Saturday, June 22, 2013

Frábæru úrslitaeinvígi er lokið


Einu jafnasta lokaúrslitaeinvígi síðari ára í NBA deildinni er lokið og það er Miami Heat sem er meistari annað árið í röð eftir 95-88 sigur á San Antonio í hreinum úrslitaleik á fimmtudaginn.

Það er búið að vera hreint út sagt dásamlegt að fylgjast með þessari rimmu og það eru forréttindi að horfa á svona góða leikmenn spila körfubolta. Það er alltaf sérstök stemning á hreinum úrslitaleik þar sem allur veturinn er undir og það voru hæfileikar og taugar Miami sem höfðu betur að þessu sinni.

Sumir voru að kvarta yfir því að einvígi Heat og Spurs hafi verið ójafnt - að það hafi verið of miklar sveiflur milli leikja. Kannski var eitthvað til í því framan af, en ekki lengur.

Úrslitin í fyrsta leiknum réðust á ævintýralegu skoti í blálokin, sjötti leikurinn var einn besti lokaúrslitaleikur í sögu NBA deildarinnar og sá sjöundi fór langt fram úr væntingum í gæðum og dramatík.

Úrslitakeppnin í NBA 2013 varð ekki eins mögnuð og til stóð vegna meiðslaflóðbylgjunnar sem reið yfir deildina í vetur, en þegar komið var í lokaúrslitin var einfaldlega boðið upp á veislu.

Það getur vel verið að Oklahoma hefði farið aftur í lokaúrslitin ef Russell Westbrook hefði ekki meiðst og það getur vel verið að Chicago Bulls hefði staðið miklu meira í Miami með alla sína menn heila.'

Það er hinsvegar tilgangslaust að velta sér upp úr slíkum pælingum, sérstaklega í ljósi þess að liðin tvö sem kepptu til úrslita eru gríðarlega sterk, hvort á sinn hátt. Það má vel vera að skörð hafi verið höggvin í liðin í fyrstu umferðunum í úrslitakeppninni, en þegar komið var í úrslitin var þetta dýrari týpan út í eitt.

Sjötti og sjöundi leikurinn í úrslitaeinvíginu voru stórkostleg skemmtun.

Það segir kannski sína sögu um hvað sjötti leikurinn var magnaður að ritstjórn NBA Ísland hefur ekki skrifað staf síðan hann var flautaður af.

Fólk þurfti að stilla klukkur upp á nýtt og lausir munir duttu úr hillum og niður á gólf.

Það er svo gaman að verða vitni að svona sögulegum leikjum eins og flugeldasýningunni á þriðjudaginn var.

Spilamennskan var í hæsta gæðaflokki og við fengum bæði hávaða dramatík og fullt af litlum atvikum og smásögum til að ræða og rífast um í allt sumar.

Hugsið ykkur bara hvað Miami var rosalega stutt frá því að missa titilinn í hendur San Antonio í sjötta leiknum. Eitt víti eða eitt frákast og leikurinn hefði verið búinn - Spurs meistari.

Bæði leikmenn og áhorfendur voru orðnir 97% öruggir með að þetta væri búið mál, en með blöndu af grimmd, áræðni og heppni tókst Miami að koma þessu í framlengingu og vinna.

Margir höfðu það á tilfinningunni allan oddaleikinn að Miami væri alltaf 15-20 stigum yfir, en San Antonio var samt aldrei langt undan. Það er dálítið dæmigert fyrir þetta Spurs-lið. Það lallar bara áfram eins og dieselvél. Svo rútínerað og agað.

Spennan í báðum þessum leikjum var næstum óbærileg og við örkuðum um gólf og nöguðum neglur upp í miðja putta þó við værum hlutlaus.. Það hefur ekki verið auðvelt að vera stuðningsmaður annars hvors liðsins í þessari rimmu. Sannarlega ekki fyrir viðkvæma eða hjartveika.

Við vorum í nokkuð sérstakri stöðu í þessu einvígi af því við vildum helst að bæði myndu vinna sigur.

Það voru áhugaverðar smásögur í gangi beggja vegna borðsins í rimmunni og ljóst að niðurstaðan í oddaleiknum ætti eftir að ráða nokkru um það hvernig þátttakendur í leiknum verða dæmdir í sögulegu samhengi á næstu árum og áratugum.

Ef þú pælir í því, er það auðvitað rosalegur fasismi að hampa bara öðru liðinu  í þessu einvígi en gleyma hinu. Auðvitað var ömurlegt fyrir San Antonio og stuðningsmenn liðsins að tapa þessu, en það er samt óþarfi að taka þetta lið og henda því í ruslið.

Kannski eru það bara við, en við verðum alltaf vör við meiri og meiri öfgar hjá fólki þegar það er að fylgjast með úrslitakeppninni í NBA og ekki síst lokaúrslitunum. Menn eru annað hvort hetjur eða djöflar og á það sérstaklega við um aumingja LeBron James.

Það var ekki nóg að James færi hamförum undir lok beggja leikja sem um ræðir og skilaði í þeim tölum í kring um 35/11/8. Undir lok sjötta leiksins tapaði hann boltanum klaufalega í sókninni og átti skot sem geigaði illa.

Staðan var hreint út sagt orðin ansi slæm hjá Miami undir lok venjulegs leiktíma. Stuðningsmennirnir strunsuðu út úr húsinu og Fúlir á móti (Haters) fóru að brýna klærnar.

Nú átti að rífa LeBron James á hol af því hann sagði félögum sínum ekki að drulla sér frá og kláraði hverja einstu sókn með körfu eins og Michael Jordan hefði alveg örugglega gert. Þetta var komið hjá Spurs, en á einhvern óskiljanlegan hátt rann þetta einu reyndasta liði deildarinnar úr greipum.

Við sögðum ykkur að líkurnar á því að Spurs næði að rífa sig upp og klára leik sjö væru álíka góðar og að koma Lemmy í Motorhead á AA fund. Það kom því miður í ljós.

Það var ekki til að gleðja okkur hvað Manu Ginobili kom hressilega niður á jörðina hjá Spurs eftir fimmta leikinn - NBA Ísland leikinn eins og hann var kallaður.

Ginobili tapaði sex boltum að meðaltali í síðustu tveimur leikjunum og datt aftur í pakkann sem fékk okkur til að skrifa hann út af sakramentinu um daginn. Þetta er ömurlegt en satt og það verður áhugavert að sjá hvað Manu ætlar að gera í framhaldinu.

Við vorum að vona að San Antonio myndi taka þennan titil af því við óskuðum þess að Timmy, Tony og Manu næðu í einn í viðbót.

Við höfum áður sagt ykkur hvað við erum hrifin af því hvernig San Antonio gerir hlutina og finnst því liðið verðskulda eina dollu enn. Jafnvel þó það sé stórskrítið að það sé komið í lokaúrslit aftur sex árum eftir síðasta túr þangað.

Við vildum líka að Miami yrði meistari og þá fyrst og fremst af því við vildum að LeBron James næði sér í annan titil. Það þýðir því miður að Shane Battier og Chris Bosh fái líka meistaratitil, en það er alltaf einhver fórnkostnaður í þessu.

Eins og flestir vita munaði nývöxnu veiðihári að San Antonio næði að klára einvígið í sjötta leiknum og þið getið líklega gert ykkur í hugarlund hvert umræðan hefði flætt eins og aurskriða ef niðurstaðan hefði verið sú.

LeBron James hefði verið tekinn af lífi í allri umfjöllun um úrslitin alveg óháð því hvernig hann spilaði.

Miami vann hinsvegar leikinn og fyrir vikið er James dubbaður upp sem hetja vikunnar, bara af því einhver kjúklingurinn hjá Spurs klikkaði á einu saklausu víti eða af því að Chris Bosh náði að grísa á sóknarfrákast og koma því út á Ray Allen í þristinn.

Það er svo stutt á milli Óskars og Ófeigs í þessu. Allt of stutt. Auðvitað er betra að vinna tvo titla og eitt silfur á þremur árum en að tapa tveimur af þremur lokaúrslitarimmum.

Miami er betra lið en San Antonio og sannaði það með því að vinna einvígið, en það verður seint sagt að það hafi verið með sannfærandi hætti. Það er reyndar voðalega þægilegt að sitja heima í stofu og gagnrýna lið fyrir að slátra ekki San Antonio.

Það er ekki oft sem Gregg Popovich er gagnrýndur, en það bar nokkuð á óánægju með nokkrar af ákvörðunum hans undir lok síðustu leikjanna í Miami.

Eins og t.d. af hverju hann var að taka Tony Parker (Ginobili - tapaður bolti) og Tim Duncan (Bosh - sóknarfrákast) út af á ögurstundu og freista þess jafnvel að brjóta þegar lið hans var þremur stigum yfir í lokin.

Við vorum að vonast til þess að ein sería í þessari úrslitakeppni yrði ekki menguð af alvarlegum meiðslum en varð ekki að ósk okkar með það frekar en í öllum hinum. Hnémeiðsli Dwyane Wade gerðu honum erfitt fyrir framan af í einvíginu en það skilur enginn hvað er að honum, allra síst hann sjálfur.

Verra var með aumingja Tony Parker, en hann var í ruglinu eftir að hann meiddist á læri í fimmta leiknum. Mikilvægasti leikmaðurinn í sóknarleik San Antonio var því hálfur maður og hitti úr 9 af 35 skotum sínum í leikjum sex og sjö. Það hlýtur að vera ömurlegt að kyngja því. Parker og félagar ætluðu að vinna einn í viðbót fyrir Duncan og voru svooo nálægt því, en nú er síðasti sénsinn farinn.

Rétt eins og þegar Miami lokaði Oklahoma í fyrra, átti einn af aukaleikurum Miami stórleik sem hjálpaði mikið til við að landa titlinum.

Á síðustu leiktíð var það Mike Miller sem sallaði sjö þristum á Thunder úr átta tilraunum, en í oddaleiknum á fimmtudaginn var komið að Shane Battier.

Framherjinn floppandi hafði mátt þola að detta úr náðinni hjá þjálfara sínum í einvíginu, en hélt haus og var tilbúinn þegar kallið kom. Hann setti sex þrista úr átta tilraunum og skoraði 18 stig í sjöunda leiknum.

Eftir að hafa byrjað skítkaldur utan af velli í úrslitunum, setti Battier 9 af síðustu 12 þristum sínum ofan í.

Það var aldrei spurning að LeBron James yrði valinn verðmætasti leikmaður lokaúrslitanna ef Miami tækist að vinna, en við leyfum okkur að fullyrða að liðið hefði aldrei klárað þetta ef það hefði ekki fengið svona fína hluti frá aukaleikurunum

Mike Miller, Ray Allen og Shane Battier. Þessir kappar voru með 52% þriggja stiga nýtingu í finals.

Mikið hefur verið ritað um Chris Bosh og hans frammistöðu í einvíginu. Hann spilaði sína rullu en skoraði reyndar ekki eitt einasta stig í oddaleiknum. Sem betur fer fyrir hann kom það ekki að sök.

Bosh náði að minnsta kosti að bæta sig aðeins í fráköstunum. Eftir að hafa aðeins tvisvar hirt 9 fráköst eða meira í fyrstu þremur umferðunum í úrslitakeppninni, var hann með 9 að meðaltali í lokaúrslitunum.

Nauðsynlegur faktór og mikilvæg fráköst sem hann hirti - ekki síst lykilfrákastið í sjötta leiknum.

Magnað að LeBron James skuli loka þessu einvígi með því að skjóta Spurs í kaf.

Hann bauð upp á fimm þrista og helling af skotum af millifærinu út um allan völl. Dæmi um hvað hann hefur bætt sig mikið. Á myndinni hérna fyrir ofan sérðu vinstra megin skotkortið hans úr leikjum 1-6 og hægra megin skotin hans í sjöunda leiknum.

San Antonio leyfði honum að taka þessi skot, því það er alltaf skárra að fá þau í andlitið en sniðskot í teignum. Það yrði einfaldlega ósanngjarnt ef James næði fullkomnum tökum á þessu stökkskoti sínu. Þá fyrst yrði hann óstöðvandi.

Nú erum við búin að tuða samhengislaust í góðan tíma um þetta úrslitaeinvígi og vonandi hefur einhver gaman af því.

Við erum samt ekki alveg búin því við eigum eftir að skoða framtíðina hjá þessum liðum, sem og öðrum sem gerðu góða hluti í úrslitakeppninni í vor. Hvort sem það verður í pistlaformi eða hlaðvarpi kemur í ljós

Að lokum óskum við stuðningsmönnum Miami til hamingju með titilinn og þökkum ykkur fyrir lesturinn og hlustunina í vetur, þó rétt sé að taka fram að NBA Ísland heldur áfram á fullu í sumar þó boltinn sé hættur að rúlla í bili.

Við minnum ykkur svo aftur á nýja fídusinn sem er ofarlega til hægri hér á síðunni þar sem þið getið lagt okkur lið með dónasjónum í gegn um Paypal (guli takkinn sem á stendur "Þitt framlag").

Það væri frábært ef þú hefðir tök á að hjálpa okkur að halda flæðinu og bæta andann á ritstjórninni. Við þökkum þeim sem þegar hafa lagt sitt að mörkum auðmjúklega fyrir okkur og vonum að fleiri sjái sér fært að taka þátt í þessu.