Monday, April 1, 2013

Höfðingjar 50/40/90 klúbbsins


Mikið hefur verið rætt um það í vetur að Kevin Durant eigi nú góða möguleika á að verða einn af fáum mönnum í NBA sögunni til að komast í 50/40/90 klúbbinn. Þetta stendur fyrir 50% skotnýtingu, 40% þriggja stiga nýtingu og 90% vítanýtingu.

Þeir Steve Nash, Reggie Miller og Dirk Nowitzki hafa áður náð þessum áfanga, en þeir skoruðu ekki eins mikið af stigum og Larry Bird gerði þegar hann náði þessu tvö ár í röð á níunda áratugnum. Kevin Durant er líka að skora mikið og það þykir vænlegra að stórskyttur séu með þessa tölfræði en til dæmis menn sem taka kannski færri og úthugsaðari skot ef svo má segja.

Stóri munurinn á Bird og Durant er að ef Durant nær að klára með þessa tölfræði eins og líkur benda til, er hann að gera það þegar hann er aðeins 24 ára gamall. Bird var þrítugur þegar hann var með þessar ógurlegu tölur á sínum tíma.

Nú er það ekki ætlun okkar að fara að bera þá Bird og Durant saman sérstaklega, enda er hlutverk þeirra á vellinum alls ekki það sama þó þeir spili nú sömu stöðu svona að nafninu til. Það er líka þungur kross að bera fyrir 24 ára gamlan strákpjakk að vera borinn saman við mann sem var kallaður Jesús og bar það viðurnefni bara nokkuð vel.

Nei, við vildum bara sýna ykkur þetta svart á hvítu, tölurnar. Þið takið eftir því þegar þið skoðið tölurnar hans Bird að hann var nánast í 50/40/90 á hverju ári þegar hann var upp á sitt besta. Ef hann var undir þessum tölum, munaði það bara veiðihári.

Þá er bara að vona að þessi stutta hugleiðing eigi ekki eftir að jinxa Durant út af laginu. Annað eins hefur reyndar gerst... (smelltu á myndina fyrir neðan til að sjá þetta almennilega)