Sunday, November 17, 2013

Verstir í vestri


Það er ekkert auðvelt að vera Detroit Pistons. Það var og er kreppa í Bandaríkjunum og fáar borgir hafa orðið eins illa fyrir barðinu á henni og Detroit. Það er hrikalegt að sjá ástandið þar. Atvinnuleysi er mikið og ónýt og yfirgefin hús um alla borg. Detroit er að breytast í draugaborg. Eða kannski Gotham.

En hér var ætlunin að skrifa um körfubolta en ekki félagsfræðiritgerð. Það er nefnilega svo að það eru ljótir hlutir í gangi hjá Pistons - lygileg taphrina sem sýnir okkur svart á hvítu hvað þetta lið er búið að vera handónýtt síðan Joe Dumars losaði sig við leikmennina sem unnu titilinn fyrir áratug síðan.

Detroit gerði sér lítið fyrir og lagði Sacramento Kings á útivelli á föstudagskvöldið.

Þetta var afar þýðingarmikill sigur, því fyrir leikinn var Detroit búið að tapa 21 útileik í röð gegn liðum úr Vesturdeildinni.

Liðið hafði aðeins unnið einn af síðustu 45 útileikjum sínum gegn vestrinu og ef Sacramento er tekið út úr myndinni, eru töpin orðin 38 í röð.

Þetta er náttúrulega ekki í lagi.

Á undanförnum árum, hefur liðið reyndar náð að vinna einhverja 3 útileiki gegn Sacramento, en samkvæmt lauslegri könnun okkar, vann Detroit síðast útileik gegn vesturliði öðru en Kings þann 19. desember árið 2010. Pældu aðeins í því.

Þennan dag marði Detroit sigur á New Orleans eftir framlengdan leik. Rip Hamilton og Tracy McGrady voru í liði Pistons og maður leiksins var Tayshaun Prince, sem skilaði 28 stigum (12-16 í skotum), 12 fráköstum og 8 stoðsendingum.

Það er aðeins einn leikmaður í New Orleans liðinu í dag sem var í því fyrir þremur árum, en það er miðherjinn skemmtilegi Jason Smith sem þá var nýkominn til félagsins frá Fíladelfíu.

Vonandi fara nú heilladísirnar að koma úr fríi og henda beini í Detroit-liðið. Framlína Pistons er mjög frambærileg, en hefur þó enn ekki náð að stimpla sig almennilega inn í elítuna í deildinni. Þeir Greg Monroe og Andre Drummond eru nettir spilarar og það er ekki langt í að þeir taki stökkið ef þeir gera það á annað borð.