Friday, May 10, 2013
Fáum þá kortið hans Ká Djé líka
Kevin Durant er búinn að fara hamförum í úrslitakeppninni síðan félagi hans Russell Westbrook datt úr leik vegna meiðsla í öðrum leiknum við Houston í fyrstu umferðinni. Pilturinn er búinn að spila um það bil eins vel og hægt er - minnir dálítið á LeBron James hjá Cleveland þegar Cavs gat ekki neitt.
Durant gerir allt. Hann spilar stöðu leikframherja, stýrir spilinu og er aðalskorari Oklahoma með 33 stig að meðaltali í leik - heilum fjórum stigum meira en næsti maður. Þar að auki er hann að hirða yfir níu fráköst (7. í úrslitakeppninni) og gefa yfir sex stoðsendingar (9. í úrslitakeppninni).
Klisjan segir að OKC fari eins langt og Kevin Durant ber það, en þessi klisja er bara heilagur sannleikur í þessu tilviki. Serge Ibaka er ekki að standa sig, Kendrick Perkins er einn lélegasti leikmaður deildarinnar og leikstjórnendurnir eru annað hvort blautir á bak við eyrun eða á leið á Hrafnistu.
Kevin Martin verður að spila eins og höfðingi til að Oklahoma eigi séns á að vinna leiki og í síðustu fjórum leikjum hefur verið 100% fylgni milli frammistöðu hans og gengi liðsins. Martin gat ekkert í síðasta leik (tap), var mjög flottur í tveimur þar á undan (sigrar) og hörmulegur í leiknum þar á undan (tap).
Martin er klókur og ökónómískur skotmaður í deildakeppninni, en það er of auðvelt að berja hann út af laginu í úrslitakeppninni og fá hann til að hætta að hitta. Við sögðum ykkur þetta í haust og þetta er að koma á daginn núna, þó við höfum auðvitað ekki reiknað með því að hann fengi jafn stórt hlutverk og hann gegnir í fjarveru Westbrook.
Efnisflokkar:
Kevin Durant
,
Skotkort
,
Tölfræði
,
Úrslitakeppni 2013