Thursday, November 21, 2013
Íþróttafólkið í Curry-fjölskyldunni
Það er nákvæmlega ekkert að því að vera Stephen Curry í dag. Þú ert ungur, myndarlegur, ríkur, vel giftur og besta skytta í heimi. Helvítis álag bara.
Það er ekki víst að yngri lesendur átti sig á því, en það er engin tilviljun að Stephen Curry sé svona hittinn. Pabbi hans Dell Curry var ein besta skytta sinnar kynslóðar í NBA deildinni þegar hann spilaði með frægu liði Charlotte Hornets á tíunda áratugnum.
Þar var hann liðsfélagi manna eins og Muggsy Bogues, Larry Johnson og Alonzo Mourning. Curry eldri skaut ófá liðin í kaf með bombum sínum af bekknum hjá Hornets.
Dell Curry lék með Hornets á árunum 1988-98 og eignaðist nokkur börn á þessum tíma. Eitt þeirra var Stephen Curry - maður sem allir sem fylgjast með NBA í dag þekkja.
Það er eiginlega fyndið að hugsa til þess að Curry hafi enn ekki verið valinn í Stjörnulið, en það verður væntanlega breyting á því í febrúar.
Stephen Curry er ekki eina undrabarnið undan Dell-gamla, því sonur hans Seth Curry spilaði fyrir Duke háskólann og hefur verið að banka á dyrnar í NBA deildinni.
Hann spilar sem stendur með systurfélagi Golden State, Santa Cruz Warriors og fékk að reyna sig hjá Golden State í haust. Hann náði þó ekki að landa samningi og ganga til liðs við bróður sinn.
Sonya Curry, móðir þeirra Curry-bræðra er fyrrum blakspilari og gerði gott mót á því sviði á sínum tíma. Systir þeirra Curry-bræðra, Sydel Curry, er að feta í fótspor móður sinnar og er fantagóð í blakinu.
Sannarlega mikil íþróttafjölskylda og skotvissari en flestar venjulegar fjölskyldur.
Það væri nú ekki leiðinlegt að sjá þá feðga Dell og Stephen fara í asna. Hvor þeirra ætli hefði betur? Kannski að við skerum bara úr um það á staðnum.
Stórskyttan okkar Stephen Curry gekk að eiga unnustu sína Ayeshu Alexander árið 2011* og saman eiga þau eina dóttur.
Dóttirin er svo hrikalega mikið krútt að hún er næstum því jafnmikið krútt og pabbi hennar. Næstum því. Þú ert ekki mannleg(ur) nema þig langi að klípa í kinnarnar á Steph og tala barnamál við hann.
Eins og sjá má á myndunum þarf móðir litlu stúlkunnar hún Ayesha ekkert að skammast sín fyrir útlitið. Hún er enda fyrrum fyrirsæta og leikkona, eins og um það bil allar konur sem ekki eru þeim mun ljótari í Bandaríkjunum.
Þau Ayesha og Curry eru svona klassískt hæskúl svítharts frá Charlotte og segir sagan að þau hafi bæði verið svo miklir dúllurassar að þau hafi aldrei ætlað að byrja saman. Fjölskyldur þeirra þekktust vel og fólkið var alltaf að tala um hvað væri mikill hjónasvipur með krökkunum tveimur. Nokkuð til í því.
Curry bað kærustu sinnar í innkeyrslunni hjá fjölskyldu sinni, staðnum þar sem hann kyssti hana í fyrsta sinn. Eins og nútímapara er siður, tilkynntu þau þetta að sjálfssögðu á Twitter á sínum tíma. Eru þau ekki óstjórnlegar dúllur?
* Hvað er samt að frétta með sækó-svipinn á Curry á brúðkaupsmyndinni þar sem þau sitja saman á bekknum?
Efnisflokkar:
Curry fjölskyldan
,
Krúttlegt
,
Netbrennur
,
Skotgleði
,
Stephen Curry
,
Tilhugalífið
,
Þristar