Monday, July 8, 2013
Perlan og Riley
Rákumst á þessa skemmtilegu mynd á rúntinum um netið. Þetta er blaðaúrklippa frá árunum í kring um 1970 sem sýnir "Perluna" Earl Monroe hjá Baltimore Bullets dansa í kring um Pat Riley, þáverandi leikmann San Diego Rockets.
Þeir Riley og Monroe komu báðir inn í NBA deildina árið 1967 en gegndu ólíku hlutverki hjá liðum sínum. Riley var rulluspilari allan leikmannsferilinn og sló ekki í gegn fyrr en hann hætti að spila og gerðist þjálfari.
Perlan lét hinsvegar strax til sín taka og var kjörinn nýliði ársins 1968 þegar hann skilaði 24 stigum, 6 fráköstum og 4 stoðsendingum í leik með Bullets.
Monroe og félagar komust alla leið í lokaúrslitin árið 1971 en máttu sín lítils gegn ógnarsterku liði Milwaukee Bucks með þá Jabbar og Oscar Robertson fremsta í flokki.
Mikil meiðsli voru í herbúðum Bullets og fyrir vikið var liðinu sópað í úrslitunum 4-0.
Svo skemmtilega vill til að leiktíðina 1971-72 skiptu bæði Riley og Monroe um lið. Monroe fór þá til New York Knicks þar sem hann myndaði eitt besta bakvarðapar sögunnar ásamt Walt "Clyde" Frazier, en þeir félagar skoruðu samtals um 46 stig í leik að meðaltali á þessari leiktíð.
MYND: Phil Jackson (nr.18) setur hindrun fyrir Walt Frazier (nr.10) í leik gegn Seattle Supersonics. Spencer Haywood (nr.24) heldur utan um Jackson og ennisbandafrumherjinn "Slick" Watts fylgist með lengst til hægri.
Pat Riley gekk í raðir LA Lakers og reyndist happafengur hinn mesti ef marka má árangur liðsins eftir komu hans, því hér er um að ræða liðið sem vann 33 deildaleiki í röð og setti met sem stendur enn. Lakers lauk deildakeppninni með 69 sigra og 13 töp, sem á þeim tíma var met.
Lykilmenn í þessu Lakers-liði voru Wilt Chamberlain, Jerry West, Gail Goodrich, Jim McMillian og Happy Hairston og er þetta lið oftast haft með í umræðunni þegar talað er um bestu lið allra tíma í NBA deildinni.
Og enn lágu leiðir Monroe og Riley í líka átt, því New York og Los Angeles mættust svo í lokaúrslitunum þetta árið, þar sem Lakers hafði betur 4-1 og landaði því loksins titlinum langþráða.
Liðið hafði þá tapað hvorki meira né minna en sjö sinnum í lokaúrslitum frá árinu 1962 - oftast fyrir frábæru Celtics-liði Bill Russell og félaga sem var nánast áskrifandi að meistaratitlinum á þessum árum.
MYND: Pat Riley hjá Lakers (nr.12) sækir að Phil Jackson hjá Knicks (nr.18)
New York þurfti ekki að bíða lengi eftir að ná fram hefndum gegn Lakers, því árið eftir snerist dæmið við þegar Knicks vann öruggan 4-1 sigur í úrslitaeinvíginu 1973. Þetta var annar meistaratitillinn í sögu Knicks, sem reyndar hefur ekki unnið hann síðan.
Til gamans má geta þess að þjálfarinn Phil Jackson var í leikmannahópnum hjá New York árið á þessum árum, en var aðeins rulluspilari hjá liðinu líkt og Pat Riley hjá Lakers. Það var "Kafteinninn" Willis Reed sem kjörinn var verðmætasti leikmaður úrslitaeinvígisins 1973 rétt eins og þremur árum áður.
Efnisflokkar:
Bullets
,
Earl Monroe
,
Gamla myndin
,
Klassík
,
Knicks
,
Lakers
,
NBA 101
,
Pat Riley
,
Phil Jackson
,
Sögubækur
,
Titlar
,
Walt Frazier