Thursday, November 21, 2013
Húnaveruleiki
Tólf leikir er slatti af körfubolta þó það sé ekki stór biti af kökunni sem er deildakeppnin í NBA. Við vorum í þann mund að byrja með einhver leiðindi út í Memphis Grizzlies þegar liðið byrjaði leiktíðina 3-5. Það hafði meira að segja spurst út að leikmennirnir væru ekki alveg að kaupa það sem þjálfarinn var að presentera fyrir þá.
En eins og svo oft vill verða í NBA deildinni, snerist dæmið allt í einu við - og það bara gjörsamlega á punktinum.
Á innan við viku er Griz nú allt í einu búið að vinna fjóra leiki í röð - alla á útivelli.
Tvö síðustu fórnarlömbin eru hin kynþokkafullu Clippers og nú síðast Golden State.
Svona sigrar segja ýmislegt.
Eitt er það sem breytist aldrei hjá Memphis, en það eru nöfn aðalleikaranna þegar vel gengur hjá liðinu. Miðherjinn skemmtilegi Marc Gasol er búinn að skila eftirtektarverðum tölum í vikunni: 20 stigum, 9 fráköstum og 7,3 stoðsendingum(!).
Zach Randolph er búinn að skila 20/10 í öllum leikjunum og er með 24/12 að meðaltali og 57% skotnýtingu. Mike Conley er svo (19/6) reyndar búinn að spila eins og engill í allan vetur.
Heldur hefur hallað undan væntingum hjá Húnunum síðustu misseri vegna nísku eigenda félagsins.
Vissulega var árangurinn sem liðið náði á síðustu leiktíð frábær, en það er erfitt að keyra upp anda og spennu í garð félags sem er hársbreidd frá því að keppa um titla, en mun aldrei gera það af því eigendurnir eru ekki tilbúnir að gera það sem þarf til að ýta liðinu yfir þröskuldinn.
Það er kannski einföldun að segja að það vanti lítið upp á að Memphis geti orðið meistari, en það er heldur engin lygi. Grizzlies er til dæmis með einstaka framlínu sem fá lið í deildinni geta stöðvað.
Aðeins klókindi San Antonio Spurs stóð í vegi fyrir Memphis og úrslitaeinvígisins á síðustu leiktíð. Það og algjör skortur á skyttum.
Svar stjórnarinnar við skyttuleysinu var að sækja lemstraðan líkama Mike Miller aftur til félagsins, en það er bara ekki nóg. Ef eigendur Memphis væru tilbúnir í að reyna að vinna titil, hefðu þeir borgað það sem þeir þurftu til að landa eins og tveimur góðum skyttum og styrkja varamannabekkinn til að gera alvöru atlögu að titlinum.
Það er hinsvegar ekki í boði og því þurfa stuðningsmenn Grizzlies að gera það sama og stuðningsmenn Oklahoma City þurfa mjög líklega að gera - horfa á möguleika liðs síns dala hægt og bítandi þangað til félagið missir leikmennina frá sér til klúbbs sem er tilbúinn að borga þeim, nú eða að þeir verða bara of gamlir og heltast úr lestinni eins og Zach Randolph gerir á næstu misserum.
Þetta er súrt, en þetta er sá raunveruleiki sem félögin standa frammi fyrir. Þetta er regluverkið sem samið var um.
Ríku klúbbarnir á stóru mörkuðunum halda áfram að eyða miklu og (stundum) ná árangri, en litlu félögin ná að byggja sig upp tímabundið á góðum ungum leikmönnum sem þau hafa svo ekki bolmagn til að halda og gefa loks frá sér.
Það er enginn jólaandi í þessum bransa.