Friday, May 9, 2014

Velgengni Tim Duncan og Spurs er alls ekki eðlileg


Það er kannski orðið dálítið þreytt umræðuefni í úrslitakeppninni, en tölfræðin sem sýnir reynslu Tim Duncan og félaga hans í San Antonio liðinu í úrslitakeppni er hreint út sagt ótrúleg.

Það er með ólíkindum að hugsa til þess að Tim Duncan sé búinn að spila jafnmarga leiki (220) í úrslitakeppni og Portland Trailblazers hefur spilað í sögu félagsins. Og Portland er enginn skítaklúbbur. Portland vann titilinn með Jack heitnum Ramsey og Bill Walton árið 1977 og lék til að mynda tvívegis til úrslita um titilinn í kring um árið 1990.

Duncan er einn síns liðs búinn að spila fleiri leiki í úrslitakeppni en næstum því helmingurinn af liðunum í NBA deildinni hafa náð að afreka í sögu sinni.* Þetta er á engan hátt eðlilegt.

Þetta undirstrikar annars vegar ótrúlega velgengni San Antonio Spurs á síðustu tæpum tveimur áratugum og hinsvegar hvað Tim Duncan hefur verið þungamiðjan í allri þessari velgengni ásamt Gregg Popovich þjálfara og síðar þeim Tony Parker og Manu Ginobili.

Hægt og örugglega, stundum litlaust og leiðinlega en fagmannlega, þokast Tim Duncan upp alla afrekalista sem til eru varðandi velgengni í úrslitakeppni.

Rétt eins og fólk í dag hugsar sér hvernig í ósköpunum Wilt Chamberlain fór að því að skora 100 stig í einum leik, á fólk örugglega eftir að hrista höfuðið yfir því eftir 30 ár þegar það lítur yfir söguna og pælir í því hvernig í fjandanum þetta San Antonio lið og Tim Duncan fóru að því að vera á toppnum í hartnær tvo áratugi.

Við vitum ekki með ykkur, en við erum að sjúga í okkur hverja mínútu sem við sjáum með þessu Spurs liði núna. Ekki aðeins er það sögulegt, heldur er það bara svo drullu skemmtilegt. Eftir að hafa lent í bölvuðu basli með vel þjálfað og reynslumikið lið Dallas í fyrstu umferð úrslitakeppninnar, fer San Antonio vélin nú hamförum gegn aumingja strákunum í Portland.



Sumir eru kannski með leiðindi út í Portland og segja að þetta lið sé of ungt, óreynt og lélegt á varnarsviðinu til að eiga séns í Spurs. Það er vissulega rétt fullyrðing að hluta til, en að okkar mati hefur Portland bara náð að koma merkilega lítið lemstrað út úr fyrstu leikjunum við Svarta Dauða í Texas.

Vissulega hafa þetta verið tveir þungir skellir sem Portland hefur fengið, en rétt eins og þegar á móti blés í einvíginu við Houston, hafa strákarnir hjá Portland ekki látið það buga sig. Mörg lið hefðu örugglega bara lagst grenjandi í gólfið og tapað með 50 stigum, en það gerðu Portland-menn ekki. Vel gert hjá þeim, þegar allt er talið.

Það sem er hinsvegar alveg ljóst með þessa seríu, er að hún verður ekki lengri en fimm leikir ef Portland nær ekki að spila betri varnarleik en það hefur gert í fyrstu tveimur leikjunum.

San Antonio hefur gjörsamlega fengið að gera hvað sem það vill eins og sjá má á tölfræðinni. Grunnleikaðferð Spurs í sókninni hefur fengið að ganga nokkuð smurð, þar sem hæst ber eitraður sóknarleikur Tony Parker. Portland hefur ekki verið nálægt því að halda aftur af Parker, sem alltaf nær að koma sér djúpt og skiptast á að fóðra Duncan og Splitter undir og sjóðbullandi heitar skytturnar fyrir utan.

Það er eins og San Antonio sé með 1583 varamenn og ef svo ótrúlega hefur viljað til í fyrstu tveimur leikjunum gegn Blazers að einn þessara varamanna hafi misnotað langskot (og það hefur verið að gerast mjöööög sjaldan), skal einhver poppa upp og stela sóknarfrákastinu. Upp úr því fær Portland svo annað þriggja stiga skot á sig sem undantekningarlaust ratar rétta leið.

Þetta hefur verið að gerast allt of oft hjá Portland og eins og við sögðum áðan, er með ólíkindum að þessi atriði hafi ekki sogið alla orku úr Blazers. Það er ekkert eins niðurdrepandi og að fá á sig þrist eða troðslu eftir sóknarfrákast þegar þú ert búin(n) að púla af þér anusinn í varnarleiknum í 24 sekúndur.

Eins og þið vitið hefur San Antonio nú náð 2-0 forystu gegn Blazers og er því komið í hrikalega vænlega stöðu í einvíginu. Lið sem komast í 2-0 í úrslitakeppni NBA deildarinnar klára einvígin í yfir 90% tilvika og það hefur raunar ekki gerst nema 16 sinnum ef við munum rétt að lið sem var undir 0-2 hafi komið til baka og klárað seríu.

Það vill reyndar svo merkilega til að San Antonio var síðasta liðið sem missti 2-0 forystu og tapaði einvígi. Það var hið sögulega ár 2012, þegar Spurs vann 20 leiki í röð í deildakeppni og úrslitakeppni, komst í 2-0 gegn Oklahoma City, en tapaði svo fjórum í röð og féll úr leik.

Fáir reiknuðu með að San Antonio ætti afturkvæmt þá, ekki frekar en þegar Phoenix sópaði því 4-0 um árið - nú eða eftir rýtinginn sem það fékk í bakið í leikjum sex og sjö í lokaúrslitunum í fyrra.

En eins og þið ættuð að vera farin að sjá, kemur þetta San Antonio lið alltaf til baka. Ekkert lið hefur látið okkur líta eins illa út og San Antonio á síðustu sex eða sjö árum. Í hvert einasta skipti sem við ætlum að sanna reglu, kemur San Antonio og brýtur hana. Þetta eru náttúrulega óþolandi menn.

Þó San Antonio hafi byrjað svona rosalega vel á móti Portland og hafi söguna mestan part á sínu bandi, trúum við því ekki að Portland eigi eftir að láta sópa sér út. Til þess er liðið of sterkt og sérstaklega er heimavöllur þess of sterkur. Það verður allt snælduklikkað í Portland á laugardagskvöldið, svo mikið er víst. Höllin er örugglega enn að nötra eftir flautukörfuna hans Damian Lillard á dögunum og hver einasti maður í RIP-borg er klár í að gera Spurs lífið leitt.

Við vitum ekki með ykkur, en við erum drulluhrifin af þessu Portland liði og óskum þess alls hins besta í framtíðinni, bæði í einvíginu við Spurs-skrímslið nú og í framtíðinni.

Nú standa yfir próf í skólum landsins og sumir eru svo heppnir að vera þegar búnir í prófunum. Portland-strákarnir eru hinsvegar enn í skólanum. Þeir eru að taka áfangan Úrslitakeppni 101 hjá prófessor Popovich og félögum.

Það kemur hrikalega illa við Blazers að eini maðurinn sem er megnugur þess að gefa liðinu smá neista af bekknum, Mo Williams, virðist vera meiddur og við eigum ekki von á að sjá hann gera neitt í leikjum þrjú og fjögur.

Það er nú samt þannig að ef Portland vantar eitthvað, verður það að fá það út úr byrjunarliðsmönnum sínum eins og undanfarin tvö ár. Það er ekki með nógu sterkan bekk enn sem komið er. Ætli við gefum okkur ekki að Portland spili betri vörn heima en í San Antonio og að kolvitlausir áhorfendurnir fleyti þeim lengra en þeir komust í Texas.

Við skulum a.m.k. vona það, svona einvígisins vegna.

* - Mönnum ber ekki saman um hvort Duncan hefur unnið fleiri leiki en 14 eða 16 leið í NBA deildinni, en við nennum að sjálfssögðu ekki að fletta því upp, enda skiptir rétta talan ekki máli - þið náið því alveg hvert við erum að fara með þessu.

VIÐBÓT:

Hérna er stöplarit sem sýnir liðin sem hafa unnið færri leiki en Tim Duncan í úrslitakeppni.