Friday, October 18, 2013
Sautján metrar af mönnum
Það er ekkert grín að vera á röltinu í verslunarmiðstöð og mæta allt í einu sautján metrum af mönnum, sem verða hrikalegri eftir því sem þeir minnka. Það gerðist nú samt núna í vikunni eins og þið sjáið á myndinni hér fyrir neðan sem stolið var af Instagram.
Fyrir þau ykkar sem eruð alveg úti á túni og þekkið ekki mennina, eru þetta (frá vinstri) miðherjinn Ragnar "Nat-vélin" Nathanaelsson hjá Þór í Þorlákshöfn, Hafþór Júlíus Björnsson (aka Ljónið), heimsklassa aflraunamaður og fyrrum körfuboltamaður í KR og loks miðherjinn Egill Jónasson úr Njarðvík.
Natvélin hefur til þessa verið talinn hæsti núlifandi frónbúinn ásamt goðsögninni Pétri Guðmundssyni, en við veittum því athygli að Ragnar er farinn að lista sig 220 sentimetra á hæð en ekki 218 eins og... við héldum.
Mögnuð mynd af mögnuðum mönnum. Mikið væri nú gaman að fá smá kommbakk frá Hafþóri í körfuna. Ætlar þú að stíga mann út sem er 170 kíló skafinn og dundar sér við það að kasta vörubílsdekkjum út og suður? Einmitt.
Við vitum að við (eins og margir aðrir) eigum það til að ofnota orðið hrikalegur, en ef einhver Íslendingur er HRIKALEGUR, er það Hafþór Júlíus. Vinur hans og æfingafélagi Stefán Sölvi er svo auðvitað engin barbídúkka heldur. Toppmenn þessir strákar.
Það var synd að missa Hafþór úr körfunni, en úr því svo þurfti að vera, var þá gott að hann færi í kraftasportið. Aflraunirnar eru ekki sport fyrir neinar dúkkulísur. Meira fyrir hrikalega körfuboltamenn.
Efnisflokkar:
Egill Jónasson
,
Hrikalegheit
,
Ragnar Nathanaelsson
,
Veðrið þarna uppi