Saturday, May 18, 2013
Blóðugur bardagi í Indiana í kvöld
Á miðnætti í kvöld berjast Indiana og New York um síðasta lausa sætið í undanúrslitum úrslitakeppni NBA deildarinnar. New York hélt lífi með sigri í Madison Square Garden í síðasta leik en róðurinn verður þyngri í Hlöðunni í Indiana í nótt þar sem heimamenn hafa ekki tapað leik í úrslitakeppninni.
Flestir reikna með því að það verði Indiana sem fer áfram úr þessu einvígi, því liðið komst í 3-1 og fær því annað tækifærið í röð til að klára einvígið í kvöld - nú á heimavelli. Því er ekki að neita að Pacers hefur verið sterkara liðið í rimmunni, en meiðsli gætu þó átt eftir að setja strik í reikninginn hjá liðinu.
Leikstjórnandi Indiana, George Hill, var besti maður liðsins í leik fjögur en hann fékk höfuðhögg í leiknum og gat því ekki verið með í fimmta leiknum í New York. Indiana saknaði hans mikið í þeim leik og óvíst er hvort hann fær grænt ljós á að vera með í kvöld. Breiddin hjá Pacers er einfaldlega ekki nógu mikil til að liðið megi við því að missa byrjunarliðsmann í meiðsli.
Útlitið er dökkt hjá New York sem stendur, en takist liðinu hinsvegar að vinna í Indiana í nótt, á það oddaleikinn á heimavelli sínum og þá getur allt gerst. Til að svo megi verða, verður New York hinsvegar að ná að spila sinn leik og fá eðlilegt framlag frá helstu vopnum sínum í sóknarleiknum. Það hefur ekki tekist almennilega hjá Knicks í einvíginu og eiga öflugir varnarmenn Indiana sinn þátt í því.
Það verður barist til síðasta manns í Indiana í nótt, þetta er úrslitaleikur fyrir bæði lið. New York er úr leik ef það tapar - Indiana hefur alls ekki efni á að missa þetta í oddaleik í New York.
Fylgist með á Sportinu á miðnætti.
Efnisflokkar:
Dagskrá