frá Boston (´08) og svo auðvitað sögulegu ófreskjuna frá Chicago með alla sína titla á tíunda áratugnum (´91-´93 + ´96-´98).

Athugið að við erum ekki að halda því fram að ofangreind lið séu eitthvað annað en frábær. Það sem við erum að tala um er að Vesturdeildin á miklu fleiri góð lið en Austurdeildin og hefur átt lengi.

Við hugguðum okkur við það í vetur að þó megnið af liðunum í Austurdeildinni væru megarusl, ættum við þó að minnsta kosti í vændum jafnt og skemmtilegt einvígi í úrslitarimmunni austan megin eins og í fyrra þegar Miami og Indiana fóru alla leið í oddaleik. Þessar vonir eru nú að verða orðnar að engu eftir að Indiana byrjaði að drulla svona heiftarlega á sig.

Það getur vel verið að Indiana rétti eitthvað aðeins úr kútnum og það getur meira að segja vel verið að það nái að gera Miami lífið leitt ef við fáum sama úrslitaeinvígið í austrinu og við fengum í fyrra. Það breytir því þó ekki að Miami er að fara að setja neyðarlegt met núna. Miami er að slá metið sem við skulum kalla því óþjála nafni "auðveldasta leið síðari tíma í lokaúrslit."

Krambúleraðir keppinautar

Sko, það er ekki ætlunin hjá okkur að gera lítið úr afrekum Miami frá því að Sólstrandargæjarnir leiddu saman hesta sína á Suðurströnd. En það er með algjörum ólíkindum hvað heilladísirnar eru góðar við þetta lið. Við höfum skrifað um það áður bæði hvað Miami hefur verið heppið með meiðsli og hvað andstæðingar liðsins hafa á sama tíma verið lygilega óheppnir með meiðsli.


Sjáið bara hvaða lið hafa gert sig líkleg til að ógna veldi Miami í Austurdeildinni síðan LeBron James og Chris Bosh gengu í raðir liðsins. Þar var Chicago náttúrulega efst á blaði. Chicago veitti Miami verðuga samkeppni áður en Derrick Rose nánast hætti að spila körfubolta vegna meiðsla. Boston missti Rajon Rondo í meiðsli. Atlanta missti Al Horford í meiðsli. Orlando-liðið var leyst upp. New York hótaði því að verða gott en skeit svo gjörsamlega á sig í fyrravor og hefur ekki náð sér síðan.

Einhver hefði haldið að þarna væru ófarir keppinauta Miami á enda, en það var nú öðru nær.

Strax í fyrsta leik hjá Miami í úrslitakeppninni núna í vor, gufa þær litlu vonir sem Charlotte hafði um að veita meisturunum keppni út í loftið eftir að besti sóknarmaður liðsins (Al Jefferson) meiðist. Það var ekkert annað í stöðunni fyrir Miami en að sópa þessu og það var klárað.

Þá er það næsta umferð. Þar er mótherjinn jú Brooklyn Nets, lið sem að sjálfssögðu er án eina leikmannsins sem gæti gert Miami lífið leitt - miðherjans Brook Lopez.

Það er fullt af flottum nöfnum í liði Brooklyn, en einu leikmennirnir hjá Nets sem tæknilega ættu möguleika á að vinna Miami eru bara orðnir svo gamlir að David Attenborough er að spá í að gera þátt um þá.

Miami er enda komið yfir 2-0 á móti Nets og það er ekki að sjá að liðið verði í stórvandræðum með að klára einvígið. Þá er aðeins eitt lið ótalið (fyrir utan Washington) og það er Indiana.

Merkilegt nokk hefur Indiana ekki orðið fyrir neinum skakkaföllum eins og öll hin liðin, en í stað þess að missa menn í meiðsli, tók liðið sig til í vor og hætti að vera gott í körfubolta. Það er auðvitað miklu betra. Af hverju að vera að missa menn í meiðsli ef þér stendur til boða að drulla bara á þig? Sjáðu bara New York!

Fyrir utan allt þetta drama á andstæðingum Miami í austrinu, var svo auðvitað kroppað aðeins í helsta keppinautinn í vestri.

Oklahoma, andstæðingur Miami í lokaúrslitunum 2012 og verðugur keppinautur næstu árin, asnaðist náttúrulega til þess að láta James Harden fara frá félaginu og missti svo Russell Westbrook í meiðsli á síðustu leiktíð.

Í ljósi þessa er eiginlega með ólíkindum að San Antonio hafi ekki misst lykilmenn sína í alvarleg meiðsli. Spurs og Pacers eru einu keppinautar Miami sem hafa ekki lent í teljandi manntjóni. Ætli sé ekki best að vara lið eins og L.A. Clippers og Washington við nú þegar þau gera atlögu að titlinum. Það er hætt við að meiðslalistar fari að lengjast hjá þeim ef þau setja stefnuna á að knésetja meistarana.

Lökkí bestörds

Miami stefnir nú á að leika til úrslita um NBA titilinn fjórða árið í röð, nokkuð sem fá lið hafa afrekað.

Öllum ætti að vera ljóst að ef meistararnir halda sæmilegri heilsu, mætti ætla að þeir hefðu góða möguleika á að verja titilinn. Þeir hafa jú unnið bæði San Antonio og Oklahoma áður, en það eru tvö af líklegustu liðunum til að komast í úrslitin.

Mikið hefur verið gert úr þessari þrekraun leikmanna Miami að spila fram í miðjan júní þrjú ár í röð og menn eins og Steve Kerr hafa bent á það að sagan sé alls ekki á bandi Miami þegar rætt er um möguleikann á að vinna þrjá í röð.

Lið sem séu svona lengi í baráttunni endi alltaf á því að lenda í meiðslum eða öðru mótlæti sem verði til þess að titilvörnin heppnast ekki í það skiptið.

Þetta er vissulega ekki galin kenning, en málið er bara að Miami er að setja nýja staðla í heppni og er fyrir vikið ekkert að gefa eftir á leiðinni að þriðja titlinum í röð.

Það er engin tilviljun að aðeins þrjú lið í sögu NBA hafi unnið titilinn þrisvar (eða meira) í röð (Boston, Lakers og Chicago). Til að svo megi vera, þarf liðið sem um ræðir ekki aðeins að vera sögulega sterkt, heldur þarf það að hafa mjög stóran skammt af heppni með sér í farteskinu. Þegar meistarar missa titlana sína, er það oft af því að einn af keppinautunum verður einfaldlega of sterkur. Stundum er það samt alls ekki andstæðingurinn sem veldur því. Stundum er það bara af því að heppnikvótinn er búinn.

Nú ætlum við ekki að reyna að spá því hvenær Miami klárar þennan risavaxna heppnikvóta sem það er búið að vera að veiða fyrir undanfarin ár, en við urðum bara að ljá máls á því hvað þetta er sérstakt dæmi.

Við skulum ekki taka neitt af Miami, þetta lið hefur þurft að bera sigurorð af næststerkasta liðinu í deildinni til að vinna titilinn síðustu tvö ár. Málið er bara að liðið hefur verið yfirnáttúrulega heppið.

West is best

Það eina sem Miami þarf til að verja titilinn enn einu sinni, er hvíld og heilsa. Meistararnir eru með bullandi sjálfstraust á móti hvaða andstæðingi sem er og fíla sénsinn sinn á móti hvaða liði sem er ef þeir eru heilir og sæmilega ferskir á fótunum.

Og jæja, þetta raðast allt upp fyrir þeim eins og dómínó. Andstæðingurinn í 1. umferð er lélegur og lemstraður, andstæðingurinn í 2. umferð er lélegur, lemstraður og elliær og andstæðingurinn í úrslitum Austurdeildarinnar ef liðið kemst þangað - verður annað hvort illa þjálfað lið fullt af grænjöxlum sem vita ekkert hvað þeir eru að gera (Washington) eða lið í krísu sem er gjörsamlega farið á límingunum (Indiana). Það er ekki hægt að hafa þetta mikið betra.

Hugsaðu þér bara hvað mögulegur andstæðingur Miami í lokaúrslitunum verður búinn að fara mörgum sinnum erfiðari leið í úrslitin. Meðan meistararnir spila lúdó og pússa á sér neglurnar, eru liðin í Vesturdeildinni bókstaflega búinn að vera að reyna að berja hvert annað til dauða.

Atriðið sem vegur þyngst í titildæminu hjá Miami í ár er það sama og í fyrra - heilsan á Dwyane Wade. Ef Wade er heill, eru meiri líkur en minni á því að Miami klári þetta. Og hann fær ekki betri séns á að halda sér heilum og ferskum en hann er búinn að fá í ár.

Ah, hvað það er þægilegt að vera í Austurdeildinni.

Taktu hvaða lið sem er í úrslitakeppni Vesturdeildarinnar - mögulega fyrir utan Dallas - og það burstar öll liðin í austrinu fyrir utan Miami í sjö leikja séríu. Pældu í því að lið eins og Houston, Golden State og Memphis skuli vera komin í sumarfrí á meðan lið eins og Brooklyn, Indiana og Washington eru enn að spila.

Okkur er slétt sama hvað þér finnst, þessi austurlið eiga ekki séns í he****ti í liðin sem eru dottin út í vestrinu. Aldrei. Gleymdu því!

Aftur viljum við ítreka að við erum ekkert að skammast út í Miami með þessari pælingu. Meiningin var aðeins að draga upp mynd af því hvað Miami hefur sett nýja staðla í meistaraheppni. Þessi heppni hefur hjálpaði liðinu mikið undanfarin misseri, en hún hjálpaði því ekki að vinna San Antonio í fyrra. Ok, kannski smá, en ekki mikið.

Miami getur aftur á móti lítið við þessu gert. Það er ekki Miami að kenna að allir þessir leikmenn hafi meiðst og að einhverjir af andstæðingum þess hafi drullað á sig. Það eina sem Miami getur gert er að vinna þá mótherja sem fyrir verða. Það kemur ekki í þeirra hlut að skrifa söguna eða meta hversu erfið leiðin að þessum titlum reyndist vera. Dolla er dolla.

Fólk á ekki eftir að velta sér sérstaklega upp úr því eftir þrjátíu ár hvort að Austurdeildin var léleg eða ekki þegar það fer að gera upp titlana hans LeBron James. Þér finnst það kannski dálítið ósanngjarnt, en svona er þetta nú bara.

When the West was verst

Það er alveg öruggt að einhverjir þeirra sem hallir eru undir Austurdeildina eru orðnir ansi pirraðir á þessum yfirlýsingum okkar. Við viðurkennum það fúslega að við erum með heiftarlegan vesturbæjas. En hann er samt ekki sterkari en svo að við viðurkennum alveg að Vesturdeildin hefur ekkert alltaf verið eintómar rósir þó hún sé búin að vera betri síðustu 25 ár.

Vesturdeildin var þannig satt best að segja dálítið mikið drasl á níunda áratugnum og við erum ekkert búin að gleyma því.

Til að sýna ykkur að við séum ekki eintóm fífl, ákváðum við því að kíkja í bækurnar og gefa ykkur hugmynd um það hvernig þetta var á níunda áratugnum. Þá voru sleggjur í austrinu eins og Boston, Philadelphia og Detroit, en eina liðið sem gat eitthvað í vestrinu var auðvitað Lakers-liðið.

Hvað þetta varðar, má sjá margt líkt með þessu Lakers-liði og Miami-liðinu í dag. Það fékk oft á tíðum glettilega litla samkeppni á leiðinni í lokaúrslitin, en þegar þangað var komið þurfti það náttúrulega að standa sig ef það ætlaði að klára titilinn - og oftast gerði liðið það nú. Vissulega var Lakers alvöru lið á níunda áratugnum. Það vann ekki helminginn af titlunum sem voru í boði í slysni eða af tilviljun.

Til að gefa ykkur mynd af því hvað Vesturdeildin var léleg á þessum árum, ákváðum við að taka saman árangur Lakers-liðsins í úrslitakeppni Vesturdeildarinnar frá árinu 1980 til 1989. Á þessum tíu árum, var Lakers hvorki meira né minna en 88-19 gegn vestrinu í úrslitakeppninni. Það er 82% vinningshlutfall samkvæmt okkar lélegu stærðfræðimenntun og þar með er ekki öll sagan sögð.

Breyttar reglur

Fyrirkomulagið sem spilað er eftir í úrslitakeppninni í dag er að mestu byggt á þeim reglubreytingum sem gerðar voru í NBA árið 1984, en þá var ein stærsta breytingin sú að efstu liðin í hvorri deild fyrir sig þurftu að spila við liðin sem náðu síðustu sætunum inn í úrslitakeppnina.

Fram að því hafði reglan nefnilega verið sú að efstu liðin fengu að sitja hjá í fyrstu umferð og þurftu því ekki að vinna nema tvær seríur til að komast í úrslit.

Það hefur meira að segja oft komið til umræðu í NBA að taka þetta hjásetufyrirkomulag upp aftur, því eins og tölfræðin sýnir svo greinilega, er það afar sjaldgæft að liðin í 7. og 8. sæti nái að skella toppliðunum.

Það er hinsvegar nokkuð öruggt að þessi pæling er hvergi í gangi í dag, því þó að umrædd einvígi hafi til dæmis farið eftir bókinni í ár, fóru þrjár af fjórum rimmunum milli 1. og 8. sætis og 2. og 7. sætis alla leið í oddaleik.

En svo við höldum okkur við Lakers-pælinguna, má ætla að þetta gríðarlega háa vinningshlutfall þeirra gulu gegn restinni af (slakri) Vesturdeildinni á níunda áratugnum hefði verið enn hærra ef liðið hefði ekki setið hjá í fyrstu umferð frá 1980 til 1984.

Vinni, vinni, vinni

Sem dæmi um styrk Lakers á þessum árum og slappleika mótherja þeirra í Vesturdeildinni, má nefna að á árunum 1987 til 1989 var Lakers hvorki meira né minna en 33-1 á móti vestrinu í úrslitakeppninni. Þrjátíu og þrjú - eitt!



Vissulega var þetta Lakers-lið gríðarlega sterkt og flestir eru sammála um að liðið sem vann tvöfalt milli ´87 og ´88 sé eitt það besta í sögu deildarinnar. Það breytir því þó ekki að þó að einstaka lið eins og t.d. Houston hafi í tvígang "grísast" til að slá Lakers út, var satt best að segja fátt um fína drætti í vestrinu á þessum árum.

San Antonio, Utah, Houston, Dallas, Portland og Phoenix eru dæmi um lið sem poppuðu upp annað slagið og unnu yfir 50 leiki, en ef Spútniktilburðir Houston eru teknir til hliðar, átti ekkert af þessum liðum fræðilegan möguleika í Lakers.

Magic Johnson og félagar fóru til að mynda í lokaúrslit fjögur ár í röð frá 1982-1985 og léku hvorki meira né minna en níu sinnum til úrslita á tólf ára kafla frá 1980 til 1991.

Aðeins Boston getur státað af annari eins velgengni. Fyrst með því að fara í lokaúrslit tíu ár í röð og vinna átta titla í röð á sjötta og sjöunda áratugnum og svo aftur á níunda áratugnum þegar liðið fór í lokaúrslitin fjögur ár í röð frá 1984 til 1987.

Þannig er þetta í NBA eins og annars staðar. Hlutirnir eiga það oftast til að jafna sig út eftir því sem tíminn líður. Þannig eru hugmyndir um að senda 16 bestu liðin í deildinni í úrslitakeppnina óháð deildum óþarfar.

Það má vera að Vesturdeildin sé tíu sinnum betri en Austurdeildin í dag, en það á eftir að breytast. Vestrið var drasl fyrir aldarfjórðungi síðan og á eflaust eftir að verða það fljótlega aftur. Og þá kemur að austrinu að dómínera á ný.