Tuesday, July 2, 2013

Þegar Mark Eaton hitti Wilt Chamberlain


Varnartröllið Mark Eaton hefur meðal annars unnið sem hvatningarræðumaður síðan hann lagði körfuboltaskóna á hilluna á tíunda áratugnum.

Hinn 224 sentimetra hái miðherji var ekki mikill körfuboltamaður framan af ferlinum en fann sína hillu eins og hann segir frá í myndbandinu hérna fyrir neðan.

Eaton fékk ekki að spila mikið með UCLA háskólanum á sínum tíma og var því ekki hátt skrifaður þegar kom að nýliðavalinu í NBA árið 1982.

Hinn ævintýragjarni Frank Layden hjá Utah Jazz ákvað þó að taka sénsinn á honum í fjórðu umferðinni af því að "það er ekki hægt að kenna mönnum að vera hávaxnir."

Jazz vann sannarlega í lottóinu því Eaton á enn metið yfir hæsta meðaltal í vörðum skotum á einu tímabili (5,6) í NBA deildinni og var tvívegis kjörinn varnarmaður ársins.

Hann afrekaði meira að segja að vera valinn í Stjörnuliðið árið 1989 ásamt félögum sínum John Stockton og Karl Malone. Hann varði 3,5 skot að meðaltali í leik yfir NBA ferilinn, sem er einstakt.

Ath! - Smelltu samt á myndina af gaurnum hérna fyrir ofan og pældu í því hvað hann var raunverulega risavaxinn. "Titturinn" í Sonics-treyjunni sem er að keyra fram hjá honum á myndinni er Xavier "X-maðurinn" McDaniel, sem er rétt rúmir tveir metrar á hæð og var maður sem engin vildi mæta í dimmu húsasundi.