Thursday, April 4, 2013

Einstefna í DHL höllinni í kvöld


Einvígi Grindavíkur og KR í undanúrslitunum ætlar að verða eins rosalegt og við vorum öll að vona. Nú er staðan orðin 1-1 og stuðið allt á KR, sem hefur verið betri aðilinn síðustu sex leikfjórðunga eða svo.

Boltinn er hjá Grindavík að svara þessu um helgina og þá verður liðið að spila eitthvað nálægt fullri getu til að vinna, því Vesturbæingarnir eru komnir með bullandi trú á þessu. Ekki oft sem Grindavíkurliðinu er haldið í einhverjum 70 stigum.

Þið getið rétt ímyndað ykkur hvað það gladdi okkur að vera viðstödd það sem við kjósum að kalla útgáfupartí Martins Hermannssonar. Strákurinn stóð sig gríðarlega vel. Það hefur verið svo gaman að fylgjast með honum vaxa. Hann er orðinn sterkari, áræðnari og í alla staði betri. Þetta er að verða alvöru leikmaður og það rétt um átján vetra gamall.

Það bar ekki mikið á erlendu leikmönnum KR í sóknarleiknum. Þar voru það Martin (23/7), Helgi (18/7) og Finnur (16/10) sem drógu vagninn. Vakti athygli okkar hvað Helgi var grimmari í sóknarleiknum. Vörn KR er orðin eins og hún á að sér að vera.

Vonandi eru meiðsli Brandon Richardson hjá KR ekki alvarleg. Það er alltaf betra þegar allir eru heilir og með. Því er líka grábölvað að þeir Ólafur Ólafsson og Ómar Sævarsson skuli ekki geta tekið þátt í gleðinni með Grindavík.

Þetta var bara einhvern veginn aldrei að fara að gerast hjá Grindavík í kvöld. Liðið var óþekkjanlegt. Þriðji leikurinn í þessu einvígi er svo áhugaverður að reikna má með að götur verði auðar allt norður á Dalvík - það verða allir að horfa.