Sunday, July 7, 2013

Svarið við gátunni góðu


Dyggur lesandi minnti okkur á það í dag að við værum enn ekki búin að birta svarið við gátunni sem við settum hérna inn fyrir nokkru síðan.

Skemmst er frá því að segja að þátttakan í þessum litla leik var gríðarlega... engin. Þetta var auðvitað skepnuskapur hjá okkur að hafa þetta svona erfitt. Tökum það á okkur.

Hvað um það. Við spurðum ykkur hvað þeir Scott Ian gítarleikari Anthrax og Mike D´Antoni þjálfari Los Angeles Lakers ættu sameiginlegt og hér kemur svarið:

Þeir hafa báðir spilað með Billy Milano.

Mike D´Antoni spilaði um árabil sem atvinnumaður á Ítalíu þar sem hann var afar sigursæll með liði Olimpia í Mílanó. Á Ítalíu, eins og reyndar víðar í Evrópu, tíðkaðist að lið tækju nöfn stuðningsaðila sinna. Þannig fékk lið Olimpia nafnið Billy Milano á árunum 1978 til 1982 og heitir meira að segja Emporio Armani í dag.Gítarleikarinn Scott Ian er þekktastur fyrir mögnuð riff sín með hljómsveitinni Anthrax frá New York, en um miðjan níunda áratuginn ákváðu hann og trommarinn Charlie Benante að taka höndum saman við tvö aðra snillinga og stofna ruslmálmssveitina S.O.D. (Stormtroopers of Death).

Mennirnir sem um ræðir voru fyrrum Anthrax bassaleikarinn Dan Lilker (sem á þeim tíma spilaði með Nuclear Assault) og jú, söngvarinn Billy Milano (til vinstri á myndinni hér fyrir ofan), aðalsprauta hljómsveitarinnar M.O.D.

Fjórmenningarnir hittust og hentu saman plötunni "Speak English or Die" á mettíma, en hún braut niður ákveðna veggi milli harðkjarna-, pönkrokks og þyngri málma.

Það sem byrjaði sem grín hjá þeim félögum, átti eftir að verða plata sem olli straumhvörfum í metalnum.  Þetta er algjört meistarastykki sem til er á öllum betri heimilum.

En þið vissuð þetta nú auðvitað allt saman.

Kíktu endilega á þetta myndbrot hérna fyrir neðan, þar sem strákarnir í S.O.D. - og þá sérstaklega téður Billy Milano - sýna okkur hvernig á að opna rokktónleika. Gætið þess að fylgjast vel með Milano þegar hann mætir á svæðið.