Friday, July 12, 2013
Paul Silas er sjötugur í dag
Stórhöfðinginn Paul Silas á stórafmæli í dag og er orðinn sjötugur. Hann hefur verið viðriðinn NBA deildina meira og minna í hálfa öld, fyrst sem leikmaður og síðar sem þjálfari. Silas var um það bil 10/10 maður að meðaltali yfir ferilinn, var tvívegis í Stjörnuliði og tvisvar í 1. varnarúrvali deildarinnar.
Hann kom inn í deildina árið 1964 þegar St. Louis (Atlanta) Hawks tók hann í annari umferð nýliðavalsins. Auk þess lék hann með Boston, Denver, Phoenix og Seattle.
Silas varð meistari með Boston 1974 og ´76 og krækti í þriðja titilinn með Sonics árið 1979.
Þjálfaraferill Silas hófst árið 1980 þegar hann tók við San Diego Clippers en þar var hann aðeins í þrjú ár.
Næst poppaði hann reyndar ekki upp fyrr en hjá Charlotte/New Orleans Hornets árið 1998 og var þar til 2003, þegar hann tók við Cleveland í tvö ár. Þar var hann þess heiðurs aðnjótandi að vera fyrsti maðurinn sem þjálfaði LeBron James þegar hann kom inn í deildina 2003.
Nú síðast þjálfaði Silas vitleysingahælið Charlotte Bobcats frá árinu 2010 til 2012 og hefur eflaust fengið alveg nóg af þjálfun eftir þann hrylling. Ritstjórn NBA Ísland óskar Silas hjartanlega til lukku með daginn og vonar að hann þurfi aldrei að þjálfa lið eins og Kettina aftur.
Efnisflokkar:
Afmæli
,
LeBron James
,
Paul Silas
,
Sögubækur
,
Titlar
,
Þjálfaramál