Saturday, April 6, 2013

Starfsmaður mánaðarins - aftur


Þeir voru að útnefna leikmenn mánaðarins í NBA. Kevin Durant var maður mánaðarins í Vesturdeildinni en LeBron James í Austurdeildinni.

Við kunnum betur við það þegar einn maður hreppti hnossið - það tekur dálítið glansinn af útnefningunni þegar tveir menn fá hana eins og gert hefur verið frá því skömmu eftir aldamótin.

Hvað sem þessu líður er það LeBron James sem er að stela senunni enn og aftur.

Þetta er nefnilega í fimmta skiptið í röð sem James er valinn leikmaður mánaðarins, sem er með ólíkindum.

Síðan byrjað var að veita þessi verðlaun árið 1980 hefur engum tekist að vinna þessi verðlaun svona oft í röð og James er líka í dauðafæri til að hirða verðlaunin í öllum mánuðum tímabilsins, sem auðvitað yrði met.

Því miður fyrir James eru þó ekki miklar líkur á því að hann verði kjörinn leikmaður aprílmánaðar, því hann er nú hvíldur fyrir átökin í úrslitakeppninni.

James hefur nú samtals verið kjörinn leikmaður mánaðarins tíu sinnum síðan hann kom til Miami og það er félagsmet. Ekki dónalegt að slá það á aðeins þremur árum hjá félaginu. Leikmenn Heat hafa alls tuttugu sinnum hlotið þessa nafnbót í sögu klúbbsins. James á helminginn af þeim.

Þessi drengur er ekki hægt.