Tuesday, August 13, 2013

Það er ómögulegt að eiga ekki einkaþotu



















Scottie Pippen átti glæsilegan feril í NBA deildinni en hann var dálítið óheppinn þegar kom að því að gera samninga.  Þannig má segja að hann hafi samið af sér þegar hann gerði langtímasamning við Chicago Bulls á tíunda áratugnum, sem þýddi að hann var í rauninni á skítalaunum miðað við hinar stjörnurnar í liðinu um árabil.

Þar með er ekki sagt að Pippen hafi verið á einhverjum sultarlaunum, en hann verður seint sakaður um að hafa peningavit. Árið 2002 ákvað hann að hann væri ekki maður með mönnum nema kaupa sér einkaþotu. Hann sló til og keypti sér eitt stykki á litlar fimmhundruð milljónir króna.

Þegar til kastanna kom, reyndist flugvélin sem hann keypti vera bölvað drasl og kostnaður við að koma henni í gagnið var metinn á yfir hundrað milljónir króna. Það tók Pippen ekki í mál og parkeraði hann vélinni inni í skúr og fór í mál.

Það var svo ekki fyrr en árið 2010 sem dæmt var í málinu, en þá gat staurblankur Pippen leyft sér að brosa í smá stund þegar honum voru dæmdar um 250 milljónir í bætur í þessu andstyggilega máli. Pippen hefur líklega dregið lærdóm af þessu máli og vonandi gerið þið það líka, lesendur góðir. Þarna sjáið þið svart á hvítu að það borgar sig ekki fyrir ykkur að kaupa einkaþotu. Þetta höfum við alltaf sagt.