Wednesday, July 3, 2013
Frá mannanafnanefnd
Í gær fór fram vináttuleikur í knattspyrnu þar sem Úkraínumenn tóku á móti Ganamönnum í Kænugarði.
Heimamenn komust tveimur mörkum yfir í fyrri hálfleik með mörkum frá bakverðinum Joel Przybilla og framherjanum skæða Ersan Ilyasova, en gestirnir frá Afríku tóku heldur betur við sér í þeim síðari.
Á aðeins átta mínútna kafla um miðbik síðari hálfleiksins tókst Ganamönnum að skora þrívegis.
Þar voru að verki þeir Giannis Antetokounmpo, Luc Mbah a Moute og miðjumaðurinn magnaði Ekpe Udoh, en mark hans kom úr umdeildri vítaspyrnu sem bólivíski dómarinn Gustavo Ayón dæmdi á heimamenn. Fleiri urðu mörkin ekki þrátt fyrir ágæta tilburði heimamanna til að jafna, en Ganamenn unnu þarna sinn fyrsta útisigur á liði í Evrópu í sautján mánuði.
Hljómar ekkert svo illa...
Þeir sem til þekkja átta sig samt á því að allt ofangreint er bull. Okkur datt bara í hug að prófa að nota nöfnin á leikmönnum Milwaukee Bucks í eitthvað annað í smá stund og sjá hvernig það kæmi út.
Það hefur verið umtalað síðustu ár hve skrautleg nöfn hefur verið að finna í herbúðum Bucks, en félagið fór hreinlega yfir strikið í nýliðavalinu á dögunum þegar það notaði fimmtánda valréttinn á mann sem heitir, jú...
Giannis Antetokounmpo
Það er ekki hægt að skálda svona nöfn.
Gárungarnir kalla aumingja Giannis ekki annað en Ctrl+V og sjónvarps- og útvarpsmenn í NBA deildinni eru strax farnir að svitna yfir því að þurf að bera þetta nafn fram næsta vetur.
Það gæti tekið þá tíma að ná þessu nafni ef horft er til þess að þeir eru ekki enn búnir að læra að bera fram nöfn eins og Nikola Pekovic (Peck-o-vick).
Efnisflokkar:
Aðstaða Blaðamanna
,
Bucks
,
Ersan Ilyasova
,
Giannis Antetokounmpo
,
Guðmundur
,
Knattspyrna
,
Mannanafnanefnd
,
Ruglað saman reitum
,
Smelltu annari rækju á grillið félagi