Wednesday, May 15, 2013
Látið boðin berast
New York Knicks lagði mikið upp úr langskotunum í vetur. Byrjaði sjóðandi heitt og var líka í miklu stuði á síðustu vikunum í deildakeppninni. Knicks tók rétt tæplega 29 þriggja stiga skot að meðaltali í vetur, sem er með því mesta sem sést hefur í sögu NBA. Þá hitti liðið þokkalega - eða tæp 38%.
Indiana veit að New York vill skjóta mikið fyrir utan og í fyrstu fjórum leikjunum í einvíginu, gekk Pacers nokkuð vel að hrekja Knicks af þriggja stiga línunni. Svo vel að New York tók "aðeins" 20 þrista í hverjum leik og þá var hittnin ekki nema 33%.
New York er nú komið í bullandi vandræði í einvíginu, er á leið á heimavöllinn sinn í leik sex þar sem það gæti endað í sumarfríi ef það vinnur ekki. Knicks getur huggað sig við að Indiana getur hvenær sem er hitt á ömurlegan leik í sókninni þar sem ekkert gengur, svo liðið á enn möguleika þó hann sé ekki stór.
Það hefur líka vakið athygli okkar hvað Roy Hibbert hefur spilað vel fyrir Indiana í þessu einvígi og stóru mennirnir hjá Pacers hafa gjörsamlega tekið Tyson Chandler og félaga í nefið. Bættu svo við það þeirri staðreynd að ´Melo hefur verið í strangri gæslu og hitt illa , JR Smith er að reyna að eiga lélegustu seríu allra tíma og New York er komið í talsverð vandræði.
Efnisflokkar:
Carmelo Anthony
,
JR Smith
,
Knicks
,
Múrsteinahleðsla
,
Pacers
,
Roy Hibbert
,
Úrslitakeppni 2013